Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11209/2021)

Kvartað var yfir áminningu sem Ísafjarðarbær veitti viðkomandi vegna starfs.

Áminning er hluti af stjórnunarúrræðum forstöðumanns og sé skilyrðum fullnægt til að beita þessu úrræði verður að játa forstöðumanni tiltekið svigrúm til að ákveða hvort áminningu verður beitt. Áminningin hafði átt sér aðdraganda og starfsmanninum gefist tækifæri til að bæta úr. Umboðsmaður taldi ekki að gögn málsins gæfu sér forsendur til að gera athugasemdir við lögmæti hennar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 5. júlí sl., yfir ákvörðun Ísafjarðarbæjar um að veita yður áminningu, sbr. bréf B dags. 14. júlí 2020, fyrir að hafa brotið starfsskyldur yðar sem [...] með því að hafa bæði sýnt af yður óvandvirkni og ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, auk þess sem þér hefðuð ekki virt tilmæli yfirmanns um framkvæmd starfsins.

Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið engar efnislegar forsendur vera fyrir áminningunni og að með henni hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá teljið þér að ákvæði kjarasamninga [...] um hvað varði áminningu í starfi hafi verið oftúlkuð.

Gögn málsins bárust 25. ágúst sl. samkvæmt beiðni þar um.

  

II

1

Í 14. kafla kjarasamnings milli Sambands Íslenskra sveitarfélaga og [...] er fjallað um réttindi og skyldur. Fjallað er um áminningu í kafla 14.7 og eru þar talin upp þau meginatriði sem ákvörðun um áminningu starfsmanns getur byggst á:

„Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða afhafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis veita honum skriflega áminningu.“

Þá er tekið fram að yfirmaður skuli gefa starfsmanni kost á að tjá sig um meintar ávirðingar áður en ákvörðun um áminningu er tekin, starfsmaður eigi rétt á því að tjá sig um tilefni áminningar í viðurvist trúnaðarmanns, yfirmaður skuli kynna honum þann rétt og áminning skuli vera skrifleg. Enn fremur að í áminningu skuli tilgreina tilefni hennar og þá afleiðingu að bæti starfsmaður ekki ráð sitt verði honum sagt upp.

Samkvæmt framangreindu felur tilvitnað ákvæði í sér heimild yfirmanns til þess að áminna starfsmann að uppfylltu einhverju skilyrðanna sem upp eru talin. Skilyrðin eru almennt orðuð og að því leyti háð nánara mati yfirmanns. Í þessu sambandi þarf einnig að hafa í huga að heimildin til að veita starfsmanni áminningu er þáttur í almennum stjórnunarheimildum forstöðumanns stofnunar gagnvart starfsmönnum. Er for­stöðu­manni einnig á þessum grundvelli játað nokkuð svigrúm til mats á því hvort hann telur tilefni til að beita áminningu, sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram. Þá þarf fram­setning áminningar og þar með afmörkun og lýsing á tilefni hennar að taka mið af því markmiði úrræðisins að starfs­maður eigi þess kost að bæta ráð sitt.

Það athugast að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, er hlut­verk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitar­félaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Ég legg á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og for­stöðumaður stofnunar til að leggja mat á hvort framkoma eða frammi­staða starfsmanns gefur tilefni til að beita áminningu samkvæmt umræddu kjarasamningsákvæði. Í þessum málum er hlutverk umboðsmanns því fyrst og fremst að lýsa áliti sínu á því hvort byggt hafi verið á mál­efnalegum sjónarmiðum, hvort ályktanir stjórnvaldsins af gögnum málsins hafi verið forsvaranlegar og hvort fylgt hafi verið réttum efnis- og málsmeðferðarreglum að öðru leyti.

  

2

Af gögnum málsins má ráða að yður hafið verið tilkynnt með bréfi frá B 4. júní 2020 að veiting áminningar væri til skoðunar. Í bréfinu voru raktar helstu ástæður þess að til greina kæmi að áminna yður, og þá einkum að þér hefðuð ekki farið eftir ítrekuðum fyrirmælum og tilmælum B varðandi [...] og að gæði vinnu yðar hefðu þ.a.l. ekki verið í samræmi við kröfur atvinnurekanda sem yður hefði ítrekað verið beint á og óskað eftir að yrði lagfært. Því næst segir í bréfinu:

„Áður en slík ákvörðun verður tekin er þér hér með veittur kostur á að koma þínum sjónarmiðum varðandi framgreint á framfæri, hvort sem er skriflega eða munnlega á fundi. Kjósir þú að tjá þig munnlega á fundi er þér heimilt að taka með þér hvern þann aðila sem þú treystir.“

Samkvæmt gögnum sem bárust frá stjórnvaldinu mættuð þér á fund 11. júní 2020 með systur yðar til að ræða fyrirhugaða áminningu. Á fundinum voru jafnframt mannauðsstjóri Ísafjarðabæjar, C og B. Á fundinum var farið yfir þau atriði er fram komu í bréfi B 4. júní og þau rædd. Að fundi loknum óskuðu B og mannauðsstjóri eftir því að fá afhent bréf það sem þér lásuð upp á fundinum til að ekki færi á milli mála hvernig þér andmæltuð hverju atriði fyrir sig. Umrætt bréf barst þeim tveimur dögum síðar.  

Í kjölfar þessa var yður sent bréf 14. júlí 2020 undirritað af B. Í bréfinu kom fram að það væri niðurstaða málsins, að lokinni yfirferð á andmælum yðar og [...] yðar með hliðsjón af framkomnum athugasemdum, að veita yður áminningu vegna brota á starfsskyldum yðar sem [...]. Hefðuð þér ekki virt tilmæli yfirmanns yðar hvað varðar framkvæmd starfsins með þeim hætti sem nánar er lýst í bréfinu.

Svo sem áður greinir er umboðsmaður ekki sömu stöðu og for­stöðumaður stofnunar til að leggja mat á hvort frammistaða starfsmanns og þau verkefni sem hann innir af hendi, s.s. [...], séu fullnægjandi eða ekki. Að því virtu og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég ekki forsendur til þess af minni hálfu að gera athugasemdir við lögmæti þeirrar áminningar sem yður var veitt með fyrrgreindu bréfi B. Ég ítreka í því sambandi að áminning er hluti af stjórnunar­úrræðum forstöðumanns og sé skilyrðum fullnægt til að beita þessu úrræði verður að játa forstöðumanni tiltekið svigrúm til að ákveða hvort áminningu verður beitt. Síðast en ekki síst þarf að hafa í huga að áminning er formbundið úrræði fyrir forstöðumann til þess að upplýsa starfsmann um atriði og starfshætti sem forstöðumaðurinn telur að starfsmaðurinn þurfi að bæta úr. Áminning ein og sér hefur ekki víðtækari áhrif nema niðurstaðan verði sú að starfsmaðurinn hafi ekki bætt úr því sem athugasemdirnar lúta að. Hér hef ég einnig í huga að af gögnum málsins má ráða að yfirmaður yðar hafi rætt við yður og komið á framfæri tilteknum athugasemdum um hvernig laga mætti meðal annars [...] áður en til skoðunar kom að veita yður áminningu, sbr. meðal annars fundi 15. maí 2019, 27. nóvember s.á. og 6. febrúar 2020.

  

III

Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.