Fjöleignarhús. Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 11311/2021)

Kvartað var yfir áliti kærunefndar húsamála.

Þar sem fyrir lá að nefndin hafði ákveðið að taka hluta málsins aftur til meðferðar og umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál í tilefni af kvörtun ef það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum, var ekki tímabært fyrir hann að aðhafast.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 21. september sl. yfir áliti kærunefndar húsa­mála 31. ágúst sl. í máli nr. 30/2021.

Af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál í tilefni af kvörtun ef málið er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum. Þar sem nú liggur fyrir að kærunefnd húsamála ákvað 1. október sl. að taka hluta málsins aftur til meðferðar í framhaldi af bréfi yðar 13. september sl. er ekki tíma­bært fyrir mig að taka kvörtun yðar til athugunar. Í því samhengi hefur ekki áhrif þótt erindi yðar 5. og 13. október sl. gefi til kynna að þér séuð ósáttir við að nefndin hafi tekið málið aftur til meðferðar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt laga­skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu og er athugun minni á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þegar kærunefnd húsamála hefur lokið meðferð málsins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun ef þér teljið þá efni til þess.