Lögreglu og sakamál.

(Mál nr. 11333/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að fella niður rannsókn máls vegna eignaspjalla. Embættið hafi verið vanhæft til meðferðar málsins vegna viðskiptatengsla við sakborning og hefði átt að fela öðru embætti að fara með málið.

Umboðsmaður benti viðkomandi á að kæra mætti ákvörðun lögreglustjórans til ríkislögreglustjóra og tæma þannig kæruleið. Að svo stöddu væri því ekki unnt taka kvörtunina til athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar dags. 3. október sl. yfir ákvörðun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að fella niður rannsókn máls vegna eignaspjalla. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið að embættið hafi verið vanhæft til meðferðar málsins vegna viðskiptatengsla við sakborning og hafi borið að fela öðru embætti meðferð málsins.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Samkvæmt 6. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála getur sá sem á hagsmuna að gæta kært ákvörðun lögreglu um frávísun á kæru eða að rannsókn hafi verið hætt, skv. 4. mgr. sömu greinar, til ríkissaksóknara innan eins máðar frá því að honum er tilkynnt um ákvörðunina eða hann fær vitneskju um hana með öðrum hætti. Í ljósi áðurrakinna sjónarmiða sem búa að baki þeirri reglu að leiðir innan stjórnsýslunnar verði að vera fullnýttar áður en leitað er til umboðsmanns Alþingis með kvörtun tel ég mér því ekki unnt að taka mál yðar til athugunar að svo stöddu. Ég bendi yður hins vegar á að ef þér kjósið að kæra ákvörðun lögreglustjórans til ríkissaksóknara en teljið yður enn rangindum beittan að fenginni úrlausn hans getið þér leitað til mín að nýju.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.