Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Bólusetningar. COVID-19.

(Mál nr. 11051/2021 og 11052/2021)

Óskað var eftir að umboðsmaður tæki bólusetningu vegna COVID-19 og framkvæmd hennar til athugunar og skæri úr um hvort heilbrigðisráðuneytinu væri skylt að verða við beiðni viðkomandi um upplýsingar um samninga íslenska ríkisins um kaup á bóluefni.

Þar sem erindið laut annars vegar almennt að framkvæmd bólusetninga en ekki með beinum hætti  að hagsmunum viðkomandi eða réttindum og hins vegar að stjórnsýslumáli sem ekki var lokið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki það til frekari athugunar. Benti hann viðkomandi á að bera mætti synjun um aðgang að gögnum, samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga, undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og hvaða reglur giltu þar um.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. apríl 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Ég vísa til erinda yðar sem bárust umboðsmanni Alþingis 23. apríl sl. og lúta að bólusetningum sem nú standa yfir vegna heimsfaraldurs COVID-19 og beiðni yðar um aðgang að upplýsingum um samninga sem íslenska ríkið hefur gert um kaup á bóluefni við framleiðendur þeirra sem þér hafið komið á framfæri við heilbrigðisráðuneytið. Í erindum yðar er þess annars vegar óskað að umboðsmaður taki bólusetningu vegna COVID-19 og framkvæmd hennar til nánari athugunar. Hins vegar er þess óskað að umboðsmaður skeri úr um hvort heilbrigðisráðuneytinu sé skylt að verða við ofangreindri beiðni yðar og afhenda upplýsingar um þá samninga sem gerðir hafa verið við framleiðendur bóluefna.

  

II

Eftir því sem fram kemur í samskiptum yðar við heilbrigðisráðuneytið frá því í byrjun mars sl. sem fylgdu erindum yðar hefur ráðuneytið lýst þeirri afstöðu að þeir samningar sem gerðir hafa verið um kaup á bóluefni falli undir 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2020 um takmarkanir á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna og 2. tölul. 10. gr. laganna um takmarkanir á aðgangi að gögnum sem geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir þegar almannahagsmundir krefjast þess. Í tölvupósti frá yður til ráðuneytisins frá 19. apríl sl. óskuðuð þér formlega eftir því að afrit af ofangreindum samningum yrðu afhent yður. Eftir því sem fram kemur í erindi yðar hefur ráðuneytið ekki brugðist við þeirri beiðni yðar.

  

III

Í tilefni af erindum yðar tek ég fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðs­manns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Þar sem erindi yðar lýtur öðrum þræði að framkvæmd bólusetninga vegna COVID-19 með almennum hætti, þ.e. það lýtur ekki að atriðum sem varða hagsmuni yðar eða réttindi með beinum hætti eða umfram aðra, og hins vegar, þ.e. varðandi beiðni yðar um aðgang að gögnum, að stjórnsýslumáli sem ekki hefur verið lokið af hálfu ráðuneytisins er ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég geti tekið erindi yðar til frekari athugunar.

Að þessu leyti vek ég einnig athygli yðar á því að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga skal mál borið skriflega undir nefndina og innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Þá segir í 3. mgr. 17. gr. laganna að hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar sé beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs.

   

IV

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Fari svo að heilbrigðisráðuneytið synji ofangreindri beiðni yðar um aðgang að gögnum og þér ákveðið að kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál eða þér leitið til nefndarinnar á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga getið þér, ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, leitað á nýjan leik til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi.

Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing eða með tölvupósti á netfangið postur@umb.althingi.is. Jafnframt bendi ég á að upplýsingar  um starfssvið, hlutverk og starfshætti umboðsmanns er hægt að kynna sér á vefsíðu hans á slóðinni https://www.umbodsmadur.is/um-umbodsmann.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

  

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson