Aðgangur að gögnum og upplýsingum. COVID-19.

(Mál nr. 11306/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem staðfesti ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að synja viðkomandi um aðgang að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum gegn COVID-19.

Samkvæmt upplýsingalögum er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Með hliðsjón af lagagrundvelli málsins sem og rökstuðningi úrskurðarnefndarinnar og að virtum gögnum málsins, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. október 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 17. september sl., er lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 27. ágúst sl. í máli nr. 1037/2021. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins um að synja yður um aðgang að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum gegn COVID-19 með vísan til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af kvörtun yðar fæ ég ráðið að þér lítið svo á að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir takmörkun á upplýsingarétti almennings og að yðar mati sé um að ræða gögn sem eigi erindi til almennings.

Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefnd um upplýsingamál ritað bréf, dags. 17. september sl., þar sem þess var óskað mér yrðu afhent afrit af öllum gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust mér 23. september sl.

  

II

Um upplýsingarétt almennings gilda upplýsingalög nr. 140/2012. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna er meginreglan sú að skylt er að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þá segir í 3. mgr. 5. gr. að eigi ákvæði 6.-10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.

Í 10. gr. laganna er mælt fyrir um takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna nánar tiltekinna almannahagsmuna. Samkvæmt 2. tölul. 10. gr. er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir.

Í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 segir eftirfarandi:

„Með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ er vísað til þess að beiðni um upplýsingar verður ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Þessir hagsmunir eru tæmandi taldir, en hver töluliður sætir sjálfstæðri skýringu með tilliti til eðlis þeirra hagsmuna sem um ræðir.

[...]

Um 2. tölul. Ákvæðið á um samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða öðrum toga. Þeir hagsmunir sem hér er verið að vernda eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.

Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir ekki synjað nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða er ljóst að varfærni er eðlileg við skýringu á ákvæðinu.“ (Sjá þskj. 223 á 141. löggj.þ. 2012-2013, bls. 55-56.)

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál er tekið fram að ekki leiki vafi á því að líta bera á samningana sem samskipti við önnur ríki í skilningi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga auk þess sem þeir varði að hluta samskipti við fjölþjóðastofnanir, þ.e. stofnanir Evrópusambandsins vegna þátttöku íslenska ríkisins í samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Þá áréttaði nefndin að beiðni um upplýsingar yrði ekki synjað með stoð í ákvæðinu nema aðgangur leiddi af sér hættu á tjóni á einhverjum af þeim hagsmunum sem nytu verndar samkvæmt ákvæðinu. Í því sambandi leit úrskurðarnefndin m.a. til þess að í samningunum væri gert ráð fyrir því að þeir skyldu fara leynt. Þá tók nefndin eftirfarandi fram:

„Við þessar aðstæður telur úrskurðarnefndin einsýnt að birting samninganna í heild eða að hluta af hálfu íslenskra stjórnvalda væri til þess fallin að skerða það trúnaðartraust sem ríkir á milli samningsaðilanna, þ.e. íslenska ríkisins, sænska ríkisins, sem kemur fram fyrir hönd Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi, og lyfjaframleiðendanna. Þrátt fyrir að samningarnir varði atriði sem ekki geta talist standa yfir í þeim skilningi sem áður er vikið að, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 701/2017 frá 11. september 2017, verður ekki framhjá því litið að íslenska ríkinu mun líklega reynast nauðsynlegt að festa kaup á fleiri bóluefnaskömmtum gegn COVID-19. Samkvæmt framangreindu gæti afhending samninganna af hálfu íslenskra stjórnvalda leitt til þess að samningsaðilar íslenska ríkisins beri fyrir sig vanefndir á samningunum og að afhending bóluefna samkvæmt samningnum raskist og enn fremur að samningsstaða ríkisins vegna frekari kaupa á bóluefnum breytist til hins verra vegna þeirrar áherslu sem samningsaðilar íslenska ríkisins hafa lagt á trúnað.“

Með hliðsjón af lagagrundvelli málsins sem og rökstuðningi úrskurðarnefndarinnar, og að virtum þeim gögnum málsins sem mér hafa borist, tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að mikilvægir almannahagsmunir í skilningi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga standi í vegi fyrir því að fallast á gagnabeiðni yðar.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.