Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11032/2021)

Kvartað var yfir að ekki hefði borist svar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu við beiðni um afhendingu gagna.

Ekki varð ráðið að leitað hefði verið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og kæruleið þannig tæmd. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina að svo stöddu.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. apríl 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 12. apríl sl., yfir því að yður hafi ekki borist svar frá samgöngu- og sveitar­stjórnarráðuneytinu við beiðni yðar frá 27. mars sl. um afhendingu tiltekinna gagna.

Af kvörtun yðar má ráða að þér senduð ráðuneytinu beiðni um afhendingu tiltekinna gagna hinn 24. mars sl. Ráðuneytið hafi svarað erindi yðar hinn 26. mars sl. Í kjölfarið hafið þér óskað eftir afhendingu frekari gagna með beiðni, dags. 27. mars sl. Þeirri beiðni hafi ekki verið svarað. Í kvörtun yðar gerið þér athugasemdir við að ráðu­neytið hafi ekki upplýst yður um tafir á afgreiðslu erindis yðar, sbr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég rétt að árétta það sem fram kom í bréfi til yðar, dags. 29. október sl., í máli nr. 10779/2020. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga skal taka ákvörðun um það hvort orðið verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Frestur vegna afgreiðslu beiðni skv. 33. gr. laganna skal þó vera 20 dagar. Í 3. mgr. 17. laganna kemur fram að hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar sé beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið nýtt framangreint úrræði enda ekki tímabært að teknu tilliti til þess að erindið var sent ráðuneytinu 27. mars sl. Í ljósi þess að ekki hefur verið nýtt sú kæruleið sem yður er fær innan stjórnsýslunnar eru ekki skilyrði að lögum til að ég fjalli um mál yðar að svo stöddu. Í því sambandi tek ég fram að ef þér leitið til nefndarinnar getið þér komið athugasemdum yðar við það að ráðuneytið hafi ekki veitt yður upplýsingar í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 140/2012 á framfæri á þeim vettvangi.

Ef þér kjósið að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi innan árs, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson