Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Rannsóknarreglan. Jafnræðisreglan. Rökstuðningur.

(Mál nr. 10884/2020)

Kvartað var yfir ákvörðun um ráðningu í starf hjá Akraneskaupstað og meðal annars að ekki hefði verið aflað umsagnar um viðkomandi.

Af gögnum málsins varð ráðið að viðkomandi var ásamt sex öðrum boðið í starfsviðtal þar sem öll svöruðu sömu spurningunum. Lenti hlutaðeigandi í sjötta sæti samkvæmt stigaútreikningi og leitað var umsagna um tvo efstu. Með hliðsjón af atvikum og að stjórnvaldi er ekki ávallt skylt að afla umsagna um alla umsækjendur taldi umboðsmaður hvorki tilefni til að gera athugsemdir við það né að taka til sérstakrar umfjöllunar að rökstuðningur hefði borist utan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í lögum. Ekki hefðu orðið verulegar tafir á afhendingu hans. Hvað skaðabætur snerti væri almennt ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður tæki afstöðu til bótaskyldu eða fjárhæðar bóta heldur dómstólar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. apríl 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 27. desember 2020, yfir ákvörðun um ráðningu í starf [...] Akraneskaupstaðar en þér voruð meðal umsækjenda um starfið.

Í kvörtuninni gerið þér einkum og sér í lagi athugasemd við að ekki hafi verið leitað til þeirra umsagnaraðila sem þér tilgreinduð í umsókn yðar. Því teljið þér að ekki hafi verið gætt jafnræðis við töku ákvörðunarinnar og að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin við meðferð málsins, einkum í ljósi þess að þér og sú sem ráðin var eruð með svipaðan bakgrunn. Farið þér fram á skaðabætur frá sveitar­félaginu vegna málsins.

Í tilefni af kvörtuninni var ritað bréf til Akraneskaupstaðar, dags. 28. desember 2020, og óskað eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að sveitarfélagið sendi öll gögn málsins. Umbeðin gögn bárust 10. mars sl.

Af gögnum málsins má ráða að yður ásamt sex öðrum umsækjendum hafi verið boðið í starfsviðtal að loknu mati á hlutlægum umsóknargögnum. Í starfsviðtali var umsækjendum gert að svara sömu stöðluðu spurningunum þar sem m.a. var spurt um reynslu viðkomandi, veikleika og styrkleika í starfi og af hverju ráða ætti viðkomandi í starfið. Að loknu starfs­við­tali var stigafjöldi umsækjenda úr hlutlægum gögnum og frammistöðu í starfsviðtali lagður saman. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins var það mat veitingavaldshafans að hafa samband við umsagnaraðila tveggja stigahæstu umsækjendanna að viðtölum loknum en þér lentuð í sjötta sæti að loknu heildarmati.

Í ljósi þess að kvörtun yðar afmarkast einna helst við að ekki hafi verið haft samband við umsagnaraðila yðar er rétt að taka fram að ekki hefur verið talið leiða af rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórn­sýsluréttar að stjórnvöldum sé ávallt skylt að afla frekari upplýsinga um starfshæfni umsækjenda um opinbert starf, s.s. með því að hafa samband við umsagnaraðila allra umsækjenda, heldur er um heimild að ræða og ber stjórnvaldi að vega og meta hvort slíkt sé nauðsynlegt. Af gögnum málsins má ráða að tilgangur með öflun umsagna í umræddu ráðningamáli hafi verið til þess að auðvelda val á milli tveggja umsækjenda eftir að komist hafði verið að þeirri niðurstöðu að þeir stæðu öðrum umsækjendum framar að loknu heildarmati. Með hliðsjón af því, hvernig atvikum var háttað að öðru leyti sem og því að einungis er um að ræða heimild en ekki skyldu stjórnvalds tel ég ekki tilefni til að gera athugasemd við að Akraneskaupstaður hafi ekki leitað til um­sagnar­aðila yðar. 

Í tilefni af athugasemdum yðar um að rökstuðningur hafi borist eftir 14 daga tímafrest, sbr. skilyrði 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er rétt að taka fram að af gögnum málsins má ráða að þér hafið óskað eftir rökstuðningi 30. nóvember 2020 en hann borist 23. desember s.á. Af framangreindu er ljóst að yður barst rökstuðningur og ekki urðu verulega tafir á afhendingu hans. Þrátt fyrir að ljóst sé að hann barst utan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga tel ég því ekki tilefni til að taka það atriði í kvörtun yðar til sérstakrar umfjöllunar.

Að lokum tek ég fram í tilefni af því að þér gerið kröfu um skaða­bætur í kvörtun yðar að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er almennt ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður taki afstöðu til bótaskyldu eða fjárhæðar bóta. Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur því almennt verið farin sú leið að ljúka málum þar sem uppi eru álitamál um skaðabótaskyldu með vísan til þess að þar séu um að ræða ágreining sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr enda er yfirleitt þörf á sönnunarfærslu fyrir dómstólum ef ágreiningur er um hana.

Með vísan til alls framangreinds tel ég ekki tilefni til frekari athugunar á máli yðar og lýk því athugun minni á því, sbr. a- og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson