Almannatryggingar. Málsmeðferð stjórnvalda. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11353/2021)

Kvartað var yfir að stjórnvöld hefðu ekki svarað athugasemdum um að lög um almannatryggingar samræmdust hvorki stjórnarskránni né alþjóðlegum skuldbindingum Íslands hvað ellilífeyri snerti.

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en stjórnvöld hefðu tekið afstöðu til athugasemda viðkomandi og því ekki tilefni til að umboðsmaður tæki kvörtunina til nánari athugunar hvað það varðaði. Þá tæki starfssvið umboðsmanns ekki til lagasetningar Alþingis og lét hann því umfjöllun sinni um kvörtunina lokið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. október sl. sem tengist rétti yðar til ellilífeyris. Samkvæmt kvörtuninni efist þér ekki um að niðurstaða Tryggingastofnunar um útreikning ellilífeyris yðar sé í samræmi við lög. Aftur á móti teljið þér að lögin samræmist hvorki stjórnarskránni né alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og að stjórnvöld hafi ekki svarað athugasemdum yðar þar að lútandi.

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 15. september sl. í máli nr. [...] staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um ellilífeyri yðar. Í forsendum úrskurðarins var sú niðurstaða rökstudd að útreikningar stofnunarinnar samræmdust lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, auk þess sem fjallað var efnislega um röksemdir yðar um að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og eignarréttarvernd samkvæmt 72. gr. hennar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Féllst nefndin ekki á að brotið hefði verið gegn þessum ákvæðum. Í ljósi þeirra athugasemda sem þér hafið fært fram verður ekki annað ráðið en að nefndin hafi í úrskurði sínum tekið afstöðu til þeirra. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og með vísan til framangreinds tel ég því ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar að því marki sem hún beinist að því að stjórnvöld hafi ekki tekið afstöðu til athugasemda yðar.

Um framangreindar athugasemdir yðar læt ég þess að öðru leyti getið að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni hins vegar veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitastjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Gera lögin ekki ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli. Umboðsmaður hefur þó talið rétt, þegar ábendingar hafa borist um hugsanlega „meinbugi á lögum“, að kynna sér efni þeirra. Hefur það verið gert í því skyni að meta hvort það efni sem framkomin ábending hljóðar um gefi tilefni til þess að málefnið verði tekið til umfjöllunar.

Þegar álitaefnið beinist að ósamræmi á milli almennra laga, afgreiddum af Alþingi með stjórnskipulega réttum hætti, og stjórnarskrár og/eða þjóðréttarlegra skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur undirgengist, hefur þó verið litið svo á að helst geti komið til þess að umboðsmaður nýti þá heimild sem fram kemur í 11. gr. laga nr. 85/1997 þegar leiða má slíka niðurstöðu af dómum Hæstaréttar eða eftir atvikum alþjóðlegra úrskurðaraðila, en mér er ekki kunnugt um að það eigi við um það málefni sem kvörtun yðar lýtur að. Í þessu samhengi skal þess þó getið að um þessar mundir er rekið mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um álitaefni sem tengjast kvörtunarefni yðar.

Með vísan til alls framangreinds lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.