Aðgangur að gögnum og upplýsingum. COVID-19.

(Mál nr. 11055/2021, 11056/2021, 11057/2021, og 11058/2021)

Kvartað var yfir að heilbrigðisráðuneytið hefði ekki afhent gögn sem um kostnað af samningsgerð við kaup á tilteknum bóluefnum og fleiru.

Efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál er forsenda þess að umboðsmaður geti fjallað um hvort afgreiðsla á beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga hafi verið í samræmi við lög. Var viðkomandi því bent á að leita til hennar áður en umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til umfjöllunar.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. apríl 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Ég vísa til kvartana yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 27. apríl sl., yfir heilbrigðisráðuneytinu. Nánar tiltekið lúta kvartanir yðar, sem fengu númerin 11055/2021, 11056/2021, 11057/2021 og 11058/2021 í málaskrá embættisins, að því að ráðuneytið hafi ekki afhent yður umbeðin gögn. 

f gögnum málsins má ráða að þér senduð heilbrigðisráðuneytinu erindi, dags. 5., 8., 9. og 11. febrúar sl., þar sem þess var óskað að yður yrði veittur aðgangur að gögnum um kostnað af samningsgerð við kaup á bóluefninu AstraZeneca, SARS-CoV-2 veiruna, PCR-próf sem og kaupsamningum ríkisins um nánar tilgreind bóluefni. Beiðnir yðar hafi verið ítrekaðar 8. mars sl. en yður hafi enn sem komið er ekki borist svör frá ráðuneytinu.

Í upplýsingalögum nr. 140/2012 er gengið út frá því að skylt sé að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál sem og aðgang að tilteknum fyrirliggjandi gögnum, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í frumvarpi því er varð að lögunum segir að það sé skilyrði að gagn sé fyrirliggjandi hjá þeim sem fær beiðni um aðgang til afgreiðslu. Réttur til aðgangs að gögnum nái þannig aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram. Ekki er skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.(Sjá þskj. 223 á 141. löggjafarþingi 2012-2013, bls. 41-42.).

Í 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga segir að tekin skuli ákvörðun um það hvort orðið verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skuli skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Þá segir í 3. mgr. 17. gr. að hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar er beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs.

Eins og áður segir voru beiðnir yðar um aðgang að gögnum lagðar fram 5., 8., 9. og 11. febrúar sl. Yður er því, í samræmi við framangreint ákvæði 3. mgr. 17. gr., fær sú leið að freista þess að beina erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Að svo stöddu hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvernig leysa beri efnislega úr beiðnum yðar á grundvelli upplýsingalaga enda er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í samræmi við ákvæðið er það forsenda þess að ég geti fjallað um hvort afgreiðsla á beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga hafi verið í samræmi við lög að efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál liggi fyrir. Ef þér kjósið að leita til nefndarinnar og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni úrlausn hennar getið þér leitað til umboðsmanns á ný með erindi þar að lútandi innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson