Almannatryggingar.

(Mál nr. 11245/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar að synja umsókn viðkomandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Fyrir lá að A fékk þegar greiddar fullar bætur frá Svíþjóð og ekki var ágreiningur um að þær væru jafngildar örorkulífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar. Ekki var því ástæða til að gera athugasemdir við að umsókninni hefði verið synjað hér á landi enda voru ekki uppfyllt skilyrði um búsetu á Íslandi þegar umsóknin var afgreidd árið 2013.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 11. ágúst sl. fyrir hönd A yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 23. júní sl. í máli nr. [...]. Samkvæmt úrskurðarorði staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn A um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Sú niðurstaða byggðist m.a. á því að A uppfyllti ekki skilyrði um búsetu hér á landi þegar A sótti fyrst um örorkulífeyri á árinu 2013. A ynni ekki rétt til slíkra greiðslna eftir að hann flutti til Íslands frá Svíþjóð á árinu 2018 enda hefði umsókn A þar í landi verið samþykkt á árinu 2013. Í úrskurðinum var þó fundið að því að rökstuðningur samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar hefði ekki verið í samræmi við lög en sá annmarki ekki talinn valda því að hún yrði felld úr gildi. Í þeim efnum var bent á að ákvörðunin væri studd rökum sem kæmu fram í greinargerðum stofnunarinnar til nefndarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er markmið laganna að tryggja þeim sem þau taka til og þess þurfa bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Í 18. gr. sömu laga er kveðið á um að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, og eru 18 ára eða eldri en hafa ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr. Enn fremur þurfa þeir að hafa verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu og eru metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Í 68. gr. laga nr. 100/2007 er kveðið á um að ríkisstjórninni sé heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í slíkum samningum megi m.a. kveða á um að búsetu-, atvinnu- eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur sé heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun bóta og hvaða löggjöf skuli beitt. Þá segir að við framkvæmd laganna skuli tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að. Í samræmi við framangreint og á grundvelli 71. gr. laga nr. 100/2007 hafa reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, og nr. 987/2009 frá 16. september 2009, sem kveður á um framkvæmd fyrrnefndu reglugerðarinnar, verið innleiddar í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar.

Líkt og nánar var rakið í áliti setts umboðsmanns Alþingis 30. apríl sl. í máli nr. 10077/2019 er ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 883/2004 að meginstefnu ætlað að tryggja að löggjöf aðildarríkjanna á sviði almannatrygginga og félagslegs öryggis sé beitt með samræmdum hætti gagnvart einstaklingum sem flytjast milli aðildarríkja EES-samningsins. Ákvæðum reglugerðarinnar er hvort tveggja ætlað að koma í veg fyrir að einstaklingar geti átt rétt á bótum samkvæmt löggjöf fleiri en eins aðildarríkis og að tryggja að þeir glati ekki réttindum vegna flutnings milli aðildarríkja með því að teljast hvergi tryggðir samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkja.

Í samræmi við framangreint er meðal ákvæða reglugerðarinnar að sé ekki kveðið á um annað í henni gildi það að ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki, sbr. a-lið 5. gr. Þá er einnig kveðið á um að reglugerðin skuli hvorki veita né viðhalda rétti til margvíslegra bóta sömu tegundar fyrir sama tímabil skyldutryggingar, nema annað hafi verið tilgreint, sbr. 10. gr. Í 11. gr. segir enn fremur að þeir einstaklingar, sem reglugerðin gildir um, skuli aðeins heyra undir löggjöf eins aðildarríkis og að sú löggjöf skuli ákveðin í samræmi við II. bálk reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að einstaklingar, sem falla ekki undir a- til d-lið 3. mgr. 11. gr., skuli heyra undir löggjöf búsetuaðildarríkis, með fyrirvara um önnur ákvæði í reglugerðinni sem tryggja honum bætur samkvæmt löggjöf eins eða fleiri aðildarríkja.

Svo sem leiðir af ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 883/2004 og með hliðsjón af því sem kom fram í úrskurðinum frá 23. júní sl. verður að leggja til grundvallar að einstaklingur sem þegar fær greiddan örorkulífeyri miðað við fullan bótarétt eigi ekki rétt á jafngildum bótum frá öðru aðildarríki. Þar sem fyrir liggur að A fær þegar greiddar fullar bætur frá Svíþjóð, sem ekki er ágreiningur um að séu jafngildar örorkulífeyri samkvæmt lögum nr. 100/2007, er ekki ástæða til að gera athugasemdir við að umsókn A um örorkulífeyri hafi verið synjað hér á landi, enda uppfyllti A ekki skilyrði um búsetu á Íslandi þegar umsókn hans var afgreidd á árinu 2013.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar fyrir hönd A lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.