Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11302/2021)

Kvartað var yfir að beiðnir um húsnæðisaðstoð og fleira hefðu ekki verið afgreiddar hjá velferðarsviði Reykjavíkur.

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að umsókn viðkomandi um húsnæði hefði nú verið afgreidd. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 15. september sl., sem beinist að velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Laut kvörtun yðar að því að beiðnir yðar um húsnæðisaðstoð og aðra aðstoð hefðu ekki hlotið afgreiðslu.

Í tilefni af kvörtun yðar var velferðarsviði Reykjavíkurborgar ritað bréf, dags. 24. september sl., þar sem óskað var eftir að borgin veitti upplýsingar um hvort hún hefði umsóknir frá yður til meðferðar og hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Fenguð þér afrit af því bréfi. Nú hefur borist svarbréf frá Reykjavíkurborg, dags. 11. október sl., sem fylgir hér hjálagt í ljósriti, þar sem fram kemur að umsókn yðar um húsnæði hafi verið afgreidd hjá borginni. Í bréfinu er ferli máls yðar rakið og tekið fram að yður hafi verið úthlutað húsnæði 5. október sl. og tilkynnt um úthlutunina 7. október sl.

Að fengnum þeim upplýsingum sem fram koma í bréfi Reykjavíkurborgar tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtun yðar. Með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.