Tafir. Heilbrigðisþjónusta. Leyfisveiting.

(Mál nr. 11034/2021)

Kvartað var yfir töfum af hálfu landlæknis á afgreiðslu umsóknar um leyfi til veitingar fjarheilbrigðisþjónustu.

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns upplýsti landlæknir að umsóknin hefði verið afgreidd og samþykkt. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.

  

Settu umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis frá 12. apríl sl. fyrir hönd A ehf. yfir töfum af hálfu landlæknis á afgreiðslu umsóknar félagsins um leyfi til veitingar fjarheilbrigðis­þjónustu frá 27. mars 2020.

Í tilefni af kvörtun yðar var landlækni ritað bréf, dags. 13. apríl sl., þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og af­greiðslu umsóknar félagsins. Nú hefur borist tölvupóstur frá félaginu ásamt gögnum, svari landlæknis til þess frá 20. apríl sl. og afriti af staðfestingu landlæknis á að rekstur A ehf. uppfylli faglegar lágmarkskröfur til að veita fjarheilbrigðisþjónustu. Jafnframt barst tölvupóstur frá landlækni 21. apríl sl., um að umsóknin hafi verið afgreidd og samþykkt.

Í ljósi þess að kvörtun yðar laut að því að umsóknin hefði ekki verið afgreidd og það hefur nú verið gert tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna hennar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson