Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11344/2021)

Kvartað var yfir óviðunandi læknisfræðilegri þjónustu og skorti á úrræðum til að mæta fötlun viðkomandi og geðröskunum. Með fylgdi kvörtun til landlæknis.

Almennt geta ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda ekki komið til umfjöllunar umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en æðra stjórnvald eða sérstakur eftirlitsaðili hefur a.m.k. fengið tækifæri til að taka afstöðu til atvika málsins og eftir atvikum brugðist við því ef tilefni er til. Þar sem fyrir lá að kvörtun hafði verið send til landlæknis á sama tíma og umboðsmanns var ekki tilefni fyrir umboðsmann til að taka málið til athugunar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. október 2021, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar, f.h. A, frá 12. október sl. er lýtur að óviðunandi læknisfræðilegri þjónustu og skorti á úrræðum til að mæta fötlun hans og geðröskunum. Í kvörtun yðar kemur fram m.a. að þér teljið að umbjóðandi yðar hafi ekki fengið nægilega góða heilbrigðisþjónustu og honum hafi verið synjað um þjónustu svokallaðs T-teymis heilsugæslunnar, þ.e. geðheilsuteymis taugaþroskaraskana. Meðfylgjandi var kvörtun yðar til landlæknis vegna málefna A, einnig dags. 12. október sl.

Um landlækni gilda lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Í 2. gr. laganna kemur fram að starfrækja skuli embætti landlæknis undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra og er hlutverk landlæknis m.a. að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum og sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu, sbr. 4. gr. laganna. Í 12. gr. laganna er fjallað um kvörtun til landlæknis og kemur þar m.a. fram í 6. mgr. að unnt sé að kæra málsmeðferð samkvæmt því ákvæði til heilbrigðis­ráðherra.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að til að umboðsmaður Alþingis geti tekið mál til athugunar verður að liggja fyrir endanleg niðurstaða stjórnvalda í málinu. Þetta leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir að almennt geta ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda ekki komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en æðra stjórnvald eða sér­stakur eftirlitsaðili, sem hefur verið komið upp innan stjórnsýslunnar með lögum, í þessu tilviki landlæknir, hefur a.m.k. fengið tækifæri til að taka afstöðu til atvika málsins og eftir atvikum brugðist við ef hann telur tilefni til þess. Þar sem fyrir liggur að þér senduð kvörtun til landlæknis sama dag og þér leituðuð til mín er tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til athugunar að svo stöddu.

Með vísan til þess sem er rakið að framan læt ég athugun minni á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þegar landlæknir hefur lokið meðferð málsins getið þér, eftir atvikum að undangenginni kæru til heilbrigðisráðuneytisins að því er málsmeðferðaratriði varðar, leitað til mín á nýjan leik með kvörtun ef þér telið þá enn tilefni til þess.