Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Hæfi. Andmælaréttur.

(Mál nr. 10963/2021)

Kvartað var yfir ráðningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í starf læknis sem einn sótti um. Ákvörðun um að falla frá ráðningunni hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum og viðkomandi hafi verið látinn gjalda gamalla mála.

Af fyrirliggjandi gögnum taldi umboðsmaður ekki nægar vísbendingar um óvild af því tagi sem gæti leitt til vanhæfis og því ekki forsendur til að taka þann þátt til nánari athugunar. Með hliðsjón af  rökstuðningi, efni auglýsingar, eðli starfsins og málavöxtum öllum væru ekki heldur forsendur til að fullyrða að ákvörðunin um að hætta við ráðningu hefðu byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. apríl 2021, sem hljóðar svo:

 

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 23. febrúar sl., yfir ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um að ráða yður ekki í starf læknis á X en samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni voruð þér eini umsækjandinn um starfið.

Í kvörtuninni gerið þér einkum athugasemd við að þér hafið ekki fengið tækifæri til að tjá yður um fullyrðingar meðmælenda á full­nægjandi hátt þegar starfsviðtal fór fram. Þá teljið þér að ákvörðunin um að falla frá ráðningunni hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum vegna forsögu yðar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en hugsanlegt sé að umrædd forsaga hafa litað ákvörðunina og að þér hafið verið látinn gjalda gamalla mála sem upp komu á X.

  

II

Í tilefni af athugasemdum yðar um að þér teljið að forsaga yðar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi hugsanlega litað ákvörðun stofnunarinnar og að þér hafið verið látinn gjalda gamalla mála sem upp komu á X árið [...] og tengdust þáverandi framkvæmdastjóra lækninga hjá stofnuninni er rétt að taka fram að sú ályktun yðar er ekki studd neinum gögnum, sbr. niðurstaða mín í kafla III.2. hér síðar. Í því sambandi tek ég fram að athuganir umboðsmanns byggjast fyrst og fremst á skriflegum gögnum.

Í kvörtun yðar er tekið fram að ofangreindur fyrrverandi fram­kvæmda­stjóri lækninga og núverandi framkvæmdastjóri lækninga hafi „lengi vel verið nánir“ og að á fundi yðar með núverandi framkvæmdastjóra og for­stjóra stofnunarinnar í ágúst 2019, þar sem ræddur var möguleiki yðar á að fá vinnu á X, hafi ofangreint mál verið dregið upp í byrjun fundar.

Í ljósi framangreinds tek ég fram að um sérstakt hæfi starfsmanna til meðferðar máls er fjallað í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins er matskennd regla þar sem segir að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti en greinir í fyrri töluliðum ákvæðisins eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Það að sá sem fer með ráðningarvald hafi hugsanlega starfað náið með öðrum einstaklingi sem hefur átt í samskiptum við umsækjanda um opinbert starf, sem kunna að hafa verið neikvæð, er að mínu mati ekki eitt og sér nægjanlegt til þess að viðkomandi teljist vanhæfur til meðferðar málsins. Í því sambandi tek ég fram að til við mat á þessu atriði verða að vera fyrir hendi sannanleg hlutlæg atvik eða aðstæður sem almennt verða taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni þess sem fer með ráðningarvaldið með réttu.

Eftir að hafa kynnt mér framagreindar athugasemdir yðar og gögn málsins tel ég ekki nægar vísbendingar um að fyrir hendi sé óvild í yðar garð af því tagi sem leitt getur til vanhæfis að forsendur séu til að taka þennan þátt málsins til nánari athugunar.

  

III

1

Líkt og áður segir voruð þér eini umsækjandinn um starf læknis á heilsugæslu á X sem auglýst var laust til umsóknar 3. september 2020. Í auglýsingu fyrir starfið voru gerðar eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:

„Íslenskt lækningaleyfi

Góð almenn tölvukunnátta og íslenskukunnátta skilyrði

Jákvætt viðmót og framúrskarandi samskiptafærni

Frumkvæði og faglegur metnaður

Drifkraftur, þrautseigja og árangursmiðað viðhorf“ 

Í kjölfar umsóknar yðar voruð þér boðaðir til viðtals 29. september 2020. Viðtalið tóku yfirlæknir og framkvæmdastjóri lækninga ásamt mann­auðs- og rekstrarstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Í viðtalinu var stuðst við viðtalsramma með fyrir fram ákveðnum spurningum þar sem meðal annars var spurt um hvað af fyrri störfum og verkefnum yður hafi þótt áhugaverðast, hvað þér mynduð skilgreina sem „gott starfsumhverfi“ og hvort og þá hvernig þér hefðuð verið hluti af „erfiðum samskiptum á vinnustað“. Að lokum var farið yfir athugasemdir þeirra fimm meðmælenda sem framkvæmdastjóri lækninga ræddi við símleiðis.

Með tölvupósti 2. október 2020 tilkynnti mannauðsstjóri heil­brigðis­stofnunarinnar yður að tekin hefði verið ákvörðun um að falla frá ráðningu í starfið. Í kjölfarið óskuðuð þér eftir rökstuðningi fyrir framangreindri ákvörðun og barst hann 26. október s.á.

Í rökstuðningi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að umsóknargögn, umsagnir meðmælenda og frammistaða umsækjanda í viðtali hefðu verið lögð til grundvallar ákvörðuninni. Tekið er fram að haft hafi verið samband við fimm meðmælendur. Hafi umsagnir meðmælenda átt það sameiginlegt að umsækjandi væri faglega hæfur en fram hafi komið að [...]. Tekið er fram að farið hafi verið yfir framangreindar umsagnir í viðtalinu og yður gefinn kostur á að gera grein fyrir afstöðu yðar. Síðan segir eftirfarandi:

Frammistaða í viðtali þótti ekki gefa vísbendingar um að [...]. Umsækjandi var því hvorki talinn uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfsfólks í lykilstöðum hjá stofnuninni né henta vel fyrir starfseininguna sem starfið tilheyrir. Var það mat þeirra sem að ráðningaferlinu komu að að umsækjandi uppfyllti ekki kröfu um [...].

Með hliðsjón af ofangreindu hafi því verið tekin ákvörðun um að ráða ekki starfið á grundvelli auglýsingar í ljósi þess að eini um­sækjandinn um starfið hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem þar komu fram. 

  

2

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að stjórnvaldi er almennt heimilt að ljúka ráðningarmáli með því að ákveða að ráða engan í hið lausa starf, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 30. september 2014 í máli nr. 7923/2014 og frá 5. desember 2014 í máli nr. 7889/2014. Eins og fram kemur í framangreindum álitum er ákvörðun um að ljúka ráðningar­máli með þeim hætti matskennd stjórn­valdsákvörðun í þeim skilningi að í lögum er ekki kveðið með tæmandi hætti á um þau sjónarmið sem líta ber til við töku slíkrar ákvörðunar þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Þegar þannig háttar til að engum skráðum reglum er til að dreifa um þau sjónarmið sem líta verður til er almennt gengið út frá því að stjórn­valdið sem fer með ráðningar­valdið, í þessu tilfelli Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, hafi nokkuð ríkt svigrúm við val á þeim sjónarmiðum sem það kýs að leggja til grundvallar ákvörðun sinni. Í samræmi við réttmætis­reglu íslensks stjórnsýsluréttar þurfa þessi sjónarmið þó að vera mál­efna­leg. Í því sambandi er rétt að taka fram að umboðsmaður hefur almennt talið að málefnalegt sé að byggja á huglægum sjónarmiðum við ráðningar í opinber störf, s.s. persónulegum eiginleikum umsækjanda og frammistöðu í viðtali, ásamt hlutlægum mælanlegum viðmiðum, s.s menntun og starfs­reynslu.

Með hliðsjón af framansögðu verður að leggja til grundvallar að stjórnvald hafi töluvert svigrúm við mat á því hvort það velur að fara þá leið að falla frá ráðningu. Við meðferð kvartana sem beinast að slíku mati stjórnvalda lýtur athugun umboðsmanns almennt að því að kanna hvort stjórnvald hafi með fullnægjandi hætti staðið að rannsókn málsins, byggt mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og að þær ályktanir sem dregnar eru af gögnum málsins eigi sér stoð í þeim.

Af gögnum málsins má ráða að rannsókn Heilbrigðisstofnunar Vest­fjarða hafi, að loknu mati á hlutlægum gögnum, falist í viðtali við yður og því að afla umsagna meðmælenda og hafi huglæg atriði, svo sem frammistaða í viðtalinu og það sem fram kom í umræddum umsögnum, skipt verulegu máli við matið. Þegar svo háttar til að stjórnvald metur að sá umsækjandi sem sótti um stöðuna uppfylli ekki skilyrði auglýsingar með mati sem byggist á starfsviðtali og umsögnum meðmælenda verður endur­skoðun umboðsmanns Alþingis að þessu leyti takmörkuð við þau gögn sem liggja fyrir í málinu.

Í máli þessu liggur fyrir skráning úr starfsviðtalinu og samtölum framkvæmdastjóra lækninga við meðmælendur. Samkvæmt skráðum athuga­semdum úr starfsviðtali var yður veitt tækifæri til að tjá yður um hvert og eitt samtal sem framangreindur framkvæmdastjóri átti við meðmælendur yðar. Í kvörtun yðar takið þér hins vegar fram að þér hafið fengið að tjá yður „að óverulegu leyti“ um [...].

Ekki er að fullu ljóst hvað felst í þeirri athugasemd yðar að þér hafið fengið að tjá yður „að óverulegu leyti“ um það sem fram kom í sam­tölum framkvæmdastjóra lækninga og meðmælenda yðar. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins voru umsagnirnar ræddar sérstaklega í starfs­viðtalinu og athugasemdir yðar einnig skráðar. Ég fæ því ekki annað ráðið af gögnum málsins en að afstaða yðar til þeirra upplýsinga sem fram komu í umsögnum meðmælenda hafi legið fyrir áður en ákvörðun var tekin um að hætta við að ráða í starfið. Er því ekki að sjá að brotið hafi verið gegn andmælarétti yðar í málinu, sbr. 13. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993.   

Í ljósi þess sem að framan er rakið og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og þau gögn sem henni fylgdu tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um að hætta við ráðningu í starfið hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum með til­liti til þess ríka svigrúms sem stjórnvald hefur við val á þeim sjónarmiðum sem það kýs að leggja til grundvallar ákvörðun sinni. Hér hef ég einkum í huga að efni rökstuðningsins gefur ekki tilefni til að ætla að ákvörðunin hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum miðað við efni auglýsingar og eðli starfsins eða óforsvaranlegu mati á fyrirliggjandi gögnum málsins.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða mín að ég hafi ekki forsendur til að gera, í tilefni af kvörtun yðar, athugasemdir við ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um að hætta við að ráða í starf læknis á heilsugæslu á X.

  

IV

Með vísan til alls framangreinds tel ég ekki tilefni til frekari athugunar á máli yðar og lýk því athugun minni á því, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson