Rafræn stjórnsýsla. Heilbrigðismál. COVID-19.

(Mál nr. 11238/2021)

Kvartað var yfir að embætti landlæknis hefði ritað nafn rangt í bólusetningarvottorð vegna COVID-19 og ekki væri hægt að fá það leiðrétt vegna sumarleyfa starfsfólks tæknifyrirtækis.

Í skýringum frá landlækni kom fram að í byrjun hafi verið fyrirséð að upp kæmu vandamál vegna þeirra sem bæru tvö eða fleiri eftirnöfn. Nú væri hins vegar hægt að breyta nafni á vottorði nær jafnóðum og þess væri óskað. Auk þess gætu allir fengið útgefið handskrifað vottorð hjá heilsugæslunni. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. október 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 3. ágúst sl., sem beint var að embætti landlæknis og laut að því að nafn yðar væri ranglega ritað á bólu­setningar­vottorði vegna COVID-19. Einnig er vísað til frekari samskipta skrifstofu umboðsmanns við yður í framhaldinu. Í kvörtuninni kom fram að þér hefðuð óskað eftir því 30. júní sl. að vottorðið yrði leið­rétt en að yður hafi verið tjáð símleiðis að ekki væri hægt að verða við þeirri beiðni vegna sumarleyfa starfsmanna fyrirtækisins X.

Í tilefni af kvörtun yðar var embætti landlæknis ritað bréf, dags. 23. ágúst sl., þar sem þess var óskað að veittar yrðu upplýsingar um viðbrögð við beiðni yðar, hvort borist hefðu borist erindi af þessu tagi og þá hvernig hefði verið brugðist við þeim.

Í svari frá sóttvarnasviði landlæknis, sem barst með tölvupósti 30. ágúst sl., kemur fram að við upphaf útgáfu vottorðanna og við forritun vegna ritunar nafna á þau hafi verið fyrirséð að upp kæmu vandamál vegna þeirra einstaklinga sem bæru tvö, eða eftir atvikum fleiri, eftirnöfn og þá í tengslum við kröfur framkvæmdastjórnar Evrópu­sambandsins um framsetningu nafna á vottorðunum. Ekki hafi verið unnt að leysa þau vandamál áður en notkun vottorðanna hófst. Nú sé hins vegar unnt að breyta ritun nafns á vottorðinu nær jafnóðum og beiðni þar um berst. Auk þess geti allir fengið útgefið handskrifað vott­orð hjá heilsugæslunni þar sem hægt er að fá nafn ritað í samræmi við skilríki eða á þann hátt sem viðkomandi einstaklingur kýs.

Að þessu gættu, og þá einkum með tilliti til þess að nú liggur fyrir að unnt er að verða við beiðnum um breytingu á ritun nafns á vott­orðunum, tel ég ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Ég tek fram að umboðsmaður hefur haft ýmsa þætti í aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 til athugunar, m.a. að eigin frumkvæði, og mun gera það áfram. Þá tek ég einnig fram að ég mun áfram fylgjast með innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu, s.s. útgáfu staf­rænna vottorða, einkum m.t.t. jafnræðis og aðgangs borgaranna að þeim rafrænu lausnum sem stjórnvöld koma á fót.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.