Stöðumælasektir. Málsmeðferð stjórnvalda.

(Mál nr. 11352/2021)

Kvartað var yfir að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur að synja endurupptöku ákvörðunar um álagningu stöðubrotsgjalds hefði ekki verið undirrituð með nafni þeirra starfsmanna sem stóðu að ákvörðuninni.

Fram kom að viðkomandi hefði ekki borið þessar athugasemdir sínar undir bílastæðasjóð eða óskað eftir frekari upplýsingum um hvaða starfsmenn hefðu komið að ákvörðuninni. Benti umboðsmaður honum á að gera það áður en hægt væri að leita til sín með kvörtun.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. október sl. yfir því að ákvörðun Bíla­stæðasjóðs Reykjavíkurborgar 6. október sl. um að synja yður um endur­upptöku ákvörðunar um álagningu stöðubrotsgjalds hafi ekki verið undirrituð með nafni þeirra starfsmanna sem stóðu að ákvörðuninni.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Þá bendi ég yður á að ég hef nýlega fjallað um þá almennu og for­takslausu afstöðu Tryggingastofnunar að birta ekki nöfn þeirra starfsmanna sem standa að baki ákvörðunum stofnunarinnar í áliti frá 2. júlí sl. í máli nr. 10652/2020. Var þeim tilmælum m.a. beint til stofnunar­innar að gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta á formi og fram­setningu stjórnvaldsákvarðana hennar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin voru í álitinu. Þar var þess einnig getið að teldi stofnunin ástæðu til að gæta trúnaðar um téðar upplýsingar bæri að leggja mat á hagsmuni aðila máls gagnvart þeim almanna- og einkahagsmunum sem kæmu til álita, sbr. 15.-17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í símtali yðar við starfsmann minn 20. október sl. greinduð þér frá því að þér hefðuð ekki borið athugasemdir yðar undir bílastæðasjóð eða óskað eftir frekari upplýsingum um hvaða starfsmenn hefðu komið að framangreindri ákvörðun. Að því virtu og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér freistið þess að óska eftir upplýsingum þar að lútandi frá bíla­stæðasjóði áður en þér leitið til mín með kvörtun.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar að svo stöddu.