Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11340/2021)

Kvartað var yfir að tiltekin kona starfaði á ákærusviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu án þess að starfið hefði verið auglýst laust til umsóknar.

Viðkomandi hafði áður leitað til umboðsmanns vegna ráðningar konunnar í starfið. Svör lögreglustjórans þá leiddu í ljós að kvörtunin var tilhæfulaus og lauk málinu af þeim sökum. Taldi umboðsmaður ekki nægilegt tilefni nú til að taka til athugunar hvort umrætt ráðningarsamband hefði verið framlengt og þá á hvaða lagagrundvelli. Erindinu yrði haldið til haga sem ábendingu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. október sl. yfir því að nafngreind kona starfi á ákærusviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu án þess að starf hennar hafi verið auglýst laust til umsóknar.

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns með kvörtun vegna ráðningar konunnar í umrætt starf, sbr. mál nr. 11155/2021. Í samræmi við hefð­bundið verklag hjá umboðsmanni var af því tilefni óskað eftir upplýsingum um hvort rétt væri að starfið hefði ekki verið auglýst og ef svo væri á hvaða lagagrundvelli hefði verið ákveðið að gera það ekki. Ekki var tekin afstaða til frekari aðkomu yðar að málinu með tilliti til þess hvort þér teldust hafa verið beittir rangsleitni með ákvörðun um þá ráðningu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Svör lögreglustjórans leiddu í ljós að kvörtun yðar var tilhæfulaus og lauk málinu af þeim sökum.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leggur umboðsmaður mat á hvort kvörtun gefi tilefni til nánari athugunar og hefur til þess töluvert svigrúm. Í ljósi framangreinds tel ég ekki nægjanlegt tilefni á grundvelli kvörtunar yðar til þess að taka til athugunar hvort umrætt ráðningarsamband hafi verið framlengt og þá á hvaða lagagrundvelli það var gert. Erindinu verður aftur á móti haldið til haga sem ábendingu.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.