Almannavarnir. Heilbrigðismál. Sóttvarnir. COVID-19.

(Mál nr. 11338/2021)

Kvartað var yfir COVID-19 göngudeild Landspítala og smitrakningarteymi sóttvarnalæknis og almannavarna þar sem misvísandi upplýsingar hefðu leitt til lengri einangrunar barna.

Af sóttvarnalögum leiðir að stjórnvaldsákvörðun sem tekin er á grundvelli þeirra og sviptir einstakling frelsi sínu, þ.m.t. þegar hann er settur í einangrun, er endanleg á stjórnsýslustigi og verður borin undir dómstóla. Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að fólk leiti leiðréttingar hjá dómstólum. Því voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari umfjöllunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. október 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst umboðsmanni Alþingis 9. október sl. og beint er að COVID-19 göngudeild Landspítala og smitrakningar­teymi sóttvarnalæknis og almannavarna. Af kvörtuninni fæ ég ráðið að hún lúti einkum að einangrun sem börn yðar hafa þurft að sæta eftir að sýnataka sýndi að þau hefðu smitast í kjölfar þess að þér og eiginmaður yðar greindust með COVID-19. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að þér teljið yður hafa fengið misvísandi upplýsingar um hvort börn yðar þyrftu að gangast strax undir sýnatöku og það hafi leitt til lengri einangrunar þeirra.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr., sbr. einnig 3. mgr., sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, skal sóttvarnalæknir taka ákvörðun um viðeigandi aðgerðir, þ.á m. einangrun, leiki grunur á að maður sé haldinn smitsjúkdómi. Samkvæmt 12. mgr. 14. gr. getur ráðherra sett reglugerð um nánari útfærslu ákvæðisins, t.d. þar sem kveðið er á um þær reglur sem gilda skulu um þá sem sæta einangrun eða sóttkví. Á þessum grundvelli hefur heilbrigðisráðherra sett reglugerð nr. 1100/2021, um sóttkví og einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19, sem tók gildi 28. september sl., og er þar m.a. að finna nánari ákvæði um skyldu til að fara í einangrun. Áður var í gildi reglugerð nr. 938/2021 um sama efni.

Af 15. gr. laga nr. 19/1997, sbr. 1. málsl. 10. mgr. 14. gr., leiðir að stjórnvaldsákvörðun sem tekin er á grundvelli laganna og sviptir einstakling frelsi sínu, þ.m.t. þegar einstaklingur er settur í einangrun, er endanleg á stjórnsýslustigi og verður borin undir dómstóla, í samræmi við nánari fyrirmæli ákvæði 15. gr., einkum 1.-3. mgr. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laganna frestar málsmeðferð fyrir dómi þó ekki framkvæmd slíkrar stjórnvaldsákvörðunar.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Er því ljóst að lagaskilyrði brestur til að ég geti fjallað um kvörtun yðar að þessu leyti. Hins vegar tek ég fram að umboðsmaður hefur haft ýmsa þætti í aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 til athugunar, m.a. að eigin frumkvæði, og mun gera það áfram.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.