Sveitarfélög. Einkaréttarlegir samningar.

(Mál nr. 11212/2021)

Kvartað var yfir afstöðu Múlaþings til erinda vegna fasteignar á Seyðisfirði.

Ágreiningur við sveitarfélag um efni og efndir samnings um fasteignakaup er einkaréttarlegs eðlis og fellur því ekki undir starfssvið umboðsmanns. Því voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. júlí sl. yfir afstöðu Múlaþings til erinda yðar um fasteignina að [...] á Seyðisfirði, sem þér keyptuð af sveitarfélaginu, en þér teljið m.a. að verð hennar hafi verið metið of hátt og að hún sé gölluð. Jafnframt beinist kvörtunin að samskiptum yðar við sveitarfélagið.

Af 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að starfssvið umboðsmanns er að jafnaði afmarkað við stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga. Ágreiningur yðar við sveitarfélagið um efni og efndir samnings um fasteignakaup er aftur á móti einka­réttar­legs eðlis og fellur af þeim sökum utan starfssviðs umboðsmanns. Það eru því ekki uppfyllt lagaskilyrði til að ég fjalli um þennan þátt kvörtunar yðar.

Í tilefni af athugasemdum sem beinast að því hvernig sveitar­félagið hefur brugðist við erindum yðar skal þess getið að samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtuninni hefur sveitarfélagið m.a. fjallað um og tekið afstöðu til erinda yðar á fundum sínum. Að því virtu eru ekki efni til að taka þennan hluta málsins til meðferðar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.