Atvinnuleysistryggingar. Endurkrafa ofgreiddra bóta.

(Mál nr. 11343/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

Þar sem erindinu hafði ekki verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála kæruleið þannig tæmd voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Í ljósi þess að kærufrestur til nefndarinnar var útrunninn leiðbeindi umboðsmaður viðkomandi um hvernig mögulega mætti haga framhaldi málsins.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 11. október sl., fyrir hönd A, yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. apríl sl. um að gera honum að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 461.224 kr.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Lagt hefur verið til grundvallar að þessi regla eigi einnig við þegar fyrir liggur að sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds en kærufrestur hefur liðið án þess að kæra hafi komið fram af hans hálfu. Umboðsmaður fjallar því almennt ekki um kvartanir yfir ákvörðunum sem ekki hafa verið kærðar.

Ástæða þess að ég greini yður frá þessu er sú að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kvörtun yðar lýtur samkvæmt framangreindu að ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta frá 16. apríl sl. Fyrir liggur að í tilkynningu um ákvörðun stofnunarinnar var A leiðbeint um framangreinda kæruheimild. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar fæ ég ráðið að hann hafið ekki borið mál sitt undir úrskurðarnefnd velferðarmála innan þess frests sem kveðið er á um í lögum nr. 85/2015. Málið hefur því ekki verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni í samræmi við ákvæði laga. Með vísan til þess sem að framan er rakið og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 eru því ekki uppfyllt lagaskilyrði til að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari athugunar.

Ég tel þó rétt, í ljósi framangreindra upplýsinga um útrunninn kærufrest, að benda yður á ákvæði 28. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að kæra verði tekin til meðferðar, þótt hún hafi borist að liðnum kærufresti, ef afsakanlegt verður talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. eða veigamiklar ástæður mæla með því að hún verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. Ef þér teljið þessi skilyrði eiga við í máli yðar getið þér, ef þér teljið tilefni til, freistað þess að óska eftir því við úrskurðarnefnd velferðarmála að kæra í máli yðar verði tekin til meðferðar þrátt fyrir að kærufrestur sé liðinn.

Þá tel ég jafnframt rétt að benda yður á, í ljósi þeirra athugasemda sem þér gerið við ákvörðun Vinnumálastofnunar og þess að fram kemur í kvörtun yðar að þér hafið hinn 2. september sl. óskað eftir að málið yrði tekið til meðferðar á ný hjá stofnuninni, að yður er jafnframt fært að ítreka beiðni yðar til stofnunarinnar um endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða óskráðra reglna. Þannig segir í 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt aðila máls eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Ég tek fram að með framangreindum ábendingum mínum um þá möguleika sem þér eigið á því að fá málið endurskoðað hjá stjórnvöldum hef ég enga afstöðu tekið til þess hver ættu að vera viðbrögð Vinnumála­stofnunar eða úrskurðarnefndarinnar við umleitunum yðar í þá veru. Jafnframt tel ég rétt að taka fram að ekki er hægt að fjalla um málið á sama tíma hjá Vinnumálastofnun og úrskurðarnefndinni.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek hins vegar fram að ef ákveðið verður að leita til Vinnumálastofnunar eða úrskurðar­nefndar velferðarmála og A telur sig enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getur hann eða þér fyrir hans hönd leitað til mín að nýju.