Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 11322/2021)

Kvartað var yfir synjun á afhendingu gagna vegna ráðningar í starf hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt stjórnsýslulögum  er stjórnvaldi heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að takmarka aðgang aðila máls að gögnum. Í þessu tilfelli laut beiðnin að úrlausnum umsækjenda á greindarprófi. Í rökstuðningi nefndarinnar fyrir synjun sagði, auk annars, að þær gætu falið í sér viðkvæmar persónulegar upplýsingar og því hefðu umsækjendur ríka hagsmuni af því að niðurstöður úr prófunum færu leynt. Umboðsmaður taldi ekki líklegt að frekari athugun sín myndir leiða til þess að gerðar yrðu athugasemdir við ákvörðun nefndarinnar enda byggðist hún á atviksbundnu mati á því hvort einkahagsmunir þeirra sem þreyttu prófið væru ríkari en hagsmunir þess sem sóttist eftir niðurstöðunum. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 24. september sl., þar sem þér kvartið yfir að yður hafi verð synjað um afhendingu tiltekinna gagna í kjölfar ráðningarferlis vegna ráðningar í starf lögfræðings hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að þegar sérstaklega stendur á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Stjórnvaldi ber þannig að leggja mat á þau andstæðu sjónarmið sem uppi eru í hverju máli vegna einstakra gagna.

Í ákvörðun nefndarinnar frá 2. september sl., þar sem beiðni yðar er hafnað, kemur fram að um sé að ræða beiðni um afhendingu á úrlausnum umsækjenda á greindarprófi. Í synjun úrskurðarnefndarinnar er rökstudd sú afstaða nefndarinnar að úrlausnirnar feli í sér viðkvæmar persónuupplýsingar, m.a. þar sem þær geti talist til heilsufarsupplýsinga, enda sé það hugtak víðfeðmt, og því hafi umsækjendur ríka hagsmuni af því að niðurstöður úr prófunum fari leynt. Þá eru hagsmunir yðar af því að fá aðgang að gögnunum jafnframt metnir og afstöðu nefndarinnar til þeirra lýst með rökstuddum hætti.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki líklegt að frekari athugun mín á máli yðar muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun úrskurðarnefndarinnar enda byggist hún á atviksbundnu mati á því hvort einkahagsmunir þeirra sem þreyttu prófið séu mun ríkari en hagsmunir yðar að fá aðgang að þeim og lýtur að upplýsingum sem eru viðkvæms og persónulegs eðlis. 

Með vísan  til þess sem að framan hefur verð rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.