Kvartað var yfir töfum á meðferð mála hjá áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar.
Í ljósi laga um þjóðkirkjuna hefur umboðsmaður talið að þegar kvartanir berast vegna ákvarðana og athafna innan hennar þurfi að meta hverju sinni hvort það sé málefni sem teljist hluti af þeirri stjórnsýslu ríkisins sem fellur undir starfssvið hans. Samkvæmt erindinu laut það annars vegar að atriði sem ágreiningur var um hvort féllu undir úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar og hins vegar atriði sem féllu utan starfssviðs umboðsmanns. Þótt umboðsmaður hafi tekið til athugunar kvartanir sem hafa borist vegna beitingar þjóðkirkjunnar á ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gagnvart þeim starfsmönnum kirkjunnar sem hafa notið réttinda og borið skyldur samkvæmt þeim lögum, taldi hann ekki leiða af lögum að kvörtunin félli undir starfssvið sitt þannig að ástæða væri til að taka hana til frekari athugunar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 1. nóvember 2021, sem hljóðar svo:
I
Vísað er til kvörtunar yðar 7. september sl. sem beinist að áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar og lýtur að töfum á meðferð tveggja mála sem þér skutuð til hennar 15. mars og 27. ágúst 2020.
Starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Íslenska þjóðkirkjan er evangeliskt lúterskt trúfélag, sbr. 1. gr. laga nr. 77/2021, um þjóðkirkjuna, sem ræður starfi sínu og skipulagi innan lögmætra marka, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna. Í samræmi við stefnumörkun löggjafans um aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar, síðast með samþykkt laga nr. 77/2021, hafa ýmis stjórnsýsluverkefni vegna þjóðkirkjunnar verið flutt frá stjórnsýslu ríkisins til stofnana þjóðkirkjunnar, sókna hennar og starfsmanna kirkjunnar. Um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins fer samkvæmt þeim lögum og samningum sem eru í gildi hverju sinni er varða samskipti þjóðkirkjunnar og ríkisins, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, sem og 1. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 3. gr. þeirra. Ekki er lengur mælt fyrir um í lögum að það ráðuneyti sem fer með trúmál hafi umsjón með því að þjóðkirkjan og stofnanir hennar fari að lögum.
Í ljósi framangreinds hefur umboðsmaður talið að þegar kvartanir berast vegna ákvarðana og athafna innan þjóðkirkjunnar þurfi að meta hverju sinni hvort um sé að ræða málefni sem teljist hluti af þeirri stjórnsýslu ríkisins sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997. Þannig hafa t.d. verið teknar til athugunar kvartanir sem hafa borist vegna beitingar þjóðkirkjunnar á ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gagnvart þeim starfsmönnum kirkjunnar sem hafa notið réttinda og borið skyldur eftir því sem nánar er mælt fyrir um í þeim lögum. Almennt hefur hins vegar ekki verið talið rétt að fjalla um aðra stjórnsýslu þjóðkirkjunnar eða samskipti hennar við starfsfólk hennar eða aðra nema það leiði með skýrum hætti af lögum að það falli undir starfssvið umboðsmanns. Þetta átti jafnframt við fyrir gildistöku laga nr. 77/2021.
II
Líkt og að framan greinir hafið þér skotið niðurstöðu úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar í tveimur málum, nr. [...] og [...], til áfrýjunarnefndar kirkjunnar, og fer um meðferð þeirra eftir lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sbr. 13. gr. laga nr. 77/2021.
Ekki verður annað séð en að úrskurður úrskurðarnefndarinnar 7. ágúst 2020 í máli nr. 1/2020 hafi verið kveðinn upp í tilefni af því erindi sem þáverandi umboðsmaður tilkynnti yður 6. apríl 2020, í tilefni af kvörtun yðar í máli nr. 10447/2020, að féllu utan starfssviðs umboðsmanns. Af því leiðir að hið sama á við um málsmeðferð og ákvörðunartöku áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar í tilefni af málskoti vegna þess úrskurðar.
Kröfugerð yðar í máli nr. 2/2020 laut að því að staðfest yrði að yður hefði verið boðinn flutningur í prestsembætti á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996 með þeim réttaráhrifum sem af greininni og 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrár leiða, en ella að boð um að taka við skipun til fimm ára í embætti annars tveggja presta í tilteknu prestakalli hefði verið í gildi tiltekinn dag. Fyrir liggur að gagnaðili yðar krafðist þess að málinu að þessu leyti yrði vísað frá þar sem það félli ekki undir hlutverk og valdssvið nefndarinnar að fjalla um þessi atriði. Að öðru leyti laut kröfugerð yðar að framgöngu tiltekinna aðila innan kirkjunnar gagnvart yður. Með úrskurði 25. febrúar sl. vísaði úrskurðarnefndin erindi yðar frá að svo stöddu á þeim grundvelli að það væri af sömu rót runnið og mál nr. 1/2020 sem ekki var talið hafa verið leitt til endanlegra lykta þar sem því hefði verið áfrýjað.
Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1997 kemur fram að rísi ágreiningur á kirkjulegum vettvangi eða starfsmaður þjóðkirkjunnar er borinn sökum um siðferðis- eða agabrot og getur hver sem á hagsmuna að gæta borið málið undir úrskurðarnefnd sem biskup Íslands skipar til fjögurra ára í senn. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. setur kirkjuþing nánar ákvæði um úrskurðarnefndina í starfsreglur.
Með ágreiningi á kirkjulegum vettvangi er átt við ágreining milli þeirra aðila sem taldir eru upp í 4. gr. reglnanna og sem varðar með einhverjum hætti kirkjulegt starf eða starfsemi á vegum kirkjunnar, sbr. 3. gr. starfsreglna nr. 730/1998, um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar. Í 2. mgr. 3. gr. kemur fram að úrskurðarnefndin fjalli ekki um málefni sem varða starfslok starfsfólks þjóðkirkjunnar – Biskupsstofu, sbr. reglur nr. 402/2021, en áður var mælt fyrir um að hún fjallaði ekki um málefni sem vörðuðu lausn frá embætti eða starfsloka á grundvelli laga nr. 70/1996.
Samkvæmt framangreindu lýtur erindi yðar í máli nr. 2/2020 annars vegar að atriði sem ágreiningur er um hvort falli undir úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar og hins vegar að atriði sem falla utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis með sömu rökum eiga við um mál yðar nr. 1/2020. Þótt umboðsmaður hafi tekið til athugunar kvartanir sem hafa borist vegna beitingar þjóðkirkjunnar á ákvæðum laga nr. 70/1996 gagnvart þeim starfsmönnum kirkjunnar, sem hafa notið réttinda og borið skyldur samkvæmt þeim lögum, tel ég ekki leiða af lögum að kvörtun yðar falli undir starfssvið umboðsmanns þannig að ástæða sé til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar.
Með vísan til framangreinds læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.