Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Börn. Foreldrar. Umgengni.

(Mál nr. 11316/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslutíma sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á ákvörðun um umgengni viðkomandi við barn sitt.

Af kvörtuninni réð umboðsmaður að ekki væri kvartað yfir efnislegri niðurstöðu sýslumanns heldur óskað eftir að málsmeðferðartíminn yrði tekinn til nánari skoðunar. Benti umboðsmaður á að hann hefði haft afgreiðslutíma hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins til skoðunar. Í ljósi þeirra úrbóta sem dómsmálaráðuneytið hafi boðað í ágúst sl. hafi verið ákveðið að hefja ekki formlega frumkvæðisathugun á þessu að svo stöddu. Hvað kvörtunina snerti þá fékk umboðsmaður ekki annað séð en tafirnar hefðu verið af almennum orsökum en ekki varðað þetta mál sérstaklega. Með hliðsjón af því og boðuðum aðgerðum væri ekki ástæða til að taka þennan þátt til frekari skoðunar.

Hvað snerti synjun sýslumanns á beiðni um að úrskurðað yrði um umgengni til bráðabirgða benti umboðsmaður á að kvartanir þyrftu að berast innan árs frá því sá stjórnsýslugerningur sem um ræddi hefði verið til lykta leiddur. Þar sem þetta félli utan þess frests væru ekki lagaskilyrði til að fjalla frekar um það.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 22. september sl., sem þér beinið að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og lýtur að afgreiðslutíma hans við ákvörðun á umgengni yðar við son yðar. Í kvörtuninni kemur fram að 10. september 2019 hafið þér upphaflega óskað eftir því að sýslu­maður úrskurðaði um inntak umgengninnar. Þá hefðuð þér lagt fram tvær beiðnir, dags. 21. janúar og 2. október 2020, um að úrskurðað yrði um umgengni til bráðabirgða. Í bréfi til yðar, dags. 4. maí 2020, var beiðni yðar frá 21. janúar hafnað en úrskurðað var um síðari beiðni yðar 8. desember 2020. Endanlegur úrskurður um inntak umgengni var svo kveðinn upp 12. apríl 2021.

Að yðar mati er sá tími er leið þar til sýslumaður úrskurðaði í málinu óásættanlegur og vísið þér til þess að á meðan þér biðuð eftir úrskurði sýslumanns hafið þér einungis séð son yðar í mjög takmörkuðum mæli. Ég legg þann skilning í kvörtun yðar að þér séuð ekki að kvarta yfir efnislegri niðurstöðu sýslumanns heldur óskið þér eftir því að umboðsmaður taki málsmeðferðartíma sýslumanns til nánari skoðunar.

Í kvörtuninni gerið þér þó athugasemdir við ákvörðun sýslumanns frá 4. maí 2020 um að hafna beiðni yðar um að úrskurðað yrði um umgengni til bráðabirgða. Teljið þér að sú ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við lög og þá vísið þér til þess að beiðni yðar hafi verið hafnað án formlegs úrskurðar og að yður hafi ekki verið leiðbeint um kæruheimild til dómsmálaráðuneytisins. 

  

II

1

Mál yðar hefur áður komið til athugunar umboðsmanns og fékk sú kvörtun málsnúmerið 10686/2020. Umboðsmaður lauk því máli með bréfi, dags. 5. október 2020, að fengnum skýringum sýslumanns og var yður leiðbeint um að unnt væri að leggja fram kæru hjá dómsmálaráðuneytinu á grund­velli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telduð þér að afgreiðsla málsins hefði dregist óhæfilega. Í bréfinu var jafnframt fjallað ítarlega um aðkomu umboðsmanns að málum þar sem aðili máls telur mál hjá stjórnvöldum hafa dregist óhæfilega. Sömu sjónarmið eiga við í þessu máli og vísa ég til þeirrar umfjöllunar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að umboðsmaður hefur haft til skoðunar afgreiðslutíma á fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Ráðist var í þá athugun í þeim tilgangi að meta hvort tilefni væri til þess að taka afgreiðslutíma sýslumanns og eftirlit og yfirstjórn dómsmálaráðuneytisins í því tilliti til formlegrar athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í tilefni af þeirri athugun greindi dómsmálaráðuneytið frá ýmsum aðgerðum sem bæði það og sýslumaður hefðu ráðist í til úrbóta, en þar má m.a. nefna skipulags­breytingar, fjölgun stöðugilda löglærðra fulltrúa á fjölskyldu- og þinglýsingasviði, endurskoðun verklags og endurmenntun starfsfólks. 

Með bréfi, dags. 9. ágúst sl., upplýsti ég ráðuneytið og sýslu­mann um ég hefði ákveðið að hefja ekki formlega frumkvæðisathugun að svo stöddu. Þá var tekið fram að ég myndi áfram fylgjast með afgreiðslu­tíma hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, þ.á m. með hliðsjón af þeim kvörtunum og ábendingum sem mér kynnu að berast, og taka til frekari athugunar ef ég teldi ástæðu til. Bréfið var birt á heima­síðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is, 12. ágúst sl.

Af úrskurði sýslumanns fæ ég ekki annað séð en að þær tafir sem urðu á afgreiðslu málsins hafi verið af almennum orsökum en ekki varðað mál yðar sérstaklega. Þá nær málsmeðferð sýslumanns jafnframt yfir það tímabil sem varð tilefni þess að umboðsmaður taldi ástæðu til að beina fyrirspurn til dómsmálaráðuneytisins vegna afgreiðslutíma sýslumanns og eftirlits ráðuneytisins með honum. Í ljósi þess og með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið um þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í frá þeim tíma í því skyni að stytta afgreiðslutíma sýslumanns tel ég ekki ástæðu til þess að taka þennan þátt kvörtunar yðar til frekari athugunar.

  

2

Að því leyti sem kvörtun yðar lýtur að synjun sýslumanns frá 4. maí 2020 á beiðni yðar um að úrskurðað yrði um umgengni til bráðabirgða tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 skal bera fram kvörtun til umboðsmanns innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Í ljósi þess að kvörtun yðar barst mér 22. september sl. er ljóst að hún barst ekki innan þess tímafrests sem þar er mælt fyrir um. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti tekið þennan þátt kvörtunar yðar til frekari meðferðar.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.