Kvartað var yfir Útlendingastofnun í tengslum við umsókn um ríkisborgararétt.
Eftir því sem fram kom frá Útlendingastofnun var afgreiðslu umsóknarinnar ekki lokið. Þar sem erindið var enn til meðferðar og úrskurður dómsmálaráðuneytisins lá ekki heldur fyrir voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. apríl 2021, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar frá 15. apríl sl. sem lýtur að tilkynningu, dags. 31. mars sl., sem yður barst frá Útlendingastofnun vegna umsóknar yðar um íslenskan ríkisborgararétt á grundvelli laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Í tilkynningunni kemur fram að sonur yðar, B, þurfi að leggja fram sjálfstæða umsókn um ríkisborgararétt þar sem hann sé nú orðinn 18 ára gamall en í umsókn yðar munuð þér hafa sótt um að hann öðlaðist ríkisborgararétt ásamt yður. Þegar umsókn yðar var lögð fram mun sonur yðar hafa verið 17 ára og tveggja mánaða gamall. Þá kemur fram í tilkynningunni að þér þurfið að óska eftir því skriflega að umsókn sonar yðar um ríkisborgararétt verði dregin til baka en að öðrum kosti muni stofnunin taka ákvörðun um afgreiðslu umsóknarinnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Var þess óskað að þér legðuð fram fullnægjandi gögn innan 30 daga frá dagsetningu bréfsins. Þá kemur fram í bréfi stofnunarinnar að sonur yðar kunni að uppfylla skilyrði 3. gr. laga nr. 100/1952, sbr. nánar hér að neðan.
Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er mælt fyrir um það skilyrði þess að umboðsmaður taki mál til meðferðar að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til umboðsmanns sem aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að eftir því sem fram kemur í ofangreindu bréfi Útlendingastofnunar til yðar liggur fyrir að stofnunin hefur að svo stöddu ekki lokið afgreiðslu þeirrar umsóknar yðar og sonar yðar sem þér hafið lagt fram. Þá tek ég fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar á grundvelli laga nr. 100/1952 sæta kæru til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 17. gr. laganna. Þar sem Útlendingastofnun hefur erindi yðar enn til meðferðar og að ekki liggur fyrir úrskurður dómsmálaráðuneytisins er því ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég taki kvörtun yðar til frekari athugunar.
Að þessu leyti, sbr. einnig það sem fram kemur í bréfi Útlendingastofnunar til yðar, vil ég þó vekja athygli yðar og sonar yðar á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 100/1952. Þar segir að útlendingur sem hefur haft fasta búsetu og dvalist á Íslandi samfellt frá 13 ára aldri öðlist ríkisborgararétt með því að tilkynna Útlendingastofnun skriflega þá ósk sína eftir að 18 ára aldri er náð en áður en hann verður 21 árs. Þar sem sonur yðar hefur nú náð 18 ára aldri kann að vera að hann eigi rétt á því að hljóta íslenskan ríkisborgararétt á þessum grundvelli. Nánari upplýsingar um þennan rétt og þau gögn sem skulu fylgja tilkynningu þar um til Útlendingastofnunar, má nálgast á vefsíðu hennar: https://utl.is/index.php/rikisborgararettur-fyrir-18-21-ars. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess að svo stöddu hvernig stofnuninni beri að afgreiða slíka tilkynningu frá syni yðar.
Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Fari svo að sonur yðar komi á framfæri við Útlendingastofnun tilkynningu í samræmi við ofangreint og telur sig beittan rangsleitni að lokinni málsmeðferð stofnunarinnar og eftir atvikum dómsmálaráðuneytisins, getur hann leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Hið sama á við um málsmeðferð ofangreindra stjórnvalda og ákvörðunartöku þeirra í tengslum við umsókn yðar um ríkisborgararétt. Ef þér, eða sonur yðar, þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing eða með tölvupósti á netfangið postur@umb.althingi.is.
Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.
Kjartan Bjarni Björgvinsson