Skattar og gjöld. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Lagasetning Alþingis. Gjöld til lífsskoðunar- og trúfélaga.

(Mál nr. 11042/2021)

Kvartað var yfir svörum fjármála- og efnahagsráðuneytis við erindum um að skattgreiðslur viðkomandi yrðu lækkaðar um sem nemur sóknargjöldum þar sem hann stæði utan trú- og lífsskoðunarfélaga.

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis, sem ákveður með lögum fyrirkomulag sóknargjalda, voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina að því leyti. Hvað snerti samskiptin við ráðuneytið tók umboðsmaður fram að hann teldi svör þess ekki gefa tilefni til að taka þau til frekari athugunar.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Ég vísa til kvörtunar yðar, sem var móttekin á skrifstofu umboðsmanns Alþingis 19. apríl sl., yfir svörum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við erindum yðar um að skattgreiðslur yðar yrðu lækkaðar. Af kvörtuninni og gögnum sem fylgdu henni verður ráðið að þér teljið forsendur til að lækka skattgreiðslur yðar um sem nemur upphæð sóknargjalda þar sem þér tilheyrið hvorki trúar- né lífsskoðunarfélagi. Útgjöld ríkissjóðs séu lægri af þeim sökum. Af samskiptunum verður ráðið að þér teljið núverandi fyrirkomulag brjóta í bága við mannréttindi yðar.

Eins og yður er kunnugt um hefur Alþingi ákveðið með lögum fyrirkomulag sóknargjalda, sbr. lög nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl. Meðal þess sem er ákveðið í lögunum er upphæð sóknargjalda, vegna hvaða einstaklinga ríkissjóður skal greiða sóknargjöld og hvert þau skulu renna. Samkvæmt því sem þar kemur fram liggur meðal annars fyrir að löggjafinn hefur ákveðið að fjármagna lífsskoðunar- og trúfélög af hálfu ríkisins með því að ætla þeim hlutdeild í tekjuskatti. Sérstakur skattur er hins vegar ekki lagður á í þeim tilgangi.

Ástæða þess að ég legg áherslu á framangreint er að starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt því er að jafnaði ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á því hvernig til hefur tekist með löggjöf Alþingis. Í 11. gr. sömu laga er umboðsmanni þó fengin heimild til þess að tilkynna Alþingi ef hann verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að bera fram kvörtun beinlínis af því tilefni þótt vitanlega sé öllum frjálst að benda á slík atriði. Þar sem erindi yðar lýtur í grunninn að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur valið fjármögnun lífsskoðunar- og trúfélaga af hálfu ríkisins tel ég ekki uppfyllt skilyrði laga til að taka kvörtun yðar til athugunar.

Að því marki sem kvörtunin beinist að samskiptum yðar við fjármála- og efnahagsráðuneytið skal tekið fram að ég tel svör ráðuneytisins ekki gefa mér tilefni til að taka þau til frekari athugunar. Í þeim efnum bendi ég á að frekari upplýsingar um sóknargjöld eru til dæmis á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins, sem er það ráðuneyti sem fer með trúmál, þar á meðal sóknargjöld, sbr. d-lið 25. tölul. 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með málefni sem varða skatta, sbr. 4. tölul. 5. gr. sama forsetaúrskurðar, tel ég þó ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að það ráðuneyti hafi svarað erindum yðar í stað þess að framsenda þau dómsmálaráðuneytinu.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson