Heilbrigðismál.

(Mál nr. 10885/2020)

Kvartað var yfir stjórnsýslu landlæknisembættisins í tengslum við afgreiðslu á umsóknum rekstraraðila sem nýttu tiltekina tæknilausn um heimild til að veita fjarheilbrigðisþjónustu.

Eftir að kvörtunin barst komst landæknisembættið að þeirri niðurstöðu að unnt væri að veita þeim sem nýta tæknilausnina umbeðnar heimildir. Eftir stóðu athugasemdir við lagastoð fyrirmæla um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu og stjórnsýslu landlæknisembættisins. Umboðsmaður taldi ekki rétt að fjalla um þau atriði fyrr en að fenginni afstöðu heilbrigðisráðuneytisins. Hvað snerti athugasemdir vegna ætlaðra brota á útboðsskyldu kaupa á þjónustu kom fram að kæra hefði þegar verið lögð fram hjá kærunefnd útboðsmála. Það atriði kom því ekki til umfjöllunar hjá umboðsmanni. Sama átti við um viðbrögð við upplýsingabeiðni sem var komin til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar A ehf. frá 2. desember sl. sem beinist að landlæknisembættinu og lýtur að stjórnsýslu þess í tengslum við afgreiðslu á umsóknum þeirra rekstraraðila nýta tæknilausn félagsins um heimild til veitingar fjarheilbrigðisþjónustu og tengdum atriðum, sem og aðkomu embættisins að þróun á öðrum hugbúnaðarlausnum í því skyni. Einnig er vísað til samskipta fyrirsvarsmanns A ehf. og yðar og B lögmanns við skrif­stofu umboðsmanns vegna málsins.

Ég tek fram að frá 1. nóvember sl. hef ég verið í leyfi frá daglegum störfum umboðsmanns Alþingis og hefur Kjartan Bjarni Björgvins­son sem settur umboðsmaður samhliða mér sem kjörnum umboðsmaður almennt farið með afgreiðslu á kvörtunum nema viðmið um hæfi hafi staðið því í vegi. Í kvörtun A ehf. er m.a.fjallað um verkefni sem félagið X hf. kemur að á vegum landlæknis. Eigin­kona Kjartans Bjarna hóf nýverið störf hjá því félagi og því var talið rétt að ég færi með athugun á kvörtuninni.

  

II

1

Af kvörtuninni og gögnum sem hafa borist frá A ehf. verður ráðið að hinn 9. desember 2019 hafi landlæknisembættið tilkynnt félaginu um að öryggisúttekt Y ehf. á tæknilausn þess hafi verið ófull­nægjandi þar sem hún hafi ekki þótt fullnægja kröfum fyrirmæla land­læknis um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu, nr. 151/2019, sem birt voru í B-deild Stjórnartíðinda 12. febrúar það ár. Fyrirmælin eru sett með stoð í 5. gr. laga nr. 41/2007, um land­lækni og lýðheilsu, og staðfest af heilbrigðisráðherra. Í kjölfar þess áttu sér stað nokkur samskipti milli A ehf., Y ehf. og land­læknis­embættisins og var landlækni meðal annars send uppfærð útgáfa af öryggis­úttektinni hinn 21. júlí 2020.

Af gögnum málsins verður ráðið að á grundvelli úttektar Y ehf. hafi landlæknisembættið litið svo á að tæknilausn A ehf. stæðist ekki þær kröfur sem leiða af fyrirmælum nr. 151/2019. Í bréfi lög­manns f.h. landlæknisembættisins til yðar, dags. 12. október 2020, er vísað til þess að [...]. Í bréfinu kemur síðan fram að af þessum sökum geti landlæknir ekki stað­fest eða veitt rekstraraðilum fjarheil­brigðis­þjónustu heimild til að nota tæknilausn A ehf. án fyrirvara. Þá er A ehf. veittur frestur til 13. janúar 2021 til að tryggja að tæknilausnin upp­fylli kröfur fyrirmæla nr. 151/2019. Nánar tiltekið er lagt fyrir félagið að [...]. Að öðrum kosti verði tímabundnar heimildir heilbrigðisstofnana og heilbrigðis­starfs­manna til að nota tækni­lausnina felldar niður frá og með þeim degi. Auk þessa gerir lögmaðurinn f.h. landlæknis kröfu um að innan tíu daga verði lögð fram skrifleg áætlun um hvernig A ehf. hyggist vinna að því að tæknilausnin uppfylli allar kröfur í fyrirmælum nr. 151/2019 og að upplýst verði með hvaða hætti félagið hafi upplýst notendur um ágalla sem landlæknir taldi vera á tæknilausninni auk þess sem óskað er upp­­lýsinga um hvort Persónuvernd hafi verið upplýst um stöðuna og þá með hvaða hætti.

Fyrir liggur að þér brugðust við framangreindu erindi lögmannsins f.h. landlæknis með bréfi, dags. 13. janúar sl., þar sem meðal annars voru gerðar athugasemdir við lagastoð fyrirmæla nr. 151/2019. Í bréfinu er jafnframt að finna stutta lýsingu á [...] og farið fram á að þeim sérfræðingum sem sækja um og bíða eftir afgreiðslu á umsóknum um heimild til veitingar fjarheilbrigðisþjónustu tímabundna heimild til að nýta úrlausn A ehf. Þá eru gerðar athugasemdir við að umsóknir þeirra sem sem hyggjast nota hugbúnaðarlausn A ehf., sem munu vera um 40 talsins, hafi beðið afgreiðslu frá því í mars 2020 og bent á að það hafi haft þau áhrif að einhverjir hafi horfið frá því að nota lausnina.

Með bréfi dags. 17. febrúar sl. senduð þér landlæknisembættinu endan­lega úttektarskýrslu Y ehf. og óskuðuð þess að útistandandi umsóknir rekstraraðila fengju skjóta afgreiðslu. Hinn 18. mars sl. tilkynnti embættið A ehf. að þeim rekstraraðilum, sem höfðu fengið tímabundna og skilyrta staðfestingu á veitingu fjarheilbrigðis­þjónustu með hugbúnaðarlausn félagsins, hefði verið tilkynnt 1. mars sl. að nú væri unnt að veita þeim ótímabundna staðfestingu. Einnig kom fram að unnið væri að því að afgreiða umsóknir þeirra sem ekki höfðu fengið tíma­bundna og skilyrta staðfestingu vegna heil­brigðis­þjónustu. Samkvæmt upplýsingum sem bárust frá fyrirsvarsmanni A ehf. 7. og 12. apríl sl. höfðu þó ekki allar umsóknir hlotið afgreiðslu.

  

2

Í tilefni af þessum atriðum í kvörtun A ehf., það er sem lúta því ferli sem hófst eftir að ráðherra staðfesti fyrirmæli nr. 151/2019 og samskiptum landlæknisembættisins við bæði A ehf. og þá rekstraraðila sem nýta og hugðust nýta hugbúnaðarlausn félagsins, tek ég fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til með­ferðar af hálfu umboðs­manns.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Umboðsmaður grípur þannig almennt ekki inn í yfirstandandi mál á grundvelli kvörtunar. Ákvæði 3. mgr. 6. gr. er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leið­rétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við það sjónar­mið hefur verið litið svo á að mál geti verið þannig vaxið að rétt sé að stjórnvald sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði hafi fengið tækifæri til að fjalla um mál og þar með að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að það beiti heimildum sínum áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar. Á þessum grund­velli hefur umboðsmaður einnig almennt fylgt þeirri starfsvenju að varði kvörtun ákvæði stjórn­valds­fyrirmæla sem ráðherra hefur sett eða staðfest sé rétt að leitað sé til viðkomandi ráðherra eða ráðuneytis hans með þær athugasemdir sem sá er kvartar hefur fram að færa og afstaða ráðherra til þeirra liggi fyrir áður en leitað er til umboðs­manns.

Nú liggur fyrir sú niðurstaða landlæknisembættisins að unnt sé að veita rekstraraðilum sem nýta tæknilausn A ehf. heimild til nýtingar fjarheilbrigðisþjónustu. Eftir standa athugasemdir félagsins við lagastoð fyrirmæla nr. 151/2019 og stjórnsýslu land­læknis­­em­bættisins, þ. á m. að því er varðar samskipti við lögmann embættisins og upplýsingagjöf þess til viðskiptavina félagsins. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að fyrirsvarsmaður félagsins hafi að einhverju leyti komið á framfæri athugasemdum um þessi atriði við heilbrigðisráðuneytið. Hins vegar verður ekki ráðið af þeim gögnum sem ég hef undir höndum í hvaða farveg málið var lagt í ráðuneytinu.

Með vísan til þess sem er rakið hér að framan tel ég ekki rétt að fjalla um þessi atriði í kvörtun A ehf. fyrr en félagið hefur freistað þess að bera athugasemdir sínar um lagastoð fyrirmæla nr. 151/2019 og stjórnsýslu landlæknisembættisins undir heilbrigðis­ráð­herra og fylgja frekar eftir þeim athugasemdum sem félagið hefur þegar komið á framfæri við ráðuneyti hans. Ef A ehf. telur sig enn beitt rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytisins til þessara atriða getur félagið að sjálfsögðu leitað á ný til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi innan árs frá því að niðurstaða ráðu­neytisins liggur fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. 

  

3

Þrátt fyrir að framangreint tek ég fram að þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áðurnefnda reglu 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í samræmi við það hefur verið brugðist við þeim kvörtunum sem fyrirsvarsmaður A ehf. lagði fram fyrir hönd B ehf. yfir töfum á afgreiðslu umsóknar þess félags um heimild til veitingar fjarheilbrigðisþjónustu (mál nr. 10844/2020 og 11034/2021) þótt enn sem komið er virðist það ekki hafa leitt til þess að umsókn félagsins hafi hlotið afgreiðslu. Með sama hætti yrði lagt mat á kvartanir frá öðrum rekstraraðilum sem bíða afgreiðslu sinna umsókna um heimild til veitingar fjarheilbrigðisþjónustu, sem og kvartanir sem kynnu að berast frá A ehf. yfir töfum á svörum heil­brigðisráðuneytisins við erindum félagsins.

  

III

Fyrir liggur að með bréfi, dags. 11. september 2020, gerðuð þér athugasemdir fyrir hönd A ehf. við aðkomu landlæknis­em­bættisins að þróun hugbúnaðarlausna, meðal annars netspjalls hjá Heilsu­gæslu höfuðborgarsvæðisins og myndbandskerfis sem X hf. er að þróa til viðbótar við það, og þróunarverkefninu „Rafræn samskipti milli sjúklinga og fagaðila geðþjónustu“. Í bréfinu eru gerðar athuga­semdir með vísan til laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðs­setningu, reglna skaðabótaréttar, laga nr. 120/2016, um opinber innkaup, og samkeppnislaga nr. 44/2005. Auk þess er óskað eftir að nánar tilgreindar upplýsingar verði afhentar félaginu og að þeir starfsmenn landlæknisembættisins sem fengið hafa upplýsingar um málefni A ehf. séu ekki í samskiptum við starfsmenn X hf. sem komi að umræddum verkefnum.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem eru rakin hér að framan í kafla II.2 tek ég fram að A ehf. getur freistað þess að koma sjónar­miðum sínum um aðkomu landlæknisembættisins að framan­greindum verk­efnum á framfæri við heilbrigðisráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans með embættinu.

Ég hef jafnframt talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en ég tek mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar. Í því sambandi bendi ég á að félagið á þess kost að senda Sam­­keppnis­eftir­litinu ábendingu eða formlegt erindi ef það telur brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005 og að leita til Neytendastofu með erindi á grundvelli laga nr. 57/2005. Úrlausnir þessara aðila er síðan hægt að bera undir hlutaðeigandi áfrýjunar­nefndir í samræmi við ákvæði þessara laga. Samkvæmt því sem kom fram í símtali yðar við starfsmann á skrifstofu minni 8. apríl sl. mun A ehf. þegar hafa hafa lagt fram kæru hjá kærunefnd útboðsmála vegna ætlaðra brota á útboðsskyldu kaupa á þjónustu hjá X hf. samkvæmt lögum nr. 120/2016.

Í janúar sl. upplýsti fyrirsvarsmaður A ehf. um að hinn 4. þess mánaðar hefði félagið lagt fram kæru hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem upplýsingabeiðni þeirri sem þér lögðuð fram fyrir hönd félagsins hinn 11. september 2020 var þá enn ósvarað þrátt fyrir að gengið hefði verið á eftir svörum hjá landlæknisembættinu. Í símtali við yður 8. apríl sl. kom fram að úrskurður nefndarinnar lægi ekki fyrir. Á meðan það mál hefur ekki verið leitt til endanlegra lykta getur það ekki komið til umfjöllunar hjá mér.

Ef A ehf. telur sig beitt rangsleitni að fenginni endanlegri niðurstöðu framangreindra stjórnvalda getur félagið að sjálfsögðu leitað á ný til umboðsmanns með sérstaka kvörtun þar að lútandi innan árs frá því að niðurstaða liggur fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

   

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.