Kvartað var yfir því að nýliðunarstuðningur til að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði væri aðeins veittur fólki á aldrinum 18-40 ára.
Ekki var að sjá að kvörtunin lyti að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem beindist að viðkomandi heldur sneri hún að tilteknu skilyrði í reglugerð. Ekki voru því lagaskilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um kvörtunina.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. apríl 2021, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 12. apríl sl., yfir því að nýliðunarstuðningur, sem ætlaður eru til aðstoðar nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði, sé aðeins veittur einstaklingum á aldrinum 18 til 40 ára.
Í tilefni af kvörtuninni tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.
Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Þá tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett.
Ástæða þess að ég nefni ofangreint er sú að af kvörtun yðar er ekki að sjá að hún snúi að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem beinist að yður heldur snýr hún að því að það sé gert að skilyrði fyrir veitingu nýliðunarstuðnings að aðilar séu á aldrinum 18 til 40 ára.
Fjallað er um nýliðunarstuðning í IV. kafla reglugerðar nr. 1260/2018, um almennan stuðning við landbúnað, með síðari breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar þurfa rétthafar stuðningsins að uppfylla nánar tilgreind skilyrði, meðal annars að vera á umræddu aldursbili, sbr. b-lið 2. mgr. 16. gr. Framangreind reglugerð er sett á grundvelli heimildar í búnaðarlögum nr. 70/1998 og búvörulögum nr. 99/1993. Í 12. tölul. 2. gr. búvörulaga er nýliði í landbúnaði skilgreindur sem einstaklingur sem er á aldrinum 18 til 40 ára á því ári sem hann óskar eftir stuðningi og er að kaupa búrekstur í heild eða hluta í fyrsta skipti.
Í ljósi þess að kvörtun yðar snýr ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds og að nýliði í landbúnaði er sérstaklega skilgreindur í lögum sem einstaklingur á aldrinum 18 til 40 ára eru ekki skilyrði að lögum til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar.
Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.
Kjartan Bjarni Björgvinsson