Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11152/2021)

Kvartað var yfir að starfsfólki Matvælastofnunar væri mismunað eftir búsetu með þeim hætti að brotið væri í bága við jafnræðisreglu. Þeim sem búi utan höfuðborgarsvæðisins standi ekki til boða að njóta sambærilegs akstursfyrirkomulags og starfsfólki sem býr þar. 

Það er grundvallarskilyrði fyrir því að ákvarðanir stjórnvalda verði taldar brjóta í bága við þær jafnræðisreglur sem þeim ber að fylgja að tilvik séu talin sambærileg í lagalegu tilliti. Sé svo er þó ekki um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur kunni að vera á úrlausn mála, ef sá mismunur byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að ofangreint fyrirkomulag teldist ómálefnalegt.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 1. júní sl., er þér beinið að Matvælastofnun og lýtur að því að starfsmönnum stofnunarinnar sé mismunað eftir búsetu með þeim hætti að brotið sé í bága við jafnræðisreglu. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að starfsmönnum stofnunarinnar sem búsettir séu utan höfuðborgarsvæðisins standi ekki til boða að njóta sambærilegs akstursfyrirkomulags og þeir sem búsettir séu á höfuðborgarsvæðinu.

Í kvörtuninni kemur fram að við stofnun Landbúnaðarstofnunar á Selfossi árið 2005, síðar Matvælastofnunar, sem meðal annars fól í sér sameiningu ýmissa ríkisstofnana, hafi þeim starfsmönnum sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu og þurftu að þola flutning starfsstöðvar sinnar verið boðið að nýta sér akstur á vegum stofnunarinnar á hennar kostnað. Frá þeim tíma hafi þeim starfsmönnum sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu og hófu síðar störf staðið til boða að nýta sér umrætt akstursfyrirkomulag gegn mánaðarlegri greiðslu. Að yðar mati felur akstursfyrirkomulagið í sér mismunun þar sem beiðni yðar um að njóta sambærilegra kjara hefur verið hafnað, þrátt fyrir að þér séuð búsett á landsbyggðinni, um 60 kílómetrum frá Selfossi.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. er óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Þar sem gildissviði stjórnsýslulaga sleppir gildir jafnframt óskráð jafnræðisregla sem stjórnvöldum ber að gæta að í störfum sínum.

Það er grundvallarskilyrði fyrir því að ákvarðanir stjórnvalda verði taldar brjóta í bága við þær jafnræðisreglur sem þeim ber að fylgja að tilvik séu talin sambærileg í lagalegu tilliti. Sé svo er þó ekki um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur kunni að vera á úrlausn mála, ef sá mismunur byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Við mat á því hvort mál teljist sambærileg í lagalegu tilliti, og beri því að hljóta sambærilega úrlausn, njóta stjórnvöld ákveðins svigrúms með tilliti til þess hvaða málefnalegu sjónarmið eru lögð til grundvallar.

Líkt og að framan greinir verður ráðið af kvörtun yðar að við flutning stofnunarinnar á Selfoss hafi verið tekin sú ákvörðun að bjóða þeim starfsmönnum á höfuðborgarsvæðinu sem þurftu að þola flutning starfsstöðvar sinnar umrætt akstursfyrirkomulag í því skyni að halda í mannauð stofnunarinnar. Hvað varðar þá starfsmenn sem síðar hófu störf fæ ég ráðið af þeim gögnum sem fylgdu kvörtun yðar að ákveðið hafi verið að bjóða þeim að nýta akstursfyrirkomulagið gegn mánaðarlegri greiðslu vegna hagkvæmnis- og samkeppnissjónarmiða, m.a. á þeim grundvelli að bifreiðar stofnunarinnar yrðu annars ekki fullnýttar.

Að mínu mati verður staða yðar ekki að fullu lögð að jöfnu við þá starfsmenn sem voru starfandi hjá stofnuninni við flutning hennar á Selfoss og þurftu að þola flutning starfsstöðvar sinnar þannig að þær verði taldar sambærilegar í lagalegu tilliti. Þá tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að það teljist ómálefnalegt af hálfu stofnunarinnar að bjóða öðrum starfsmönnum sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu að nýta akstursfyrirkomulagið til að stuðla að því að þær bifreiðar sem þegar eru að ferja starfsmenn til Selfoss séu fullnýttar.

Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar.