Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11309/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Hagstofu Íslands um að hætta við að ráða í starf.

Þegar stjórnvald hættir við að ráða í starf eftir að auglýsing hefur verið birt felur sú ákvörðun í sér að bundinn er endi á stjórnsýslumálið sem hófst með birtingu auglýsingarinnar. Það hefur verið afstaða umboðsmanns að stjórnvöldum sé almennt heimilt að ráða ekki í hið lausa starf sem auglýst hefur verið og að stjórnvaldið sem fari með ráðningarvaldið hafi nokkurt svigrúm til að ákveða að ljúka máli með þeim hætti, enda hafi sú ákvörðun verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Að virtum svörum Hagstofu Íslands og gögnum málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun stofnunarinnar.

Hins vegar urðu athugasemdir í kvörtuninni, við að Hafstofa Íslands hefði ekki leiðbeint um að unnt væri að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðuninni, umboðsmanni tilefni til að senda stofnuninni bréf með ábendingu þess efnis.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 21. september sl., er lýtur að ákvörðun Hagstofu Íslands um að hætta við ráðningu í starf gæða- og öryggisstjóra, sem auglýst var 20. ágúst sl., og þér sóttuð um. Með tölvubréfi, dags. 16. september sl., var yður tilkynnt um að vegna yfirvofandi skipulagsbreytinga, sem snertu m.a. gæða- og öryggisstarf innan stofnunarinnar, hefði verið tekin ákvörðun um að hætta við ráðningu í starfið. Þörf hefði verið á því að að taka verkefni starfsins til endurskoðunar og því nauðsynlegt að auglýsa það aftur. Af kvörtun yðar fæ ég ráðið að þér teljið ákvörðun Hagstofu byggjast á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Í tilefni af kvörtun yðar var Hagstofu Íslands ritað bréf, dags. 29. september sl., þar sem þess var óskað að veittar yrðu nánari upplýsingar um þær skipulagsbreytingar sem fyrirhugaðar væru og áhrif þeirra á starf gæða- og öryggisstjóra. Auk þess var þess óskað að mér yrðu afhent þau gögn sem lágu til grundvallar þeirri ákvörðun að hætta við ráðningu í starfið. Umbeðin svör og gögn bárust 12. október sl.

  

II

1

Ráðning í starf hjá hinu opinbera er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fer því um slíkar ákvarðanir eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Af framangreindu leiðir að auglýsing um laust starf hjá stjórnvaldi felur í sér upphaf stjórnsýslumáls sem miðar að því að tekin verði stjórnvaldsákvörðun.

Þegar stjórnvald hættir við að ráða í starf eftir að auglýsing hefur verið birt felur sú ákvörðun í sér að bundinn er endi á stjórnsýslumálið sem hófst með birtingu auglýsingarinnar. Það hefur verið afstaða umboðsmanns að stjórnvöldum sé almennt heimilt að ráða ekki í hið lausa starf sem auglýst hefur verið og að stjórnvaldið sem fari með ráðningarvaldið hafi nokkurt svigrúm til að ákveða að ljúka máli með þeim hætti, enda hafi sú ákvörðun verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 31. desember 2018 í máli nr. 9519/2017.

Í svari Hagstofu Íslands til mín, sem fylgir hjálagt í ljósriti, er inntak hinna fyrirhuguðu skipulagsbreytinga rakið. Þar kemur m.a. fram að unnið hafi verið að gerð nýrrar tæknistefnu og að í henni sé kveðið á um nýtt svið stafrænnar þróunar sem og breytingar á verkaskiptingu þar sem tæknimál verði samofin öllu í starfsemi stofnunarinnar. Við frekari mótun og innleiðingu umræddrar tæknistefnu hafi komið í ljós að óhjákvæmilegt væri að þær breytingar myndu hafa áhrif á starf og verkefni gæða- og öryggisstjóra. Í ljósi breytinga á starfinu væri ljóst að leggja þyrfti áherslu á leiðtogahæfni þannig að gæða- og öryggisstjóri hefði hæfni og getu til að leiða gæðamál, vinna öryggismál í síbreytilegu tækniumhverfi og leiða umbótaverkefni. Þá myndi nýtt svið stafrænnar þróunar taka yfir innleiðingarþátt gæða- og öryggisstjóra sem hefði verið umfangsmikill. Þannig myndi starf gæða- og öryggisstjóra snúast minna um innleiðingar á nýjum hugbúnaði eða vinnutólum líkt og áður hefði verið og þá yrði hlutverk hans að hluta til annað og styðjast í auknum mæli við teymisvinnu. Það hafi því verið ljóst að þessar breyttu áherslur í starfi gæða- og öryggisstjóra myndu leiða til breyttra hæfniskrafna. Því hafi verið tekin ákvörðun um að hætta við ráðningu í starfið og og auglýsa það að nýju.

Með svari Hagstofu fylgdi minnisblað þar sem finna má nánari tillögur um breytingar á fyrirkomulagi og stýringu gæða- og öryggismála stofnunarinnar auk starfsgreiningar sem unnin var áður en starf gæða- og öryggisstjóra var auglýst í ágúst sl. Ég tel þó ekki ástæðu til að rekja efni þeirra nánar.

Að virtum svörum Hagstofu Íslands, þeim gögnum sem mér hafa borist og í ljósi þess svigrúms sem stjórnvöld hafa við ákvörðun um að falla frá ráðningu í starf tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun stofnunarinnar um að hætta við ráðningu í starf gæða- og öryggisstjóra. Hef ég þar einkum í huga að ég fæ ekki annað sé en að þau sjónarmið sem Hagstofa lagði til grundvallar teljist málefnaleg.

  

2

Í kvörtun yðar gerið þér jafnframt athugasemdir við að í tilkynningu Hagstofu Íslands um að fallið hafi verið frá ráðningu í starfið hafi yður ekki verið leiðbeint um að unnt væri að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðuninni líkt og kveðið sé á um í 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Í áðurnefndu ákvæði er mælt fyrir um að þegar ákvörðun sé tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda. Í tilkynningu Hagstofu Íslands er ekki að finna slíkar leiðbeiningar. Hefur það orðið mér tilefni til að rita stofnuninni hjálagt bréf þar sem ég kem á framfæri ábendingu þess efnis.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  


  

Bréf umboðsmanns til Hagstofu Íslands, dags. 20. október 2021, hljóðar svo:

  

Það tilkynnist að ég hef lokið athugun minni á kvörtun A með bréfi, sem fylgir hjálagt í ljósriti, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á málinu orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingu á framfæri.

Þegar stjórnvaldsákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skal veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá hana rökstudda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sjá nánar álit umboðsmanns Alþings frá 30. september 2014 í máli nr. 7923/2014 og 31. desember 2018 í máli nr. 9519/2017. Í ljósi þess að slíkar leiðbeiningar var ekki að finna í tilkynningu Hagstofu Íslands til A kem ég þeirri ábendingu á framfæri að betur verð gætt að því að þær verði veittar við meðferð hliðstæðra mála hjá stofnuninni í framtíðinni.