Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

(Mál nr. 3107/2000)

A kvartaði yfir afgreiðslu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Í bréfi sínu til A, dags. 22. desember 2000, benti umboðsmaður á að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum starfi á grundvelli sérstaks samkomulags viðskiptaráðuneytisins, sem ráðuneytis vátrygginga- og neytendamála, Neytendasamtakanna og Sambands íslenskra tryggingafélaga. Væri ekki kveðið á um hana í lögum. Tók umboðsmaður fram að samningurinn væri í engu grundvallaður á því að ríkinu væri skylt lögum samkvæmt að koma að úrlausn ágreinings af því tagi sem samningurinn tæki til. Þá væri kostnaður af starfi nefndarinnar að meginstefnu til greiddur af tryggingafélögunum. Loks bæri að hafa í huga að skipun tveggja af þremur nefndarmönnum væri í höndum Netendasamtakanna annars vegar og Sambands íslenskra tryggingafélaga hins vegar. Að þessu virtu var það niðurstaða umboðsmanns að starfsemi úrskurðarnefndarinnar gæti ekki talist til stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga í skilningi 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Varðandi það hvort úrskurðarnefndin tæki sem einkaaðili ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, benti umboðsmaður á að úrskurðir nefndarinnar væru ekki bindandi fyrir neytendur eins og þegar um stjórnvaldsákvarðanir væri að ræða. Væru þeir aðeins bindandi fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag hefði það ekki tilkynnt neytanda og nefndinni sannanlega innan tveggja vikna frá því að það fékk úrskurð í hendur að það myndi ekki hlíta honum. Taldi umboðsmaður að af þessari aðstöðu leiddi að ekki væri unnt að líta svo á að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum tæki ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 3. gr. laga nr. 85/1997.

Niðurstaða umboðsmanns varð því sú að starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og því er markað í lögum nr. 85/1997 tæki ekki til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.