Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11346/2021)

Kvartað var að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði ekki svarað erindum.

Umboðsmaður greindi viðkomandi frá í júnímánuði að hann mæti hverju sinni hvort erindi gæfi tilefni til nánari athugunar. Í ljósi samskipta viðkomandi við ráðuneytið og skrifstofu umboðsmanns taldi umboðsmaður ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtunina til athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 14. október sl. yfir því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi ekki svarað tölvubréfum sem þér kveðist hafa sent því 8. og 9. ágúst sl. Á meðal gagna sem fylgdu kvörtuninni voru tvö tölvubréf sem innihéldu texta sem mun hafa verið afritaður úr tölvubréfunum sem þér kveðist hafa sent ráðuneytinu og lýtur að málefnum tengdum X.

Eins og kom fram í bréfi mínu til yðar 29. júní sl. leggur umboðsmaður Alþingis mat á hvort erindi gefi tilefni til nánari athugunar og hefur til þess töluvert svigrúm. Í ljósi fyrri samskipta yðar við ráðuneytið og skrifstofu umboðsmanns tel ég ekki nægjanlegt tilefni til að taka kvörtun yðar nú til athugunar.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.