Almannatryggingar. Ellilífeyrir. Endurgreiðslukrafa.

(Mál nr. 11023/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Tryggingastofnunar að breyta tekjuáætlun.

Þar sem erindið hafði ekki verið borið undir úrskurðarnefnd velferðarmála og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar frá 6. apríl sl. sem beinist að Tryggingastofnun. Af kvörtuninni, gögnum sem henni fylgdu og gögnum sem hafa borist frá móttöku hennar, verður ráðið að hún beinist að ákvörðun Tryggingastofnunar um að breyta tekjuáætlun móður yðar, B, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 15. mars. sl. Í kvörtuninni kemur meðal annars fram að í kjölfar eingreiðslu sem móðir yðar hafi fengið frá Brú lífeyrissjóði hafi Tryggingastofnun endurmetið tekju­áætlun hennar sem hafi leitt til þess að útborgaðar lífeyristekjur hennar frá Tryggingastofnun hafi lækkað úr 84 þúsund krónur í 52 þúsund krónur á mánuði. Þá hafi henni verið tilkynnt að hún skuldi Tryggingastofnun upphæð sem nemi 86.331 krónum.

Samkvæmt 6. mgr. 16 .gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, skal Tryggingastofnun hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skatt­yfir­valda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 40. gr. laganna. Þá skal Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna eftir að upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, sbr. 7. mgr. 16. gr. Í 1. mgr. 13. gr. segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, of­greiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leið­rétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Í samræmi við framangreint bendi ég yður á að þér getið beint erindi vegna móður yðar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Ef móðir yðar telur sig enn beitta rangsleitni að fengnum úrskurði nefndarinnar getur hún eða þér fyrir hennar hönd leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Af því sögðu og í ljósi þess sem fram kemur í bréfi Trygginga­stofnunar frá 15. mars sl. tek ég fram að ef móðir yðar telur nýja tekjuáætlun ekki endurspegla endanlegar tekjur á árinu getur hún eða þér fyrir hennar hönd breytt áætluninni, annaðhvort rafrænt á „mínum síðum“ á vefsíðunni www.tr.is eða með því að hafa samband við þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson