Póst- og fjarskiptamál. Póstþjónusta. Tollmiðlun. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11331/2021)

Kvartað var yfir meðhöndlun Íslandspósts ohf. á póstsendingum frá útlöndum og gjaldtöku félagsins í tengslum við slíkar sendingar.

Kvörtuninni fylgdu engin gögn og því lá ekki fyrir hvort hún laut að tiltekinni ákvörðun Íslandspósts ohf. um gjaldtöku sem beindist að viðkomandi eða hvort hún snerist almennt um fyrirkomulagið. Hvað sem því liði benti umboðsmaður á að starfssvið sitt tæki ekki til Íslandspósts ohf. hvað þetta snerti. Ef viðkomandi teldi fyrirtækið hins vegar hafa brotið gegn skyldum sínum sem tollmiðlari benti umboðsmaður á að það kynni að vera fært að leita með athugasemdir til tollyfirvalda og eftir atvikum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem færi með yfirstjórn tollamála.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 2. október sl. sem lýtur að meðhöndlun Íslandspósts ohf. á póstsendingum frá útlöndum og gjaldtöku félagsins í tengslum við slíkar sendingar. Nánar tiltekið gerið þér athugasemdir við að smásendingar sem innihalda frímerki séu stöðvaðar af hálfu Íslandspósts ohf., reiknings krafist vegna innihaldsins og gjald lagt á í kjölfarið. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið meðferð Íslandspósts ohf. að þessu leyti fela í sér mismunun enda sé ferðamönnum frjálst að taka með sér varning til landsins án þess að þurfa að greiða sambærilegt gjald.

Kvörtuninni fylgdu engin gögn og því liggur ekki fyrir hvort hún lúti að tiltekinni ákvörðun Íslandspósts ohf. um gjaldtöku sem beinist að yður eða hvort hún beinist almennt að umræddu fyrirkomulagi.

Hvað sem framangreindu líður tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðs­manns til stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar nær það þó einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að Íslandspóstur ohf. er opin­bert hluta­félag sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hluta­félög, og telst því einkaréttarlegur aðili.

Ég legg þann skilning í kvörtun yðar að hún lúti að gjaldtöku Íslands­pósts ohf. sem tollmiðlara í tengslum við tollmeðferð vöru. Sam­kvæmt tollalögum nr. 88/2005 er tollmiðlara heimilt að koma fram gagn­vart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda og hafa með höndum nánar tilgreinda þjónustu í tengslum við tollafgreiðslu vöru, þar með talið tollskýrslugerð vegna inn- og útflutnings, sbr 2. tölul. 1. mgr. 47. gr. laganna. Samkvæmt 3., 5. og 6. mgr. 23. gr. þeirra skulu inn­flytjendur afhenda tollstjóra tilteknar upplýsingar en er hins vegar heimilt að veita tollmiðlara umboð til þess að koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart tollyfirvöldum með skjala­sendingum á milli tölva. Ég fæ ekki annað ráðið en að gjöldin sem þér vísið til séu fyrir þá þjónustu en feli ekki í sér álagningu opinberra gjalda. Þá verður ekki séð að í gjaldtökunni felist taka stjórnvalds­ákvörðunar af hálfu félagsins. Teljið þér hins vegar Íslandspóst ohf. hafa brotið gegn skyldum sínum sem tollmiðlara, svo sem ef umboð hefur ekki verið fyrir hendi við gerð tollskýrslu, bendi ég á að yður kann að vera fær sú leið að leita með athugasemdir yðar til tollyfirvalda á grundvelli 50. gr. laga nr. 88/2005 og eftir atvikum til fjármála-  og efna­hagsráðuneytisins sem fer með yfirstjórn tollamála. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð málið eigi að fá hjá framan­greindum aðilum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki skilyrði til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um um­boðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að lokum að þér getið leitað til embættisins á ný að fenginni afstöðu framangreindra stjórnvalda séuð þér ósáttir við af­greiðslu þeirra á málinu.