Opinberir starfsmenn. Frádráttur frá biðlaunum.

(Mál nr. 2799/1999)

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun ríkisbókhalds að skerða biðlaun er hann naut vegna niðurlagningar stöðu sem hann hafði gegnt. Nam skerðingin þeirri hækkun sem varð á launagreiðslum til hans vegna þess að hann jók kennslu sína við Háskóla Íslands í kjölfar starfslokanna. Kom sú afstaða fram í kvörtuninni að ákvæði 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, yrði ekki skýrt svo rúmt að það næði til hvers konar tekna sem biðlaunaþegi aflaði sér.

Umboðsmaður tók fram í bréfi sínu til A, dags. 29. desember 2000, að samkvæmt orðalagi 2. mgr. laga nr. 70/1996 væri heimilt að draga frá biðlaunagreiðslum launatekjur sem biðlaunaþegi aflaði sér í starfi er hann hefði tekið við í þjónustu ríkisins eða í þjónustu annars aðila. Yrði þá að taka afstöðu til þess hvernig skýra bæri hugtakið starf í skilningi ákvæðisins. Taldi umboðsmaður að ekki væru rök til annars en að telja að félli starf undir gildissvið laga nr. 70/1996 væri um starf í skilningi 2. mgr. 34. gr. þeirra laga að ræða og því heimilt að draga launagreiðslur fyrir það starf frá biðlaunagreiðslum. Samkvæmt 1. gr. laganna tækju þau til hvers manns sem væri skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar enda yrði starfið talið aðalstarf. Með vísan til athugasemda við 1. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 70/1996 taldi umboðsmaður að væri starf hálft starf miðað við dagvinnu yrði það talið aðalstarf. Þá yrði að telja að fengi viðkomandi meginhluta tekna sinna frá ríkinu þá væri það aðalstarf hans. Umboðsmaður taldi upplýst að hvort sem miðað væri við þá aukningu sem varð á kennslu A eða raunverulegt starfshlutfall hans félli starf hans við stundakennslu undir gildissvið laga nr. 70/1996. Var það því niðurstaða umboðsmanns að sú aðferð sem viðhöfð var af hálfu ríkisbókhalds við frádrátt frá biðlaunagreiðslum til A hefði haft viðhlítandi stoð í lögum.