Börn. Barnaverndarmál. Gjafsókn.

(Mál nr. 11041/2021)

Kvartað var yfir vanrækslu barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í máli sonar viðkomandi en einnig að nefndin og Barnaverndarstofa hefðu brugðist viðkomandi í æsku. Jafnframt að gjaldfrjáls lögfræðiþjónusta stæði ekki til boða en hún væri forsenda fyrir gagnavinnslu vegna umsóknar um gjafsókn.

Eitt af skilyrðum þess að umboðsmaður geti tekið kvörtun til umfjöllunar er að hún berist innan árs frá því að sá stjórnsýslugerningur sem um ræðir hafi verið til lykta leiddur. Í samtali við starfsmann umboðsmanns kom m.a. fram að málið laut að athöfnum og ákvörðunum sem áttu sér stað í kringum árið 2018 eða fyrr og því ekki lagaskilyrði til að taka þennan hluta kvörtunarinnar til umfjöllunar. Hvað gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð snerti varð ekki séð af erindinu að það lyti að athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun aðila sem fallið gæti undir starfssvið umboðsmanns. Hann benti viðkomandi á að sækja mætti um gjafsókn til dómsmálaráðherra og til viðbótar að Lögmannafélag Íslands starfrækti lögmannavakt þar sem almenningi væri veitt ókeypis lögfræðiráðgjöf.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 15. apríl sl., yfir barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar og Barnaverndarstofu. Í kvörtun yðar kemur fram að þér teljið barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hafa vanrækt mál sonar yðar. Einnig að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar og Barnaverndarstofa hafi brugðist yður í æsku. Þá kemur einnig fram að þér teljið mál yðar beggja eiga heima hjá dómstólum og að þér eigið rétt á gjafsókn. Kvörtun yðar lýtur auk þess að því að yður standi ekki til boða gjaldfrjáls lögfræðiaðstoð fyrir þá vinnu sem þér teljið að þurfi að fara fram af hálfu lögfræðings áður en sótt er um gjafsókn. Í þessum efnum bendið þér á að þér getið ekki greitt lögfræðingi á einkamarkaði 300.000 kr. fyrir gagnavinnslu í tengslum við umsókn um gjafsókn og að þér getið þar með ekki höfðað mál gegn íslenska ríkinu.

Starfsmaður skrifstofu umboðsmanns hafði samband við yður sím­leiðis hinn 16. apríl sl. til þess að afla frekari upplýsinga um atvik málsins sem og kvörtun yðar. Í því samtali kom meðal annars fram að þér væruð ósáttar við athafnir og ákvarðanir barnaverndarnefndar Hafnar­fjarðar og Barnaverndarstofu sem áttu sér stað í kringum árið 2018 eða fyrr.

  

II

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins. Í 3. gr. sömu laga er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað en samkvæmt ákvæðinu nær það einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða falla undir 3. mgr. 3. gr.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 getur kvartað af því tilefni til umboðs­manns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Af því hvernig lög skilgreina hlutverk umboðsmanns leiðir þó að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðs­manns nema kvörtunin varði tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds og beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar umfram aðra. Umboðsmanni er hins vegar ekki samkvæmt lögum ætlað að að láta þeim sem leita til hans í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið ef ekki er um að ræða tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem fellur undir starfssvið umboðsmanns.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er síðan kveðið á um frekari skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Eitt þeirra skilyrða er að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórn­sýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. Í ljósi þess að kvörtun yðar, sem barst mér 15. apríl sl., lýtur að athöfnum og ákvörðunum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar og Barna­verndar­stofu sem áttu sér stað árið 2018 eða fyrr fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt. Ekki eru því uppfyllt lagaskilyrði til þess að ég taki þennan hluta kvörtunar yðar til umfjöllunar.

Hvað varðar þann hluta kvörtunar yðar er lýtur að því að yður standi ekki til boða gjaldfrjáls lögfræðiaðstoð fyrir þá vinnu sem þér teljið að þurfi að fara fram af hálfu lögfræðings áður en sótt er um gjaf­sókn er það að segja að ekki verður séð að erindi yðar að þessu leyti lúti að athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun aðila sem fallið getur undir starfssvið umboðsmanns heldur er það sett fram í því formi að óskað er eftir lögfræðilegri afstöðu minni til þessa atriðis. Í samræmi við það sem fyrr er rakið um hlutverk umboðsmanns samkvæmt lögum eru því ekki uppfyllt skilyrði til þess að ég taki erindi yðar að þessu leyti til frekari meðferðar.

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég þó rétt að taka fram að um gjafsókn er fjallað í XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 125. gr. laganna skipar ráðherra nefnd þriggja lögfræðinga, gjafsóknarnefnd, til fjögurra ára í senn til að veita umsögn um umsóknir um gjafsókn. Umsókn um gjafsókn skal vera skrifleg og beint til dómsmálaráðherra. Í henni skal greint skýrlega frá máli sem hún varðar og rökstutt að skilyrðum fyrir gjafsókn sé fullnægt. Umsókn skulu fylgja gögn eftir þörfum, sbr. 3. mgr. 125. gr. laganna. Ráðherra veitir gjafsókn eftir umsókn aðila. Hún verður því aðeins veitt að gjafsóknarnefnd mæli með því, sbr. 4. mgr. 125. gr. laganna.

Um skilyrði fyrir því að gjafsókn sé veitt er síðan fjallað í 126. gr. laganna. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:

a. að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almanna­fé,

b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.“

Með 7. gr. laga nr. 72/2012 voru skilyrði gjafsóknar samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 rýmkuð frá því sem áður var. Fólst breytingin í því að b-liður ákvæðisins var aftur felldur inn í ákvæðið. Í athuga­semdum við 7. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 72/2012 kemur fram að rýmkunin feli í sér að gjafsókn verði möguleg í málum sem eru mikilsverð réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings, svo sem mál sem varða heimtu skaðabóta fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, mál er varða lífeyris­réttindi, atvinnuréttindi og eignarréttindi, mál er varða bætur fyrir missi framfæranda, mál vegna læknamistaka, mál um réttindi varðandi frið­helgi einkalífs og önnur mál er varða hefðbundin mannréttindi. Þá gæti gjafsókn samkvæmt b-lið 1. mgr. verið veitt í málum einstaklinga gagnvart stjórnvöldum. (Sjá þskj. 1151 á 140. löggjafarþingi 2011-2012, bls. 8.)

Samkvæmt 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 getur ráðherra kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar í reglugerð, þ.m.t. hvenær nægilegt til­efni sé til þess að veita gjafsókn, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til að takmarka gjafsókn sam­kvæmt 1. mgr. 127. gr. laganna. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur ráð­herra sett reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfs­hætti gjafsóknarnefndar, með síðari breytingum. Í reglugerð nr. 45/2008 er meðal annars fjallað um form og efni umsóknar, rökstuðning sem og fylgigögn.

Í þessum efnum bendi ég yður auk þess á að í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Ákvæðið felur í sér að veita ber nauðsynlegar leiðbeiningar. Í því felst á hinn bóginn ekki skylda til þess að veita umfangsmikla og sérfræðilega ráðgjöf en það fer eftir atvikum máls og málaflokkum hverju sinni hversu ítarlegar leiðbeiningar þurfa að vera. Markmið leiðbeiningarskyldunnar er að gera málsaðila kleift að gæta réttar síns og halda málum sínum fram gagnvart stjórnvöldum á sem auð­veldastan og virkastan hátt sem og koma í veg fyrir að málsaðila glati rétti sínum vegna mistaka, vankunnáttu eða misskilnings. Sjá til hlið­sjónar Páll Hreinsson: Stjórnsýsluréttur. Málsmeðferð. Reykjavík 2013, bls. 429.

Hvorki í lögum nr. 91/1991 né í reglugerð nr. 45/2008 er sú krafa gerð að umsókn sé lögð fram af hálfu lögfræðings eða lögmanns. Yður er því fær sú leið að freista þess að senda sjálf dómsmálaráðuneytinu umsókn um gjafsókn, án aðkomu slíks aðila, og eftir atvikum leita eftir leiðbeiningum frá dómsmálaráðuneytinu, eins langt og leiðbeiningar­skylda þess nær.

Til viðbótar við framangreint tel ég rétt að benda yður á að Lög­mannafélag Íslands starfrækir lögmannavakt þar sem almenningi er veitt ókeypis lögfræðiráðgjöf. Nánari upplýsingar um lögmannavaktina er að finna á www.lmfi.is.

Fari svo að þér freistið þess að sækja um gjafsókn til dóms­málaráðuneytisins og ef þér teljið yður enn, að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins, beitta rangsleitni er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því er lyktir máls liggja fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

III

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið um starfssvið og hlutverk umboðsmanns Alþingis eru ekki uppfyllt skilyrði til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Er umfjöllun minni um mál yðar því hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson