Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11345/2021)

Kvartað var yfir að Kópavogsbær hefði ekki brugðist við erindum.

Samkvæmt svörum sveitarfélagsins hafði verið brugðist við. Í ljósi þess og að viðkomandi hafði nýverið óskað eftir frekari upplýsingum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 13. október sl., en með henni fylgdu erindi yðar til Kópavogsbæjar 3., 14. og 18. júní og 7. október sl.

Í tilefni af því að ekki var ljóst hvort og þá hvernig upphaflegu erindi yðar, sem þér ítrekuðuð tvívegis í júní, hefði verið svarað var Kópavogsbæ ritað bréf 15. október sl. sem þér fenguð sent afrit af. Nú hefur borist svarbréf frá Kópavogsbæ, dags. 18. október sl., þar sem upplýst er um símtal deildarstjóra þjónustudeildar fatlaðra hjá sveitarfélaginu við yður 28. júní sl. Um það segir að þér hafið fengið upplýsingar um að ekki lægi fyrir hvernig innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefði áhrif á núverandi stuðningsþjónustu, upplýsingagjöf til forráðamanna og veitingu þjónustu til barns sem býr á tveimur heimilum. Í bréfinu er jafnframt rakið að fyrirspurn yðar hafi verið fylgt eftir af tveimur fulltrúum velferðarráðs sveitarfélagsins á fundi ráðsins sama dag, en fulltrúarnir hafi lagt fram fyrirspurn um upplýsingagjöf og þjónustu til foreldra fatlaðra barna. Fyrirspurn fulltrúanna hafi verið svarað með erindi deildarstjóra þjónustudeildar fatlaðra sem lagt hafi verið fram á fundi velferðarráðs 23. ágúst sl., en fundargerðir ráðsins eru birtar opinberlega á heimasíðu Kópavogsbæjar.  

Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur margsinnis verið vísað til þess í álitum að það sé meginregla að skriflegum erindum sem beint er til stjórnvalda skuli svarað skriflega nema ljóst megi vera af efni erindisins að svars sé ekki vænst af hálfu þess sem erindið sendi. Þá leiðir af málshraðareglunni að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, en við mat á því hvort óeðlilegur dráttur verði á að stjórnvöld svari erindi verður m.a. að líta til efnis viðkomandi erindis. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni.

Með hliðsjón af framanröktu er ljóst að Kópavogsbær brást við erindi yðar 3. júní sl. með áðurnefndu símtali. Þá liggur fyrir að erindi yðar varð tilefni frekari umræðna hjá sveitarfélaginu auk þess sem þér hafið sent nýtt erindi á Kópavogsbæ 7. október sl. þar sem m.a. er óskað eftir upplýsingum um áhrif samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins á málefni barna með fötlun og hverjir séu verkferlar sveitarfélagsins. Með vísan til þess að sveitarfélagið brást við erindi yðar 3. júní sl. og að þér hafið sem fyrr greinir nýlega sent því annað erindi tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar. Þér getið hins vegar leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið óhóflegan drátt verða á svörum Kópavogsbæjar við erindi yðar frá 7. október sl. og þá að undangengnum skriflegum ítrekunum af yðar hálfu á erindinu.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.