Opinberar framkvæmdir, útboð og innkaup. Rökstuðningur. Endurupptaka.

(Mál nr. 10913/2021)

Kvartað var yfir Ríkiskaupum, ríkislögreglustjóra og kærunefnd útboðsmála í tengslum við útboð á einkennisfatnaði lögreglu en tilboð viðkomandi í tilteknum flokkum útboðsins höfðu verið metin ógild. 

Þá hluta kvörtunarinnar þar sem kæruleið hafði ekki verið tæmd gat umboðsmaður ekki tekið til umfjöllunar. Athugun umboðsmanns beindist því að þeim atriðum sem teflt hafði verið fram fyrir kærunefnd útboðsmála og úrlausnum hennar í tveimur málum. Fór hann lið fyrir lið yfir athugasemdirnar og taldi ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna neinnar þeirrar. Lutu þær að því hvort kröfum útboðsgagna hefði verið fullnægt í ákveðnum liðum, skilyrði um fjárhagsstöðu keppinautar, að kærunefndin hefði hvorki tekið afstöðu til allra röksemda í kæru né upplýst málið nægjanlega áður en hún tók ákvörðun og endurupptöku málsins.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til kvörtunar yðar f.h. X ehf., dags. 20. janúar sl., yfir Ríkiskaupum, ríkislögreglustjóra og kærunefnd útboðsmála. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að málsmeðferð Ríkiskaupa í útboði nr. 20783, úrskurði kærunefndar útboðsmála frá 22. maí sl. í máli nr. 13/2020, ákvörðun kærunefndar útboðsmála frá 13. ágúst sl. í máli nr. 13/2020B þar sem endurupptökubeiðni félagsins var hafnað sem og málsmeðferð og ákvörðun ríkiskaupa í útboði nr. 21229, sem ekki var kærð til kærunefndar útboðsmála.

Af gögnum málsins má ráða að X ehf. hafi tekið þátt í útboði Ríkiskaupa og ríkislögreglustjóra nr. 20783 í tengslum við einkennisfatnað lögreglu. Útboðið hafi skipst í sjö flokka, þ.e. 1) hlífðarfatnað/regnfatnað, 2) buxur fyrir útkallslögreglu, 3) buxur fyrir innivinnandi lögreglu, 4) skyrtu, 5) skyrtu/bol undir öryggisvesti, 6) polo-bol og 7) jakka/miðlag. Tilboð X ehf. í flokkum 1, 2 og 5 hafi verið metin ógild þar sem þau hafi ekki talist fullnægja lágmarkskröfum útboðsgagna. X ehf. hafi í kjölfarið krafist þess fyrir kærunefnd útboðsmála að val á tilboðum í flokkum 1, 2 og 5 yrði fellt úr gildi sem og að nefndin myndi láta í ljós álit sitt um skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart félaginu, sbr. 1. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016, um opinber innkaup.

Í stjórnsýslukæru félagsins, dags. 20. mars 2020, er byggt á því að sá sem varð fyrir valinu í framangreindum flokkum hafi ekki uppfyllt tiltekið skilyrði um fjárhagsstöðu bjóðanda sem sett hafi verið með stoð í 71. gr. laga nr. 120/2016. Þá eru einnig gerðar athugasemdir við að sá aðili hafi fengið fullt hús stiga fyrir verð í flokki 1 þrátt fyrir að hafa boðið hæsta verðið og vísað til þess að slíkt sé í ósamræmi við 1. gr. laga nr. 120/2016. Að endingu er á því byggt að kauptilboð X ehf. í flokki 1 hafi verið metið ógilt á grundvelli rangra staðreynda um fatnað félagsins. Af gögnum málsins má auk framangreinds ráða að félagið hafi við meðferð málsins sett fram athugasemdir, dags. 28. apríl 2020, sem hafi aðallega lotið að ósamræmi í rökstuðningi Ríkiskaupa og ríkislögreglustjóra fyrir ógildingu tilboða X ehf., því að fatanefnd ríkislögreglustjóra hafi verið hlutdræg við val á fatnaði sem og því að markmiðum laga nr. 120/2016 hafi ekki verið fylgt.

Af úrskurði kærunefndar útboðsmála, dags. 22. maí sl., í máli nr. 13/2020 má ráða að nefndin hafi fellt ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í flokki 2 úr gildi á grundvelli þess að sá aðila sem varð fyrir valinu í þeim flokki hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsins um fjárhagsstöðu bjóðanda. Öðrum kröfum X ehf. hafi verið hafnað. X ehf. hafi í kjölfarið farið fram á endurupptöku máls nr. 13/2020 sem hafnað hafi verið með ákvörðun hinn 13. ágúst sl. í máli nr. 13/2020B.

Í kvörtun yðar gerið þér athugasemdir við að kærunefnd útboðsmála hafi byggt niðurstöðu sína á því að í flokki 1 og 2 hafi X ehf. ekki fullnægt kröfum útboðsgagna þar sem sýnishorn X ehf. hafi ekki verið með endurskinsborða eins og útboðsgögn hafi áskilið. Má af kvörtun yðar að þessu leyti ráða að félagið sé ósammála því að slíkt valdi ógildi tilboðsins vegna tiltekinna samskipta við Ríkiskaup meðan á útboðinu stóð. Þá eru auk þess gerðar athugasemdir við að í niðurstöðu kærunefndar útboðsmála hafi ekki verið tekin afstaða til allra röksemda félagsins. Niðurstaða nefndarinnar hafi því ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða 22. gr. stjórnsýslulaga.

Í kjölfar kvörtunar yðar var kærunefnd útboðsmála ritað bréf, dags. 22. febrúar sl., þar sem óskað var eftir afriti að gögnum málsins en þau bárust 4. mars sl.

     

II

1

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem mögulega er ekki í samræmi við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Umboðsmaður hefur litið svo á að regla 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 gildi jafnframt um þau tilvik þar sem kærufrestur hefur liðið án þess að kæruheimild hafi verið nýtt.

Samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 120/2016 er hlutverk kærunefndar útboðsmála að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim, þar á meðal um almenn innkaup opinberra aðila. Heimild til að skjóta málum til nefndarinnar hafa þau fyrirtæki sem njóta réttinda samkvæmt lögunum og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls, sbr. 1. mgr. 105. gr. laga nr. 120/2016. Í ljósi þess að ákvörðun ríkiskaupa í útboði nr. 21229 var ekki kærð til nefndarinnar eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið þann hluta kvörtunar yðar til frekari meðferðar.

Þá tel ég einnig rétt að taka fram að í samræmi við sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 hefur umboðsmaður fylgt þeirri starfsvenju að þegar Alþingi hefur ákveðið að víkja frá almennum sjónarmiðum um inntak stjórnsýslukæru með því að setja lagareglur þar sem gerðar eru sérstakar kröfur um að aðili máls tilgreini sjálfur þá þætti ákvörðunar sem hann er ósáttur við og færi fram rök í því sambandi, og endurskoðun æðra stjórnvalds hefur af þeim sökum takmarkast við þær röksemdir sem aðili máls hefur teflt fram, hefur umboðsmaður almennt ekki fjallað um aðrar röksemdir sem nefndar eru í kvörtun en tilgreindar voru í stjórnsýslukærunni með fullnægjandi hætti.

Í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 er að finna lagareglu af framangreindum toga en þar segir meðal annars að í kæru skuli koma fram kröfur kæranda ásamt stuttri lýsingu málsatvika og málsástæðna og rökstuðningur. Kröfugerð kæranda skuli lúta að úrræðum nefndarinnar samkvæmt lögunum. Athugun mín á máli yðar mun því fyrst og fremst lúta að þeim atriðum sem fram koma í kvörtun yðar og sem teflt hefur verið fram að öðru leyti fyrir kærunefnd útboðsmála sem og úrlausnum kærunefndar útboðsmála í málum nr. 13/2020 og 13/2020B.

  

2

Eins og áður greinir eru í stjórnsýslukæru X ehf. til kærunefndar útboðsmála, dags. 20. mars 2020, gerðar athugasemdir við ógildingu tilboðs X ehf. í flokki 1. Þar er á það bent að rök fyrir ógildingu tilboðsins sem fram komu í tölvupósti frá Ríkiskaupum, dags. 16. mars 2020, hafi lotið að því að hlífðarbuxur í flokki 1 hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna þar sem buxurnar hafi ekki verið með rennilás á skálmum þannig að hægt væri að komast auðveldlega í þær, buxurnar hafi verið fóðraðar og með axlaböndum. Buxurnar séu aftur á móti með rennilás á skálmum sem nái upp að hnjám. Þær séu ekki fóðraðar heldur svokallaðar „Gori-tex“ skelbuxur. Auk þess sé hægt að taka axlabönd buxnanna af með einföldum hætti. Ógilding tilboðs félagsins í flokki 1 hafi þannig byggst á röngum staðreyndum um fatnað X ehf.

Af gögnum málsins má ráða að Ríkiskaup hafi leiðrétt framangreint í tölvupósti til X ehf., dags. 26. mars 2020, og bent á að boðnar buxur hafi sannanlega verið með rennilás en frágangur hafi verið slíkur að skálmarnar hafi ekki verið opnanlegar nema að litlu leyti. Skálmar matsmanna hafi ekki komist yfir skó þeirra og skór þeirra jafnframt fest í innra lagi buxnanna. Matsmenn hafi ekki talið auðvelt að klæðast buxunum í skóm eins og krafa hafi verið gerð um. Þá hafi umræddar buxur ekki verið með endurskini.

Auk framangreinds hafi verið bent á að sýnishorn í flokki 2 hafi verið blá þrátt fyrir kröfu um svartan lit í útboðsgögnum, hnéhlífar hafi vantað sem og endurskin. Í flokki 5 hafi búkur boðinnar skyrtu ekki verið úr teygjanlegu efni og efni á ermum ekki slitsterkt. Boðin skyrta hafi auk þess verið opnanleg lengra en krafa hafi verið gerð um. Flíkur X ehf. hafi þannig ekki fullnægt lágmarkskröfum útboðsgagna. Af greinargerð Ríkiskaupa og ríkislögreglustjóra, dags. 25. mars 2020, má ráða að sömu atriðum hafi verið haldið fram fyrir kærunefnd útboðsmála.

X ehf. hafi í kjölfarið sent kærunefnd útboðsmála athugasemdir, dags. 28. apríl, og meðal annars bent á ósamræmi í rökstuðningi Ríkiskaupa og ríkislögreglustjóra fyrir ógildingu tilboðs félagsins í flokki 1 sem og vísað til þess að endurskin sé hluti af þeim einkennum sem sett séu á fatnað eftir á. Ekki hafi verið gerðar kröfur um að sýnishorn skyldu vera með einkennum. Varðandi flokk 2 hafi félagið bent á að litur sýnishorns gæti ekki leitt til ógildingar á tilboði þess. Skýrt hafi verið tekið fram í útboðsgögnum að sýnishornum mætti skila inn í öðrum lit ef bjóðandi hefði ekki tök á að fá fötin í réttum lit fyrir afhendingu sýnishorna. Buxurnar hafi auk þess sannanlega verið með hnépúðavösum.

Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 skal tilboð talið ógilt ef það er ekki í samræmi við útboðsgögn, berst of seint, ef sönnun er fyrir leynilegu samráði eða spillingu eða ef kaupandi telur það vera óeðlilega lágt.

Í grein 1.2.4 í útboðslýsingu segir að bjóðandi skuli leggja fram sýnishorn af hverri boðinni flík í tilteknum stærðum. Sé slíkt ekki gert teljist tilboð hans ófullnægjandi/ógilt og það þá ekki tekið til frekara mats. Af úrskurði kærunefndar útboðsmála frá 22. maí sl. má ráða að nefndin hafi talið framangreint fela í sér að sýnishorn skyldu sýna þann fatnað sem boðinn væri í endanlegri mynd.

Í grein 1.6.1, er varðar flokk 1, er gerður greinarmunur á endurskini og merkingum. Að því er hið fyrrnefnda varðar er vísað til þess að einn svart/hvítur endurskinsborði, a.m.k. 3 sm. breiður, skuli vera á buxnaskálmum. Hvað varðar merkingar segir að á báðum ermum jakkans skuli vera „lögregluarmmerki“. Í grein 1.6.2, sem varðar flokk 2, segir undir liðnum „[e]ndurskin“ að einn svart/hvítur endurskinsborði, a.m.k. 3 sm. breiður, skuli vera á skálmum og ná allan hringinn. Hann skuli vera u.þ.b. 20-25 sm. frá brún.

Þá er einkennum lögreglu lýst í grein 1.6.8. Þar segir að bjóðendur skuli bjóða einkenni sem séu „að fullu sambærileg þeim einkennum sem lögreglan notar í dag“. Þeir bjóðendur sem kjósi að bjóða önnur einkenni skuli skila inn sýnishornum af þeim einkennum. Sé engum sýnishornum af einkennum skilað verði gert ráð fyrir að bjóðandi muni nota sömu einkenni og lögreglan notar í dag. Einkenni lögreglu eru í kjölfarið talin upp án þess að minnst sé á endurskinsborða.

Samkvæmt úrskurði kærunefndar útboðsmála er óumdeilt að sýnishorn X ehf. í flokkum 1 og 2 hafi ekki verið með endurskinsborða eins og áskilið hafi verið í greinum 1.6.1 og 1.6.2. Af framangreindu verður aftur á móti ekki annað ráðið en að endurskinsborðar hafi samkvæmt útboðslýsingu ekki talist til einkenna lögreglu eins og þeim er lýst í 1.6.8. Í samræmi við framangreint tel ég ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu kærunefndar útboðsmála um að tilboð yðar í flokkum 1 og 2 hafi ekki fullnægt kröfum útboðsgagna að þessu leyti. Í ljósi þessarar niðurstöðu tel ég auk þess ekki tilefni til að víkja að öðrum ógildingarástæðum fyrir tilboði X ehf. í flokkum 1 og 2.

  

3

Í stjórnsýslukæru X ehf. eru gerðar athugasemdir við val á tilboðum í flokkum 1, 2 og 5 vegna fjárhagsstöðu þess aðila sem varð fyrir valinu í þeim flokkum, þ.e. Y ehf. Í grein 1.3.4 í útboðsgögnum komi fram sú krafa að ársvelta bjóðanda árið 2018 skuli vera að lágmarki því sem nemi tvöföldu boðnu verði. Boð Y ehf. hafi samtals verið 152.676.099 kr. en samkvæmt ársreikningi hafi ársvelta félagsins árið 2018 verið 104.330.037 kr.

Í athugasemdum X ehf., dags. 28. apríl sl., kemur auk þess fram að félagið telji að líta verði til 2. málsl. 4. mgr. 71. gr. laga nr. 120/2016 í ljósi þess að Y ehf. hafi orðið fyrir valinu í nokkrum flokkum. Má af framangreindu leiða að félagið telji að krafan um að ársvelta bjóðanda árið 2018 skuli vera að lágmarki því sem nemi tvöföldu boðnu verði eins og segir í grein 1.3.4 nái til allra tilboða Y ehf. sem gengið var að í heild sinni.

Í 1. mgr. 71. gr. laga nr. 120/2016 kemur fram að fjárhagsstaða fyrirtækis skuli vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Í því skyni sé kaupanda heimilt að krefjast þess að fyrirtæki hafi tiltekna lágmarksveltu á ári, þ.m.t. tiltekna lágmarksveltu á því sviði sem samningur fellur undir. Í 4. mgr. 71. gr. laga nr. 120/2016 segir að þegar samningi er skipt í hluta skuli kröfur um fjárhagsstöðu eiga við um hvern einstakan hluta. Þó megi gera kröfu um lágmarksársveltu fyrirtækis með tilliti til fleiri samningshluta ef fyrirtæki sem verður fyrir valinu hlýtur samning um nokkrar samningslotur sem framkvæma á samtímis.

Fyrir liggur að kærunefnd útboðsmála ógilti val í flokki 2 á þeim grundvelli að ársvelta Y ehf. hafi árið 2018 ekki numið tvöföldu boðnu verði félagsins í þeim flokki. Aftur á móti hafi ársvelta félagsins árið 2018 numið tvöföldu boðnu verði tilboða fyrirtækisins í flokkum 1 og 5 og því hafi félagið fullnægt kröfum útboðsgagna að þessu leyti í þeim flokkum. Kröfum um ógildingu vals á tilboðum í flokkum 1 og 5 hafi því verið hafnað.

Af framangreindum lagagrundvelli má ráða að meginreglan sé sú að krafa um tiltekna fjárhagsstöðu skuli eiga við um hvern einstakan hlut þegar samningi er skipt í hluta, eins og við á í máli þessu sbr. grein 1.1.1 í útboðsgögnum, en að gera megi kröfu um lágmarksársveltu með tilliti til fleiri samningshluta ef fyrirtæki hlýtur samning um nokkrar samningslotur sem framkvæma á samtímis. Ekki verður séð að slík krafa hafi verið sett fram í útboðsgögnum.

Í ljósi þessa tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu kærunefndar útboðsmála að því er varðar fjárhagsstöðu Y ehf. í flokkum 1 og 5 enda námu tilboð félagsins í flokkum 1 og 5 annars vegar 50.160.122 kr. og hins vegar 32.424.899 kr. Ársvelta félagsins árið 2018, þ.e. 104.330.037 kr., nam þannig meira en tvöföldu boðnu verði félagsins í hvorum flokki fyrir sig.

  

4

Í kvörtun yðar eru gerðar athugasemdir við að kærunefnd útboðsmála hafi ekki tekið afstöðu til allra röksemda félagsins. Slíkt sé að mati félagsins ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þær kröfur sem gerðar séu til rökstuðnings samkvæmt 22. gr. laganna.

Í þessum efnum tel ég rétt að taka fram að í íslenskum stjórnsýslurétti hefur ekki verið talið að á stjórnvöldum hvíli fortakslaus skylda til að taka sérhverja röksemd sem aðili hefur sett fram til rökstuddrar úrlausnar. Á hinn bóginn hefur verið talið að almennt verði að gera þær kröfur til stjórnvalda að þau taki að minnsta kosti afstöðu til meginröksemda sem aðilar færa fram og hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins, sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 29. desember 2006 í máli nr. 4580/2005.

Með hliðsjón af framangreindu og að virtum lagagrundvelli málsins, sem og því að ekki verður annað ráðið af forsendum nefndarinnar en að hún hafi tekið afstöðu til meginröksemda félagsins í úrskurði sínum frá 22. maí sl., svo sem er tengjast ógildingu tilboða félagsins í flokkum 1 og 2 sem og fjárhagsstöðu Y ehf., tel ég ekki tilefni til þess að fjalla frekar um þetta atriði með hliðsjón af 22. gr. stjórnsýslulaga. Að sama skapi tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að framangreint hafi leitt til þess að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

  

III

Að endingu vík ég að ákvörðun kærunefndar útboðsmála, dags. 13. ágúst sl. í máli nr. 13/2020B, þar sem X ehf. var synjað um endurupptöku máls nr. 13/2020.

Um skilyrði fyrir endurupptöku stjórnsýslumáls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Að því er hið fyrrnefnda varðar segir í athugasemdum við frumvarp það er varð að stjórnsýslulögum að um sé að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess. Í tengslum við hið síðarnefnda er til þess vísað að ef atvik, sem talin voru réttlæta ákvörðun, hafa breyst verulega sé eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og það athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Þá er einnig fjallað um það að aðili geti átt rétt á endurupptöku máls í fleiri tilvikum en þessum tveimur, ýmist á grundvelli lögfestra eða óskráðra reglna. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3304-3305.)

Af gögnum málsins má ráða að beiðni félagsins um endurupptöku máls nr. 13/2020 hafi grundvallast á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í þeim efnum er meðal annars bent á að meðan á útboði stóð hafi eftirfarandi spurning verið lögð fyrir Ríkiskaup hinn 19. nóvember 2019:

„Do the samples need to be marked with the same marketing as in the final versions? For instance with reflectors and insignia etc.“

Svar ríkiskaupa hafi verið „[n]o“. Fyrir liggi því að mati félagsins opinber spurning sem gefi til kynna að endurskin hafi ekki þurft að vera á sýnishornum. Því hafi verið ófullnægjandi af hálfu nefndarinnar að byggja niðurstöðu sína á því að X ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna í flokki 1 og 2 vegna skorts á endurskinsborða á sýnishornum.

Til viðbótar við framangreint er því haldið fram í endurupptökubeiðni félagsins, dags. 24. maí sl., að líta beri til andskýringarreglu samningaréttar og skýra óljós eða umdeilanleg samningsákvæði þeim í óhag sem samdi þau einhliða. Jafnframt að líta beri til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga en í þeim efnum eru gerðar athugasemdir við að kærunefnd útboðsmála hafi ekki talið tilefni til að rannsaka og skoða hvað hafi valdið ógildingu annarra tilboða en tilboðs Y ehf. í flokki 1 og hvort framkvæmd útboðsins að þessu leyti hafi verið í samræmi við markmið laga nr. 120/2016. Þessu hafi kærunefnd útboðsmála ekki svarað í úrskurði sínum, dags. 22. maí sl., og rökstuðningur nefndarinnar því ekki verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til efni rökstuðnings samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga.

Í ákvörðun kærunefndar útboðsmála, dags. 13. ágúst sl., er bent á að framangreind spurning hafi lotið að því hvort sýnishorn fatnaðar skyldu vera merkt með sams konar hætti og í lokaútgáfu, svo sem varðandi endurskinsmerki og einkenni. Ríkiskaup hafi svarað spurningunni neitandi. Að mati kærunefndar útboðsmála yrði svarið ekki skilið á þann hátt að Ríkiskaup hafi með því fallið frá þeirri skýru kröfu samkvæmt útboðsgögnum að endurskinsborðar skyldu vera á sýnishornum fatnaðar. Það hafi að endingu verið niðurstaða kærunefndar útboðsmála að X ehf. hafi ekki bent á nein atriði sem haggað geti forsendum úrskurðar kærunefndar útboðsmála þannig að þýðingu hafi fyrir efnislega niðurstöðu málsins. Endurupptökubeiðni félagsins hafi því verið hafnað.

Eftir að hafa kynnt mér ákvörðun nefndarinnar frá 13. ágúst sl., gögn málsins og þann lagagrundvöll sem um endurupptöku stjórnsýslumála gildir, sem meðal annars er reifaður að hluta til hér að framan, tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við synjun kærunefndar útboðsmála á beiðni yðar um endurupptöku málsins enda benda atvik ekki til þess að skilyrði séu fyrir endurupptöku. Í þeim efnum hef ég einkum í huga að ég tel mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við afstöðu nefndarinnar að því er varðar hina tilvitnuðu spurningu og svar Ríkiskaupa sem og það að aðrar málsástæður X ehf. bendi ekki til þess að skilyrðum endurupptöku sé fullnægt í málinu.

 

IV

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar að öðru leyti en að framan greinir tel ég ekki tilefni til aðgerða af minni hálfu. Umfjöllun minni um mál yðar er hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson