Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 11033/2021)

Kvartað var yfir að ábyrgð á námsláni fyrrverandi maka væri ekki felld niður hjá Menntasjóði námsmanna.  

Þar sem kvörtunin laut fyrst og fremst að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki hana til meðferðar. Ef viðkomandi teldi þörf á úrbótum eða breytingum á gildandi lagareglum var honum bent á að beina erindum þar að lútandi til þeirra sem fjalla um og gera tillögur til lagasetningar um þessi mál.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. apríl 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til erindis yðar, dags. 12. apríl sl., þar sem þér beinið kvörtun að Menntasjóði námsmanna vegna þess að ábyrgð yðar á námsláni fyrr­verandi sambýliskonu yðar verði ekki felld niður þar sem hún sé ekki í skilum við sjóðinn. Af kvörtuninni verður ráðið að þér hafið gengist í ábyrgð að láninu fyrir um 20 árum og að lánið sé í vanskilum. Þá kemur fram að fyrir um áratug hafið þér leitað til málskotsnefndar, sbr. 5. gr. a. þágildandi laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og þá fengið frestun á afborgunum en í kvörtuninni er ekki upplýst að öðru leyti um um hvort og þá hvaða samskipti þér hafið átt við Menntasjóð náms­manna, stjórn sjóðsins eða málskotsnefnd sem ætlað er að skera úr um hvort ákvarðanir sjóðstjórnar séu í samræmi við ákvæði laga og stjórn­valdsfyrirmæla.

Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett.

Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis þó veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Lögin gera hins vegar ekki ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði, heldur eru slík mál tekin til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 ef umboðs­maður telur tilefni til og möguleiki er á slíku með tilliti til þess mannafla sem umboðsmaður hefur til að sinna slíkum athugunum.

Í áðurnefndum lögum um Menntasjóð námsmanna, sem samþykkt voru á Alþingi 9. júní sl. og komu til framkvæmda 1. júlí sl., segir í II. ákvæði til bráðabirgða að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga skuli falla niður við gildistöku laganna, enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Sama gildi um ábyrgðir á náms­lánum sem séu í óskiptum dánarbúum og ábyrgðaryfirlýsingar fjármála­fyrir­tækja.

Kvörtun yðar lýtur þannig fyrst og fremst að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til. Því eru ekki skilyrði að lögum til að ég taki kvörtun yðar til meðferðar. Með hliðsjón af því og efni kvörtunar yðar tel ég heldur ekki tilefni til að taka málefnið til athugunar á grundvelli 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997.

Ég tel þó rétt að benda yður á að í 4. tölul. 4. mgr. 30. gr. laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, er kveðið á um að stjórn sjóðsins skeri úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. sömu laga sker málskotsnefnd Menntasjóðs úr um hvort ákvarðanir sjóðstjórnar varðandi málefni einstakra lánþega, umsækjenda og ábyrgðarmanna séu í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Nefndin getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins.

Ef þér teljið að fyrir liggi ákvörðun Menntasjóðs námsmanna í máli yðar sem sé ekki í samræmi við lög eða að fyrir hendi séu atvik sem eigi að leiða til þess að ábyrgð yðar á námsláninu beri að fella niður getið þér því freistað þess að bera mál yðar undir stjórn sjóðsins og, eftir atvikum, undir málskotsnefnd hans.

Ég tek jafnframt fram að ef þér teljið að þörf sé á úrbótum eða breytingum á gildandi lagareglum er yður fær sú leið að beina erindum þar um til þeirra sem fjalla um og gera tillögur til lagasetningar um þessi mál. Það kemur í hlut mennta- og menningarmálaráðherra að leiða pólitíska stefnumótun á þessu málefnasviði og honum eru fengnar heimildir til að beita frumkvæðisrétti sínum með því að leggja til við Alþingi að gerðar verði breytingar á gildandi lögum. Þessu til viðbótar er hægt að beina erindum af þessu tagi til alþingismanna og þingnefnda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson