Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11324/2021)

Kvartað var yfir að settur umboðsmaður hefði ekki tekið afstöðu til kvörtunarefna í máli sem var til lykta leitt og óskað eftir að umboðsmaður veitti álit sitt á tíu tilgreindum atriðum varðandi það mál.

Sá sem leitar til umboðsmanns á ekki fortakslausan rétt á því að erindi sé tekið til efnislegrar umfjöllunar heldur leggur umboðsmaður mat á hvort og þá að hvaða marki kvörtun gefur tilefni til nánari athugunar og hefur til þess töluvert svigrúm. Með hliðsjón af fyrri afgreiðslu setts umboðsmanns og af erindinu nú, varð ekki annað ráðið en að í reynd fælist í því beiðni um endurskoðun málsins. Af lögum um umboðsmann leiðir að hann er sjálfstæður og óháður í störfum sínum og ber einn ábyrgð á afgreiðslu þeirra mála sem honum eru falin. Það er því ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður taki til endurskoðunar þau mál sem fyrri umboðsmaður, kjörinn eða settur, hefur fjallað um.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar, dags. 28. september sl., sem lýtur að auglýsingu, umsóknarferli og skipun í embætti forstjóra Samgöngustofu árið 2019.

Lögmaður yðar leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun vegna sömu atriða 15. október 2019. Því máli lauk með bréfi setts umboðsmanns Alþingis, dags. 15. apríl sl. Í kvörtun yðar nú kemur fram að þér teljið settan umboðsmann ekki hafa tekið afstöðu til kvörtunarefna yðar og ekki veitt álit sitt á háttsemi ráðherra eða ráðuneytis í málinu. Þá farið þér þess á leit að ég veiti yður álit mitt á tíu atriðum sem þér tilgreinið í bréfinu.

Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir kvörtun og hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu ein­hvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns, getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Það þýðir þó ekki að sá sem leitar til umboðsmanns eigi fortakslausan rétt á því að erindi hans verði tekið til efnislegrar umfjöllunar heldur leggur umboðsmaður mat á hvort og þá að hvaða marki kvörtun gefi tilefni til nánari athugunar og hefur til þess tölu­vert svigrúm.

Settur umboðsmaður Alþingis ákvað að afmarka umfjöllun sína um mál yðar með tilteknum hætti og lýsti því m.a. í bréfi til lögmanns yðar með rökstuddum hætti að hann teldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun samgöngu- og sveitar­stjórnarráðherra um að auglýsa embætti forstjóra Samgöngustofu umrætt sinn eða við auglýstar hæfniskröfur. Hann taldi ekki tilefni til frekari skoðunar á ákvörðun ráðherra um skipun hæfnisnefndar eða þeim sjónarmiðum sem hún byggðist á, ekki forsendur til athugasemda við matsgrundvöll nefndarinnar og ekki forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferð nefndarinnar eða þá ályktun og niðurstöðu hennar að tilteknir fimm umsækjendur stæðu öðrum framar og væru mjög vel hæfir til að gegna embætti forstjóra Samgöngustofu. Að lokum taldi hann ekki unnt að fullyrða að sú ályktun ráðherra að B væri best til þess fallinn að gegna embætti forstjóra Samgöngustofu hefði verið bersýnilega óforsvaranleg miðað við þau sjónarmið og áherslur sem til grundvallar lágu. Í því sambandi bendi ég yður á umfjöllun um lögbundið hlutverk umboðsmanns Alþingis í kafla III.1 í bréfinu sem áréttað í samhengi við þessa umfjöllun í niðurlagi bréfsins.

Að framangreindu virtu og af erindi yðar nú verður ekki annað ráðið en að í því felist í reynd beiðni um að ég taki mál yðar til endurskoðunar. Það leiðir af lögum nr. 85/1997, að umboðsmaður er sjálfstæður og óháður í störfum sínum og ber einn ábyrgð á afgreiðslu þeirra mála sem honum eru falin. Það er því ekki gert ráð fyrir því í lögum um umboðsmann að umboðsmaður taki þau mál sem fyrri umboðsmaður, kjörinn eða settur, hefur fjallað um til endurskoðunar.

Með vísan til framangreinds læt ég umfjöllun minni um erindi yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.