Póst og fjarskiptamál. Fjarskipti. Aðild.

(Mál nr. 11025/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála þar sem kæru vegna úthlutunar 5G tíðniheimilda af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar var vísað frá þar sem kærendur voru ekki taldir eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins.

Af atvikum máls og virtum rökstuðningi nefndarinnar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka niðurstöðu hennar til frekari athugunar enda væri niðurstaðan í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að stjórnsýslumálum og lögskýringarsjónarmið sem almennt væri byggt á í íslenskum rétti. Þá væri ekki heldur tilefni til að gera athugasemdir við að ekki hefði verið óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins vegna aðildar félags að málinu. 

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. apríl 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til kvörtunar sem þér komuð á framfæri við umboðsmann Alþingis f.h. A, B og [félagsins] C, vegna úrskurðar úrskurðar­nefndar fjarskipta- og póstmála frá 14. júlí 2020 í máli nefndarinnar nr. 2/2020 þar sem kæru umbjóðenda yðar, auk tveggja annarra einstaklinga, vegna úthlutunar 5G tíðniheimilda af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) til fjarskiptafyrirtækjanna Símans hf., Nova hf. og Sýnar hf. var vísað frá þar sem ekki var talið að kærendur ættu lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Af kvörtuninni verður ráðið að gerðar séu athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðar­nefndarinnar.

Á meðal þeirra gagna sem fylgdu kvörtuninni er afrit af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndarinnar vegna ofangreindra ákvarðanna PFS um úthlutun 5G tíðniheimilda, auk greinargerðar PFS vegna málsins og viðbótarathugasemda kærenda sem komið var á framfæri við nefndina. Eftir því sem fram kemur í stjórnsýslukærunni verður ráðið að aðild C að málinu byggist á því að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, eigi félagið lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og að túlka verði kæruheimild þá sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, þ.e. með tilliti til aðildar, með hlið­sjón af því ákvæði. Það sé í samræmi við Árósasamninginn og fái stoð í fordæmisgefandi úrlausnum á sviði norræns umhverfisréttar og fræðilegri umfjöllun á því sviði. Þá verður ráðið að aðild þeirra einstaklinga sem stóðu að kærunni ásamt ofangreindum félagasamtökum sé byggð á því að þeir eigi vegna heilsufarslegra ástæðna sérstakra og beinna hagsmuna að gæta umfram aðra.

Í úrskurði nefndarinnar kemur eftirfarandi fram:

„Samkvæmt 13. gr. [laga nr. 69/2003], sæta ákvarðanir PFS kæru til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt almennum reglum stjórn­sýslu­réttar eiga þeir einir kæruheimild sem hafa sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Þessi regla er áréttuð í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, nr. 36/2009, þar sem segir að úrskurðarnefndin taki til úrskurðar, að kröfu þess sem á sérstakra verulegra og lög­varinna hagsmuna að gæta, kæranlega ákvörðun [PFS], hvort heldur sem kæra lýtur að málsmeðferð eða efni hinnar kærðu ákvörðunar. [...]

Tekur úrskurðarnefndin fram að skilyrði fyrir aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála séu efnislega þau sömu hvort sem um ræðir félag eða einstaklinga. Umtalsverður fjöldi félagsmanna og einstaklingar þurfa að eiga sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. [...] Því er ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um mismunandi aðild félagsins eða einstaklinga. [...]

Tilvísun kærenda til meginreglna umhverfisréttar og norrænna fordæma getur ekki átt við um úthlutun tíðniheimilda á grundvelli fjarskiptalaga að mati úrskurðarnefndarinnar. Sérstaklega er á það bent að í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála [...] er um að ræða staðfestingu á þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar, að sá sem krefst endur­skoðunar stjórnvaldsákvörðunar þurfi að sýna fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þá nær sú undantekning sem gerð er frá þessari meginreglu í viðkomandi lagaákvæði einvörðungu til þeirra tilvika sem þar eru tilgreind. Felur ákvæðið þannig í sér undantekningarreglu sem löggjöfin hefur ákveðið sérstaklega. Verður slíkri undantekningarreglu ekki beitt með lögjöfnun í þessu máli.

Með vísan til alls framangreinds telur úrskurðarnefndin að kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og því beri að vísa kærunni frá.“

Ákvarðanir um úthlutun á tíðniheimildum eru teknar á grundvelli ákvæða IV. kafla laga nr. 81/2003, um fjarskipti. Líkt og fram kemur í úr­skurði úrskurðarnefndarinnar, sbr. hin tilvitnuðu orð hér að ofan, sæta ákvarðanir PFS, þ. á m. ákvarðanir stofnunarinnar um úthlutanir á tíðniheimildum, kæru til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 13. gr. laga nr. 69/2003. Ekki verður ráðið af ofangreindum ákvæðum laga nr. 81/2003 og 69/2003 eða lögskýringargögnum að með lögunum hafi ætlunin verið að víkja frá almennum reglum um aðild að málum fyrir úrskurðarnefndinni, s.s. með rýmri aðild fyrir félagasamtök.

Að þessu gættu, og að virtum rökstuðningi úrskurðarnefndarinnar, tel ég ekki tilefni til þess að taka niðurstöðu nefndarinnar til frekari athugunar, enda er niðurstaðan í samræmi við almennar reglur stjórn­sýslu­réttar um aðild að stjórnsýslumálum og lögskýringarsjónarmið sem almennt er byggt á í íslenskum rétti. Í því sambandi fæ ég ekki séð að einstaklingarnir sem stóðu að kærunni eða félagið C hafi á grundvelli þeirra réttarreglna sem gilda um tíðniheimildir, eða eftir atvikum, annarra reglna, átt slíka hagsmuni af úthlutun tíðniheimildar að þeir eigi rétt til kæra slíka ákvörðun til úrskurðarnefndar fjar­skipta- og póstmála. Þá tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þau atriði sem fram koma í kvörtuninni og lúta að því að ekki var óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins vegna aðildar C að málinu.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson