Kvartað var yfir að meðferð Strætó BS á persónuupplýsingum hefði ekki verið í samræmi við lög.
Í kvörtuninni kom fram að kvartað hefði verið til Persónuverndar vegna þessa og málið væri þar til meðferðar. Ekki var því tilefni fyrir umboðsmann til að taka erindið til meðferðar.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. apríl 2021, sem hljóðar svo:
Ég vísa til erindis yðar, dags. 9. apríl sl., þar sem þér kvartið yfir að meðferð Strætó BS á persónuupplýsingum um yður hafi ekki verið í samræmi við lög. Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið kvartað til Persónuverndar vegna þessa og að mál yðar sé þar til meðferðar.
Samkvæmt 39. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, er Persónuvernd eftirlitsstjórnvald á sviði persónuverndar. Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018 kemur fram að einstaklingur geti kvartað til Persónuverndar telji hann að að vinnsla persónuupplýsinga um hann hér á landi brjóti í bága við nánar tilgreindar lagareglur um vinnsluna.
Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á því byggt að mál skuli ekki tekin til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum ákvörðun æðra stjórnvalds eftir að málinu hefur verið skotið til þess í samræmi við almennar reglur, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna.
Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar. Í því máli sem kvörtun yðar varðar nú er sá eftirlitsaðili Persónuvernd.
Með vísan til þess sem að framan er rakið tel ég ekki tilefni til að taka þessa nýju kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Hið sama á við um meðferð þeirra viðbótargagna sem mér bárust frá yður 15. apríl sl., varðandi samskipti Vinnumálastofnunar og Strætó BS, og þér tilgreinið sem „nýtt mál“ í tölvupósti þann dag. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek hins vegar fram að ef þér teljið yður enn órétti beitta, eftir að niðurstaða Persónuverndar liggur fyrir, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik.
Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.
Kjartan Bjarni Björgvinsson