Styrkveitingar. Endurupptaka.

(Mál nr. 10937/2021)

Kvartað var yfir synjun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á styrkumsókn og ýmsum atriðum þar að lútandi sem og frávísun þar sem m.a. var óskað eftir endurskoðun á synjuninni. 

Fyrir lá að ráðuneytið hafði leiðbeint um skilyrði endurupptöku og gefið viðkomandi færi á að leggja fram beiðni um hana þar sem koma mætti á framfæri sömu sjónarmiðum og lögð höfðu verið fyrir umboðsmann. Hann leit því svo á að málið væri ekki til lykta leitt innan stjórnsýslunnar og því ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu.

    

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. apríl 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 5. febrúar sl., yfir umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að synjun ráðu­neytisins á styrkumsókn yðar f.h. X ehf., dags. 31. janúar 2020, ákvörðun ráðuneytisins um að breyta skilyrðum fyrir úthlutun verk­efna­styrkja á sviði umhverfis- og auðlindamála sem og skorti á upp­lýsingum og leiðbeiningum varðandi framangreinda breytingu og möguleika yðar til þess að leita réttar yðar í kjölfar synjunar ráðuneytisins. Kvörtun yðar lýtur auk þess að því að hinn 1. apríl 2020 hafi ráðuneytið vísað frá erindi yðar, dags. 25. febrúar 2020, þar sem þér óskuðuð meðal annars endurskoðunar á synjuninni.

Í kjölfar kvörtunar yðar var ráðuneytinu ritað bréf, dags. 19. mars sl., en yður var sent afrit þess og tel ég því ekki tilefni til að rekja efni þess nánar hér. Afrit af bréfi ráðuneytisins til yðar barst mér hinn 19. apríl sl. Þar kemur meðal annars fram að ráðuneytið hafi litið svo á að í bréfinu frá 19. mars sl. hafi falist ábendingar um að í erindi yðar frá 25. febrúar 2020 hafi mögulega falist beiðni um endurupptöku á áðurgreindri ákvörðun ráðuneytisins frá 31. janúar 2020. Þá er yður leiðbeint um skilyrði endurupptöku og óskað upplýsinga um hvort þér óskið eftir því að leggja fram beiðni um endurupptöku til ráðu­neytisins. Yður er auk þess gefinn kostur á að koma að öðrum upp­lýsingum við ráðuneytið vegna máls yðar sem og óska eftir frekari upp­lýsingum frá ráðuneytinu vegna málsins.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þannig er samkvæmt lögum nr. 85/1997 gert ráð fyrir að mál hafi endanlega verið til lykta leidd hjá stjórnvöldum áður en umboðsmaður getur tekið kvörtun vegna þeirra til athugunar.

Fyrir liggur að ráðuneytið hefur nú leiðbeint yður um skilyrði endurupptöku og gefið yður færi á að leggja fram beiðni um endurupptöku máls yðar þar sem þér getið meðal annars komið þeim sjónarmiðum á framfæri sem fram koma í kvörtun yðar til mín. Ég lít því svo á að máli yðar hafi ekki endanlega verið ráðið til lykta innan stjórnsýslunnar og tel því ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu.

Fari svo að þér óskið endurupptöku máls yðar hjá ráðuneytinu og þér teljið yður enn, að fenginni úrlausn þess, beittan rangsleitni er yður fært að leita til umboðsmanns á ný innan árs með erindi þar að lútandi, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Í ljósi þess sem að framan er rakið lýk ég hér með athugun minni á málinu að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson