Gjafsókn. Aðili máls.

(Mál nr. 11348/2021)

Kvartað var yfir að systur hefði verið veitt gjafsóknarleyfi vegna málshöfðunar gegn viðkomandi.

Í samræmi við almennt viðurkennd viðhorf lagði umboðsmaður til grundvallar að það væri einungis umsækjandi um gjafsókn sem teldist aðili að máli fyrir gjafsóknarnefnd en ekki sá sem ætlunin væri að stefna í fyrirhuguðu dómsmáli. Kvörtunin beindist því ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalda gagnvart viðkomandi heldur laut að ákvörðun sem beindist að öðrum einstaklingi. Þar með voru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, sem barst 18. október sl., fyrir hönd A yfir því að systur hans hafi verið veitt gjafsóknarleyfi vegna málshöfðunar gegn honum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns kvartað af því tilefni til hans, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Þær athafnir, ákvarðanir eða athafnaleysi stjórnvalda sem kvörtun lýtur að verða því að snerta beint hagsmuni eða réttindi þess sem kvartar umfram aðra, s.s. með því að beinast sérstaklega að honum.

Í athugasemdum við síðastnefnt ákvæði í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/1997 kemur m.a. fram að allir einstaklingar geti kvartað til umboðsmanns og sama gildi um félög. Því næst segir að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert bein­línis hagsmuni hans eða réttindi geti þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Sé umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. frumvarpsins (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330).

Kvörtun yðar beinist ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalda gagnvart A í framangreindum skilningi heldur er þar um að ræða ákvörðun sem beindist að öðrum einstaklingi. Í samræmi við almennt viðurkennd viðhorf verður að leggja til grundvallar að það sé einungis umsækjandi um gjafsókn sem telst aðili að máli fyrir gjafsóknarnefnd en ekki sá sem ætlunin er að stefna í fyrirhuguðu dómsmáli. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Í kvörtun yðar vísið þér til 5. gr. laga nr. 85/1997 sem fjallar um heimild umboðsmanns til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Af því tilefni bendi ég á að þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis er verklag hans þannig að erindið er skráð og farið yfir það með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hags­muna sem tengjast málefninu sem um ræðir, málastöðu og nýtingar mann­afla umboðsmanns. Verði málefnið tekið til athugunar í tilefni af ábendingu er þeim sem vekur máls á því almennt ekki tilkynnt um það heldur er upplýst um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.