Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 10965/2021)

Kvartað var yfir stjórnsýslu Strætó bs. í tengslum við starfslok viðkomandi hjá fyrirtækinu.

Fyrir lá að viðkomandi hafði fengið bindandi úrskurð sér í vil hjá sérhæfðu eftirlitsstjórnvaldi, kærunefnd jafnréttismála, þar sem tekin var afstaða til sömu efnisatriða og kvörtunin til umboðsmanns beindist að. Að því, öðrum málavöxtum og lögum um umboðsmann virtum taldi umboðsmaður ekki rétt að taka kvörtunina til frekari umfjöllunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar yfir stjórnsýslu Strætó bs. í tengslum við starfslok yðar hjá fyrirtækinu [...].

Hinn 15. september sl. kvað kærunefnd jafnréttismála upp úrskurð í máli nr. 2/2021 þar sem niðurstaðan varð sú að Strætó bs. hefði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, og gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði við starfslok yðar hjá byggðasamlaginu 30. nóvember sl. Eftir það hefur athugun á kvörtuninni lotið að því hvort og hvernig rétt er að haga frekari meðferð á henni í ljósi fyrir­liggjandi niðurstöðu kærunefndarinnar.

Af þessu tilefni var þess óskað með bréfi 7. október sl. að þér veittuð umboðsmanni upplýsingar um hvaða atriði í kvörtun yðar stæðu eftir og væri að yðar mati tilefni til að fjalla sérstaklega um af hans hálfu. Svör yðar bárust 7. og 8. október og kemur þar fram að þér hafið leitað til kærunefndarinnar vegna mismununar en til umboðsmanns vegna atriða sem tengjast gerð starfslokasamnings, s.s. andmælaréttar, ástæðu fundar sem var haldinn með yður þar sem ritað var undir samkomulag um starfslok og umhugsunarfrests sem yður var veittur í því skyni.

Af úrskurði kærunefndarinnar verður ráðið að kæra yðar til nefndarinnar hafi m.a. byggst á því að ekki hafi verið farið að lögum og reglum um uppsagnir, þér hafið t.a.m. ekki verið upplýst um efni fundar þar sem skrifað var undir samkomulag um starfslok, þér hafið ekki fengið afrit eða aðgang að tilteknum gögnum eða upplýsingum og þar með ekki haft tækifæri til að bregðast við kvörtun á hendur yður eða setja fram andmæli, að málið hafi ekki verið rannsakað og að persónuleg óvild hafi ráðið því að þér hafið verið þvinguð til að skrifa samkomulagið. Í úrskurði nefndarinnar segir í 43. og 44. málsgrein: 

„Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er ljóst að kærði var búinn að taka afstöðu fyrir fundinn til þeirrar háttsemi kæranda sem talin var fela í sér brot í starfi. Að auki er ljóst að kærandi var óviðbúin því að kærði myndi leggja til starfslok á fundinum en fyrir liggur að kærandi var einungis upplýst munnlega um að fundarefnið væri meðal annars samskiptamál. Afstaða kæranda til umræddra skilaboða, sem kærði taldi fela í sér brot í starfi, lágu ekki fyrir þegar gengið var frá starfslokunum. Í því sambandi er rétt að benda á að engin minnisblöð, fundargerð eða sambærileg gögn liggja fyrir um það sem kom fram á fundinum. Þá liggur fyrir að kærði hafi ekki, í ljósi þessi að hann hafi talið kæranda hafa sýnt samstarfsmanni sínum kynferðislega tilburði, brugðist við í samræmi við reglur í reglugerð nr. 1009/2015, sbr. einkum 6. og 7. gr.

Í ljósi alls framangreinds verður að líta svo á að kærði hafi stytt sér leið að settu marki með því að knýja kæranda í reynd til að fallast á að láta af starfinu. Hér verður að líta til þess að fullbúinn samningur lá fyrir á fundinum sem ætlast var til að kærandi tæki strax afstöðu til en að öðrum kosti yrði hafið áminningarferli. Verður að telja að val kærða á leið til að leysa málið hafi verið ósamrýmanlegt þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá því að fylgja réttri málsmeðferð sem ætlað er að tryggja réttaröryggi. Vísast í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 8. desember 2005 í máli nr. 175/2005. Verður því ekki hjá því komist eins og hér stendur á að líta svo á að þetta hafi jafngilt uppsögn í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018.“

Framangreindar forsendur og sú afstaða nefndarinnar að Strætó bs. hefði ekki farið að reglum við starfslok yðar voru síðan lögð til grundvallar því að þér hefðuð leitt líkur að því að mismunun hefði átt sér stað við starfslokin. Þá er tekið fram í úrskurðinum að Strætó bs. hafi komist að niðurstöðu um starfslok yðar án þess að rannsaka og upplýsa málsatvik með fullnægjandi hætti. 

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að þér hafið fengið bindandi úrskurð hjá sérhæfðu eftirlitsstjórnvaldi, kærunefnd jafnréttismála, sem féll yður í vil þar sem tekin er afstaða til sömu efnisatriða og kvörtun yðar til umboðsmanns beinist að.

Þessi staða hefur þýðingu fyrir framhald athugunar minnar á kvörtun yðar þar sem það leiðir ekki af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að sá sem leitar til umboðsmanns eigi fortakslausan rétt á því að erindi hans verði tekið til efnislegrar umfjöllunar heldur leggur umboðsmaður mat á hvort og þá að hvaða marki kvörtun gefi tilefni til nánari athugunar eða umfjöllunar og hefur til þess tölu­vert svigrúm, meðal annars með tilliti til hagsmuna þess sem í hlut á en einnig þess að hvaða marki rétt er að nýta fjár­muni og krafta embættisins til þess að fjalla um mál og annarra sem bíða úrlausnar sinna mála. Að öllu þessu virtu er það niðurstaða mín að ekki sé rétt að taka kvörtun yðar til frekari umfjöllunar.