Skattar og gjöld. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11351/2021)

Kvartað var yfir kröfum í lögum um virðisaukaskatt, til seljenda vöru að fara fram á kennitölu kaupanda. Fyrirtæki sem stundi netverslun fari almennt fram á kennitölu kaupenda án þess að lögin geri ávallt kröfu um slíkt.

Ekki varð annað ráðið af kvörtuninni en hún beindist annars vegar með almennum hætti að lögum um virðisaukaskatt og þeim kröfum sem þar eru gerðar og hins vegar að einkaaðilum. Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur hvorki til lagasetningar Alþingis né starfsemi þeirra einkaaðila sem kvörtunin beindist að voru ekki skilyrði að lögum til að hann tæki hana til frekari meðferðar.  Var viðkomandi bent á að ef tilefni þætti til mætti freista þess að leita til Persónuverndar með erindið. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 19. október sl., en af henni má ráða að hún lúti að þeim kröfum sem eru gerðar samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til seljanda vöru um að fara fram á kennitölu kaupanda. Snýr kvörtunin þá að því að fyrirtæki sem stundi netverslun fari almennt fram á kennitölur kaupenda án þess að lögin geri ávallt kröfu um slíkt.

Starfssvið umboðsmanns, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í okkar réttarkerfi er almennt álitið að það sé hlutverk dómstóla að skera úr um slík atriði. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún beinist annars vegar með almennum hætti að lögum nr. 50/1988 og þeim kröfum sem í lögunum eru gerðar. Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði að lögum til að taka kvörtun yðar til meðferðar á þeim grundvelli.

Kvörtun yðar snýr þá hins vegar að einkaaðilum, þ.e. fyrirtækjum sem stunda netverslun. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997. Starfsemi sú sem þér kvartið yfir fellur því ekki undir starfssvið umboðsmanns samkvæmt lögum nr. 85/1997 og af þeim sökum eru ekki skilyrði að lögum til þess að erindi yðar verði tekið til frekari meðferðar.

Í ljósi efnis kvörtunar yðar er yður bent á lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra meðal annars að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Sérstök stofnun, Persónuvernd, annast eftirlit með framkvæmd laganna og getur fjallað um einstök mál og tekið í þeim ákvörðun. Ef þér teljið tilefni til getið þér freistað þess að leita með erindi til stofnunarinnar. Með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé til að senda slíkt erindi eða hvaða meðferð það ætti að hljóta hjá Persónuvernd.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.