Menntamál. Framhaldsskólar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11332/2021)

Kvartað var yfir banni, að viðlögðum brottrekstri, við því að íbúar á heimavist framhaldsskóla væru undir áhrifum áfengis eða vímuefna á lóð heimavistarinnar.

Sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri rekur nemendagarðana á grundvelli þjónustusamnings við menntamálaráðuneytið. Þótt félagið fái fjárframlög frá ríkinu telst það einkaaðili og starfsemi þess féll því ekki undir starfssvið umboðsmanns.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar dags. 4. október sl., yfir banni, að viðlögðum brottrekstri, við því að íbúar á [tiltekinni] heimavist [...] séu undir áhrifum áfengis eða vímuefna á lóð heimavistarinnar.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmann Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og það er markað í lögum nr. 85/1997.

X ses. er sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur og rekur nemendagarða fyrir áðurnefnda framhaldsskóla á grundvelli þjónustusamnings við menntamálaráðuneytið frá desember 2001. X er því komið á fót með staðfestri skipulagsskrá sem um gilda tilteknar samþykktir samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Félagið telst því einkaaðili þótt það fái fjárframlög frá ríkinu. Samkvæmt þessu fellur sú starfsemi X sem erindi yðar lýtur að ekki undir starfssvið mitt samkvæmt lögum nr. 85/1997 og bresta því lagaskilyrði til þess að ég geti tekið erindi yðar til meðferðar.

Ég bendi yður þó á að samkvæmt reglum heimavistar [...] geta íbúar sem finnst á sér brotið leitað til Heimavistarráðs sem skoðar málið nánar og ræðir við framkvæmdastjóra heimavistar.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er umfjöllun minni um erindi yðar lokið.