Stjórn fiskveiða. Svipting veiðileyfis. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu.

(Mál nr. 2519/1998)

A kvartaði yfir úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu um að svipta skip í eigu A veiðileyfi í þrjár vikur vegna brota á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Því var aðallega haldið fram af hálfu A að ákvæði laga nr. 57/1996, að því leyti sem þau heimiluðu Fiskistofu að svipta skip veiðileyfi vegna brota á lögunum, stæðust ekki 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu enda væri sú ráðstöfun í eðli sínu refsing. Hefðu því dómstólar einir vald til að kveða upp úr um skilyrði slíkrar ráðstöfunar.

Í bréfi sínu til A, dags. 27. október 2000, rakti umboðsmaður ákvæði laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tók fram að það væri almennt ekki á verksviði hans að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett. Vék hann þó að fyrirmælum 11. gr. laganna í þessu sambandi en tók fram að lögin gerðu ekki ráð fyrir að kvörtun yrði borin fram við umboðsmann á grundvelli ákvæðisins. Hefði hann þó sérstaklega í þeim tilvikum þegar kvörtun beindist að fyrirkomulagi stjórnsýslunnar og álitamálum um réttaröryggi borgaranna í samskiptum við hana kynnt sér efni fyrirliggjandi kvörtunar til að meta hvort tilefni væri til að taka efni hennar upp að eigin frumkvæði samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður lýsti atvikum að baki kvörtunar A og rakti ákvæði laga nr. 57/1996. Tók hann fram að af orðalagi 15. gr. laganna og samanburðarskýringu þess við önnur ákvæði þeirra, einkum 23. og 24. gr., væri ljóst að löggjafinn hefði ekki gert ráð fyrir því að svipting veiðileyfis yrði talin refsing í merkingu 31. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá vék umboðsmaður að þeim eðlismun sem væri á sviptingu opinberra leyfa til að stunda tiltekna atvinnustarfsemi og refsingum eins og fjársektum og fangelsi. Benti hann á að enda þótt svipting opinberra leyfa gæti haft íþyngjandi áhrif á stöðu og jafnvel fjárhagslega afkomu leyfishafa hefði ekki verið á því byggt í íslenskri réttarframkvæmd að slík ráðstöfun ein og sér gæti talist refsing í merkingu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá yrði ekki heldur séð af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að svipting opinberra leyfa af hálfu stjórnvalda hefði verið talin refsing í merkingu 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Lagði umboðsmaður í þessu sambandi áherslu á að ákvarðanir stjórnvalda um sviptingu veiðileyfa yrðu bornar undir dómstóla, sbr. upphafsmálslið 20. gr. laga nr. 57/1996.

Það var niðurstaða umboðsmanns að kvörtun A gæfi ekki tilefni til þess að hann nýtti heimild 11. gr. laga nr. 85/1997. Þá gæfi hún að öðru leyti ekki tilefni til þess að hann gerði athugasemdir við úrskurð sjávarútvegsráðuneytisins í málinu.