Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Bótanefnd.

(Mál nr. 10801/2020)

Kvartað var yfir töfum á svörum frá bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

Eftir ítrekaðar fyrirspurnir greindi nefndin frá því að erindinu hefði verið svarað. Þegar afrit af svarinu barst ekki umboðsmanni var einnig ítrekað gengið eftir því og þá aftur barst svar þess efnis að erindinu hefði verið svarað og fylgdi nú afrit. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar. Umboðsmaður ritaði hins vegar sýslumanninum á Norðurlandi eystra bréf í tilefni af starfsháttunum í málinu auk þess sem formaður nefndarinnar og dómsmálaráðherra fengu afrit af því.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 10. nóvember sl., sem beinist að bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, og lýtur að því að nefndin hafi ekki svarað erindi yðar til nefndarinnar frá 7. júní sl. 

Í tilefni af kvörtun yðar var bótanefnd ritað bréf, dags. 26. nóvember sl., þar sem þess var óskað að nefndin upplýsti um hvort erindið hefði borist og hvað liði þá meðferð þess og afgreiðslu. Fyrirspurnin var ítrekuð með bréfum 12. janúar og 12. febrúar sl.

Með tölvupósti 11. mars sl. tilkynnti starfsmaður nefndarinnar að nefndin hefði sent yður svar í bréfi og að afrit af því hefði verið sent umboðsmanni í pósti. Þegar afrit af bréfinu barst ekki var þess óskað 25. mars sl. að umboðsmanni yrði sent afrit af bréfinu með tölvupósti. Sú beiðni var áréttuð 15. apríl sl.

Hinn 16. apríl sl. barst svar frá starfsmanni nefndarinnar þar sem fram kemur að yður hafi nú verið sent svar við erindinu. Svarinu fylgdi afrit af bréfi til yðar, dags. 8. apríl sl.

Þar sem kvörtun yðar laut að því að erindi yðar frá 7. júní hefði ekki verið svarað og það hefur nú verið gert tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar í máli þessu og læt athugun minni á því lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek hins vegar fram að ég hef ritað sýslumanninum á Norðurlandi eystra bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti í tilefni af starfsháttum starfsmanns hans í máli yðar. Afrit af því bréfi hefur jafnframt verið sent formanni bótanefndar og dómsmálaráðherra, í síðarnefnda tilvikinu án þess að nafn yðar sé tilgreint.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

    

 


  

Bréf setts umboðsmanns, dags. 23. apríl 2021, til sýslumannsins á Norðurlandi eystra hljóðar svo:

   

Hinn 10. nóvember sl. barst umboðsmanni Alþingis kvörtun sem beindist að bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, og laut að því að nefndin hefði ekki svarað erindi til nefndarinnar frá 7. júní sl.

Í tilefni af kvörtuninni var bótanefnd ritað bréf, dags. 26. nóvember sl., þar sem þess var óskað að nefndin upplýsti um hvort erindið hefði borist og hvað liði þá meðferð þess og afgreiðslu. Fyrir­spurnin var til meðferðar hjá starfsmanni yðar á sýsluskrif­stofunni á Siglufirði sem hefur umsjón með sérverkefnum embættis yðar, þ. á m. rekstur skrifstofu bótanefndarinnar.

Eins og kom fram í símtali mínu við yður 7. apríl sl. eru því miður yfirleitt töluverðar tafir á svörum sýsluskrifstofunnar á Siglufirði við fyrirspurnum umboðsmanns. Í umræddu tilviki bárust svör ekki innan veitts svarfrests án þess þó að óskað hafi verið eftir við­bótarfresti. Fyrirspurnin var þess vegna ítrekuð með bréfum 12. janúar og 12. febrúar sl.

Með tölvupósti til skrifstofu umboðsmanns 11. mars sl. tilkynnti starfsmaður nefndarinnar að nefndin hefði sent viðkomandi einstaklingi svar í bréfi og að afrit af því hefði verið sent umboðsmanni í pósti. Þegar afrit af bréfinu barst ekki var þess óskað 25. mars sl. að umboðs­manni yrði sent afrit af bréfinu með tölvupósti. Sú beiðni var áréttuð 15. apríl sl.

Hinn 16. apríl sl. barst svar frá starfsmanni nefndarinnar þar sem fram kemur að viðkomandi hafi nú verið sent svar við erindi sínu. Svarinu fylgdi afrit af bréfi til hans sem er dagsett 8. apríl sl. eða tæpum mánuði eftir að starfsmaður yðar sagðist hafa sent við­komandi svar í bréfi. Á þessu misræmi eru engar skýringar veittar í svarbréfi hans til mín sem barst 16. apríl sl.

Þar sem kvörtunin laut að erindi sem ekki hafði verið svarað og það hefur nú verið gert hef ég lokið athugun minni á kvörtuninni. Ég tel starfshætti starfsmanns yðar hins vegar gefa mér tilefni til að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við yður sem yfirmann hans.

Vegna símtals míns við yður 7. apríl sl. er mér kunnugt um verkefnastöðu sýsluskrifstofunnar á Siglufirði. Að virtu efni þess erindis sem kvörtunin varðar tel ég engu að síður fjarri lagi að af­greiðslu­tími erindisins, um tíu mánuðir, sé innan eðlilegra marka. Þá hefur vakið sérstaka athygli mína það misræmi sem er milli til­kynningar sem starfsmaður skrifstofunnar sendi umboðsmanni 11. mars sl. og svarbréfs hans við fyrirspurn minni frá 8. apríl sl.

Með lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hefur lög­gjafinn veitt hverjum þeim sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu þeirra aðila sem falla undir starfssvið umboðs­manns tækifæri til að koma kvörtun á framfæri við hann, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Umboðsmaður getur meðal annars látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Sæti athafnir stjórnvalda aðfinnslum eða gagnrýni umboðs­manns getur hann jafnframt beint tilmælum til stjórn­valda um úrbætur, sbr. b-liður 2. mgr. 10. gr. laganna. Lög­gjafinn hefur með öðrum orðum komið á fót tilteknu úrræði handa borgurunum sem hluta af eftir­lits­kerfi sínu með framkvæmdarvaldinu.

Til þess að umboðsmaður geti rækt þetta hlutverk sitt hefur lög­gjafinn veitt honum víðtækar heimildir til þess að afla gagna og upp­lýsinga frá stjórnvöldum, sbr. t.d. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um rannsókn máls en sam­kvæmt ákvæðinu getur umboðsmaður krafið stjórnvöld um þær upp­lýsingar og skriflegar skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öllum öðrum gögnum sem mál snerta.

Ein af undirstöðum þess að eftirlitsúrræði á borð við það sem umboðsmaður Alþingis er sé raunhæft og virkt er að stjórnvöld bregðist tímanlega við fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis og svari þeim efnislega og rétt svo umboðsmaður geti rannsakað mál með viðhlítandi hætti og lagt mat á hvort stjórnsýslugerningur hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Ella væri það úrræði sem lög­gjafinn hefur veitt borgurunum með setningu laga nr. 85/1997 harla þýðingar­lítið. Ég geng út frá því að framvegis verði það haft í huga hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra.

Formanni bótanefndar samkvæmt samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, og dómsmálaráðherra er sent afrit af bréfi þessu til upplýsingar.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson