Skipulags og byggingarmál. Skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 10744/2020)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem sveitarfélag var ekki talið eiga aðild að kærumáli vegna deiliskipulags og málinu því vísað frá nefndinni.

Almennt fjallar umboðsmaður ekki um kvartanir frá stjórnvöldum yfir ákvörðunum og athöfnum annarra stjórnvalda. Það gerist aðeins í undantekningartilvikum þar sem unnt hefur verið að jafna stöðu þess stjórnvalds sem kvartar við stöðu einkaaðila eða lögaðila í samskiptum við annað stjórnvald. Af gögnum málsins varð ráðið að úrskurðarnefndin hefði ekki fjallað um málið á þeim grundvelli að sveitarfélagið hefði eignarréttarlega hagsmuni sem eigandi landsvæðis í nágrenni við sveitarfélagamörk. Ef sveitarfélagið teldi skilyrði til að óska eftir endurskoðun málsins hjá nefndinni á þeim grunni og teldi sig enn órétti beitt að fenginni afstöðu nefndarinnar til slíkrar beiðni gæti það leitað aftur til umboðsmanns.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, fyrir hönd Mosfellsbæjar, dags. 6. október sl., yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 14. ágúst 2020 í máli nr. 56/2020 varðandi þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 2. apríl sama ár að sam­þykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Þar var sveitarfélagið ekki talið eiga aðild að kærumálinu og því vísað frá nefndinni.

Kvörtunin byggist á því að Mosfellsbær eigi lögvarða hagsmuni tengda framangreindri ákvörðun Reykjavíkurborgar og að hún varði veru­lega hagsmuni og réttindi sveitarfélagsins umfram aðra. Í því sambandi er meðal annars vísað til þess að umrætt svæði sé mjög nálægt íbúðabyggð og sveitarfélagamörkum Mosfellsbæjar og að fyrirhuguð landnotkun Reykja­víkur­borgar muni hafa takmarkandi áhrif á athafnir sveitarfélagsins og skipu­lagsáætlanir.

Í bréfi yðar sem barst umboðsmanni 28. desember sl. var jafnframt upplýst að Mosfellsbær væri eigandi að umræddu landsvæði á sveitar­félaga­mörkum.

Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefnd umhverfis- og auð­linda­mála ritað bréf, dags. 26. janúar sl., þar sem óskað var eftir að nefndin veitti umboðsmanni upplýsingar og skýringar um tiltekin atriði áður en umboðsmaður tæki ákvörðun um hvort málið kæmi til frekari athugunar á grundvelli kvörtunar sveitarfélagsins.

Svar nefndarinnar barst 16. febrúar sl. og bárust athugsemdir yðar 19. mars sl. Þar sem þér hafið fengið afrit af framangreindum bréfa­skiptum tel ég óþarft að rekja efni þeirra nánar nema að því leyti sem nauðsynlegt er fyrir umfjöllunina hér á eftir.

  

II

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir eftirlit umboðsmanns samkvæmt 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í athuga­semdum við þetta ákvæði í frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/1997 kemur fram að allir einstaklingar geti kvartað til umboðsmanns og sama gildi um félög. Þá segir eftirfarandi í athugasemdunum:

„Stjórnvöld geta aftur á móti ekki kvartað til umboðsmanns yfir ákvörðunum og athöfnun annarra stjórnvalda eða óskað lög­fræði­legs álits umboðsmanns í máli.“ (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329.)

Við beitingu þessa ákvæðis hefur verið höfð hliðsjón af ákvæðum laganna að öðru leyti, þar með talið 1. mgr. 2. gr. þar sem fram kemur að hlutverk umboðsmanns sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt „borgaranna“ gagnvart stjórnvöldum landsins.

Með hliðsjón af ofangreindu fjallar umboðsmaður almennt ekki um kvartanir frá stjórnvöldum yfir ákvörðunum og athöfnum annarra stjórn­valda. Þá leiðir að framangreindu að hér er fyrst og fremst um að ræða úrræði fyrir borgaranna sem telja sig beitta rangindum í skiptum þeirra við stjórnvöld. Það er því aðeins í undantekningartilvikum sem umboðs­maður hefur tekið til meðferðar kvartanir sem bornar eru fram af stjórnvöldum. Í þeim tilvikum hefur verið unnt að jafna stöðu þess stjórnvalds sem færir fram kvörtun öldungis við stöðu einkaaðila eða lögaðila í samskiptum við annað stjórnvald. Hefur þetta til dæmis verið talið eiga við í þeim tilvikum þegar að sveitarfélag eða fyrirtæki alfarið í eigu sveitarfélags kemur fram sem eigandi fasteignar.

Við úrlausn þessarar kvörtunar Mosfellsbæjar til umboðsmanns Alþingis verður því, áður en reynir á það álitaefni hvort sveitarfélagið eigi slíka hagsmuni að gæta að það eigi kæruaðild að umræddu máli hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, að fjalla um hvort hagsmunir Mosfellsbæjar séu slíkir að þeim verði öldungis jafnað við hagsmuni einka­aðila þannig að kvörtun sveitarfélagsins verði tekin til efnis­legrar meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis.

Í skýringum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála kemur meðal annars fram að sveitarfélagið hafi í kæru sinni til nefndarinnar vísað til þess að sú starfsemi sem hin kærða ákvörðun heimilaði hefði í för með sér neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif fyrir íbúa Leir­vogs­tungu­hverfis. Sveitarfélagið hafi hins vegar ekki greint frá því að það væri eigandi landsvæðis við sveitarfélagamörk og hafi heldur ekki byggt lög­varða hagsmuni sína á að því væri unnt að gæta hagsmuna sinna með sambærilegum hætti og einkaréttarlegur aðili vegna umrædds eignarhalds.

Af framangreindu verður þannig ráðið að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki fjallað um málið á þeim grundvelli að Mos­fellsbær hefði eignarréttarlega hagsmuni sem eigandi landsvæðis í ná­grenni við sveitarfélagamörkin. Verður því ekki séð að nefndin hafi í úrskurðinum tekið efnislega afstöðu til þeirra sjónarmiða sveitar­félagsins.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég mig ekki hafa forsendur til að fjalla frekar um kvörtun yðar fyrir hönd Mosfellsbæjar. Ef sveitar­félagið telur að skilyrði séu fyrir hendi til að óska eftir endurskoðun málsins hjá úrskurðarnefndinni með tilliti til sjónarmiða um eignarhald þess á umræddu landsvæði og telur sig enn beitt órétti að fenginni afstöðu nefndarinnar til slíkrar beiðni getur það leitað til umboðsmanns Alþingis að nýju innan árs frá því að sú niðurstaða liggur fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek fram að ég hef með þeirri ábendingu enga afstöðu tekið til hver viðbrögð nefndarinnar við slíkur erindi ættu að vera.

   

III

Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson