Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Álitsumleitan. Málsmeðferð stjórnvalda.

(Mál nr. 11030/2020)

Kvartað var yfir töfum á að Tryggingastofnun brygðist við álitsumleitan úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ekki varð annað ráðið en nefndin hefði sett Tryggingastofnun tiltekinn frest til að láta umsögn sína í té og ítrekað fylgt því eftir. Málið væri því í farvegi og virkri vinnslu hjá nefndinni og því ekki tilefni fyrir umboðsmann til íhlutunar að svo stöddu.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar fyrir hönd A, dags. 12. apríl sl., yfir töfum á að Tryggingastofnun bregðist við álits­um­leitan úrskurðarnefndar velferðarmála frá 1. mars sl. í máli um­bjóðanda yðar sem er til meðferðar hjá nefndinni.

Kvörtuninni fylgdi afrit af tölvupóstsamskiptum yðar við starfs­mann úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt framagreindum gögnum óskuðuð þér í tölvupósti 26. og 31. mars sem og 7. apríl sl. upplýsinga um stöðu málsins hjá nefndinni. Tölvupóstum yðar var svarað samdægurs af starfsmanni úrskurðarnefndarinnar þar sem vísað er til þess að ekki hafi borist svör frá Tryggingastofnun. Starfsmaður nefndarinnar hafi ítrekað álitsumleitanina en Tryggingastofnun hafi vísað til þess að „mikið [væri] um veikindi og fátt fólk að vinna en þeir [vissu] af þessu“. Þá hafi starfsmaðurinn brugðist við fyrirspurn yðar um málið 7. apríl sl. á þá leið að enn væri beðið svara frá Tryggingastofnun en þér yrðuð upplýst um framgang málsins.

Ein af þeim óskráðu meginreglum sem ber að fylgja í stjórnsýslunni er að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Til að stuðla að því að mál taki sem skemmstan tíma í afgreiðslu er kveðið á um í 2. mgr 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að leita skuli umsagnar við fyrsta hentugleika og ef leita þurfi eftir fleiri en einni umsögn skuli það gert samtímis þegar því verður við komið. Samkvæmt ákvæðinu skal stjórnvald tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að álitsgjafi láti í té umsögn sína. Líði þessi frestur án þess að umsögn álitsgjafa berist verður stjórnvaldið að ganga eftir henni með ítrekun og í framhaldi af því að grípa til eðlilegra ráðstafana til þess að knýja fram hina lögboðnu umsögn. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að álits­umleitan er almennt veigamikill þáttur í undirbúningi ákvörðunar og því hefur yfirleitt verið talið að vanræksla á því að leita lög­bundinnar umsagnar geti talist verulegur annmarki og eftir atvikum leitt til ógildingar ákvörðunar.

Af bréfi úrskurðarnefndarinnar frá 1. mars sl. til Trygginga­stofnunar og framangreindum tölvupóstsamskiptum yðar við starfsmann nefndarinnar verður ekki annað ráðið en að nefndin hafi veitt Trygginga­stofnun tiltekinn frest til að láta í té umsögn sína. Þar sem umsögnin barst ekki innan þeirra tímamarka hafi hún verið ítrekuð og málinu fylgt eftir af hálfu nefndarinnar. Því verður ekki annað ráðið en að mál um­bjóðanda yðar sé í farvegi og virkri vinnslu hjá nefndinni þrátt fyrir að umsögn Tryggingastofnunar hafi ekki borist og niðurstaða í málinu liggi ekki fyrir.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til íhlutunar af minni hálfu vegna kvörtunar yðar að svo stöddu. Ég tek þó fram að bregðist Tryggingastofnun ekki við beiðni úrskurðarnefndarinnar til lengri tíma kann nefndinni að vera rétt og skylt eftir reglum stjórn­sýslu­réttar að grípa til ráðstafana til að tryggja að afgreiðsla á kærunni geti farið fram.

Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu. Ég tek hins vegar fram að ef tafir verða á meðferð málsins af hálfu úrskurðarnefndarinnar getur Arnar Geir eða þér fyrir hans hönd leitað til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi. Ef Arnar Geir telur sig beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar vel­ferðar­mála getur hann, eða þér fyrir hans hönd, jafnframt leitað til umboðs­manns með kvörtun þar að lútandi.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson